Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
![]() |
sunnudagur, nóvember 03, 2002
Loksins gerðist eitthvað hjá okkur, en ekki bara af sjálfu sér, þetta var skipulagt. Í gærmorgun vöknuðum við kl. 7:50. Til að þið sjáið öll sömul þvílíkt afrek þetta var þá vil ég minna ykkur á að í gær var laugardagur, sem sagt frídagur, og við vöknuðum snemma, jafn snemma og á virkum dögum!!!! Eru allir að ná þessu. Og það hlaut að vera tilhlýðileg skýring á því að við fórum fram úr. Við vorum búnar að mæla okkur mót við Hrönn og Georg á T-centralnum rúmlega 9 því saman ætluðum við að skreppa til Uppsala og hitta aðra skólafélaga úr HÍ. Mættum 10:20 til Uppsala en þar sem lestarferðin (sem tók 40 mín) hafði gengið svo vel (við kjöftuðum nefnilega svo mikið) þá steingleymdum við að hringja í Snævar og Sigrúnu og mæla okkur mót. Gerðum það og biðum á McDonald’s á meðan. Hittum svo Snævar, Sigrúnu, Örnu og Karvel. Það var nú ekki amalegt að vera með 1 “guide” á mann til að lóðsa okkur. Þetta hljóta að vera æfðir leiðsögumenn því þau létu okkur þramma alveg heilmikið og vissu ofsaleg mikið. Sáum dómkirkjuna, en hún á að vera stærsta kirkjan á norðurlöndum og þau vildu líka halda því fram að hún væri elst. Kirkjan var mjög flott, úr múrsteinum að utan og með fullt af útskotum að innan. Þarna fer fram konungskrýningin og eru nokkrir konungar og aðalsmenn grafnir þarna. Fórum á safn (Museum of Medical History) og sáum kattasýningu, víkingadót, kóngadót, og krufningasal. Krufningasalurinn er byggður upp eins og hringleikahús, en þar krufði einhver víst frægur læknir á 17. öld útigangsmenn og seldi aðgang. Krufningarnar fóru einungis fram á nóttunni því það þótti ekki sæma að gera það á sama tíma og kirkjan (stóra dómkirkjan) var opin, en kirkjan stendur 100 metrum frá. Á veggjunum hanga 5 gömul landakort og m.a. eitt kort af Íslandi. Okkur er því gert ansi hátt undir höfði þar sem ekkert hinna kortanna sýndi eitt land. Fórum í gamla Uppsala, þar sem Uppsala var í gamla daga, það er svona úthverfi af Uppsala í dag. Skoðuðum þar kirkju og löbbuðum í kringum nokkra hóla þar sem kóngar voru grafnir í gamla daga, og við erum ekki tala um neina smá hóla og ekkert smá gamla daga, og það var alveg fullt af þeim. Það er búið að eyðileggja það sem var inni í sumum hólanna og á krufningalæknirinn frægi frá 17. öld (vísindamaður þess tíma) sökina. Hann gróf draslið út og er ekki vitað hvað varð um það, sem er frekar sorglegt því ég get nú ekki ímyndað mér hvaða upplýsingar hann hefur getað fengið út úr þessum haugum á þeim tíma nema að það stæði nafn viðkomandi kóngs skýrum stöfum einhvers staðar. Fórum svo heim í fína íbúð Snævars og Sigrúnar þar sem var borðað og kjaftað, horft smá á Svía vinna Íslendinga í handbolta (eins og vanalega) og fór Staffan Olsson “yfirsvíagrýla” þar fremstur í flokki. Tókum síðan sænskt pictionary, þ.e. orðin voru á sænsku en auðvitað þýddum við þau yfir á íslensku. Náðum ekki að klára spilið þar höfuðborgarfólkið þurfti að drattast heim en við Auður vorum alveg á leiðinni að vinna! Frábær dagur, hlakka til að hitta þau næst og er það áætlað laugardaginn 14. des þar sem við ætlum að hafa jólaglögg. Mamma hringdi áðan, og vakti okkur, það þarf nú eiginlega ekki að taka það fram lengur! Það voru nú ekki miklir fréttaflutningar en það er alltaf svo gaman að heyra í henni, hún verður síðan að fara að drífa sig hingað og draga pabba með. Inga frænka er með afmælisveislu (af því hún er orðin svo gömul muniði!) í dag. Ég veit bara ekkert hvar veislan er en þið ættuð að geta fundið Ingu í símaskrá Selfoss og hringt í hana! Góða skemmtun. |