Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, júní 07, 2004
 
Ahhh, núna er sumarið sko heldur betur komið. Helgin var þvílíkt sólrík og við komnar með aðeins fleiri freknur. Við vorum þvílíkt duglegar á laugardaginn. Hringdum í Georg og báðum hann að baka handa okkur pönnukökur sem við áttum inni, við æltuðum nefnilega að hjóla til hans. Lestarkortin okkar Auðar runnu út um helgina og við vorum búnar að ákveða að hjóla í vinnuna þar til við færum í sumarfrí sem er bara eftir 2 og hálfa viku. Það var því alvega kjörið að æfa sig einu sinni, hvaða leið maður á nú að taka og svoleiðis þar sem Hrönn og Georg eiga heima á Universitet svæðinu (við Auður vinnum á Universitet svæðinu).

Hérna í Stokkhólmi er nokkuð vel hugsað um hjólandi fólk, það er allavega oft gert ráð fyrir því að þetta fólk þurfi smá pláss til að hjóla og eru því fullt af hjólastígum. Ökumenn eru líka vingjarnlegir og hleypa manni yfir göturnar.
Það var því svo sem ekki svo mikið mál að hjóla nema að því leyti að leiðin er nú soldið löng, tók okkur 1 klst og 10 mín alla leið til Georgs. Við töfðumst reyndar aðeins vegna fólksfjöldans í miðbænum því Stokkhólms maraþon var í fullum gangi og svo villtumst við líka örlítið. Eftir allt þetta voru ljúffengar pönnukökur kærkomnar. V.þ.a. það er bannað að fara með hjól í lestarnar hérna þá er eins gott að vera nógu ákveðinn í því að ætla að hjóla þegar maður fer af stað því annars verður maður að skilja hjólið eftir einhvers staðar.

Stoppuðum ekki mjög lengi hjá Georg því við vorum boðnar í innflutningspartý hjá Míu, finnsku djammvinkonu okkar. Við hjóluðum að sjálf sögðu ekki þangað. Þarna var þrusugaman, full af stelpum og fæstar sænskar. Þar sem húsráðandi (Karin, Mía leigir hjá henni) vann á Íslandi sumarið 1996 þá vildum við endilega sjá myndir. Hún var auðvitað himinlifandi því eins enginn annar hefur áhuga á að kíkja á myndirnar.
Þetta var almennilegt partý sem byrjaði ekki of snemma og var frekar seint á sænskum mælikvarða, til tæplega 3 sem þýddi að við náðum lestunum heim.

Á leiðinni frá Míu varð ég fyrir frábærri upplifun. Það er alveg mögulegt að ég hafi hitt núverandi uppáhalds dýrið mitt. Undanfarið hefur það verið íkorni en á laugardagsnóttina benti Auður mér á dýr í runna og byrjaði ég auðvitað strax að elta það. Þegar ég náði því þá sá ég að þetta var broddgöltur (man reyndar ekki hvort Auður var búin að segja mér að þetta væri broddgöltur og þess vegna hafi ég stokkið af stað). Ég strauk einu sinni yfir broddana og var það allt í lagi en svo fékk ég þá snilldar hugmynd að taka hann upp. Ég efa að broddgölturinn sé jafn hrifinn af mér og ég af honum því ég er með lítil stungusár á þremur fingrum sem ég átti reyndar fyllilega skilið. Ég er þegar áköf í að finna annan broddgölt því Auður sagði mér að þegar hún var í Danmörku þegar hún var lítil (10 ára) þá fékk hún að klappa broddgelti sem bjó í garðinum hjá einhverju fólki. Þetta snýst víst um að þegar broddgölturinn treystir manni þá finnst þeim ekkert mál að leyfa fólki að klappa sér, þeim finnst það víst ofsalega gott. Þá er bara málið að láta þá treysta sér :)

Á sunnudeginum gerðum við að sjálfsögðu ekki mikið. Sóluðum okkur smá og lásum. Ég er komin langleiðina með sænska Harry Potter, les hraðar því meira spennandi sem bókin verður.
Strákurinn sem við leigjum íbúðina af kom með borvélina sína og hengdi upp nýju gardínurnar okkar í svefnherberginu. Þær eru dökkbláar og þykkar og halda nánast öllu ljósi frá. Núna er algjör draumur að sofa þarna og íbúðin tilbúin fyrir innflutningspartýið.