Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, október 11, 2004
 
Núna er rúm vika þar til við Auður stökkvum upp í flugvél og brunum til Mumma í Sviss. Förum á fimmtudeginum 21. okt og komum til baka mánudaginn 25. (líka okt!). Við hlökkum auðvitað báðar ofsalega til, mest að sjá Mumma en líka að sjá Sviss. Ég er reyndar ekki alveg viss, en það er mögulegt að við höfum farið til Sviss á 2. ári í efnafræðinni, og jafnvel til Basel þar sem Mummi er. Kannski einhver geti sagt mér hvert ég fór :) Líklega ekki hægt að spyrja Mumma því hann man heldur ekki neitt.

En helgin var alveg hin notalegsta hjá okkur. Á laugardaginn fórum við ásamt Hrönn og Georg til Uppsala að heimsækja Örnu, Karvel, Snævar og Sigrúnu. Arna var sú eina sem var heima um hádegið og reyndi hún að þreyta okkur með því að láta okkur labba um allan bæinn. Veðrið var fínt og Uppsala fallegt að vanda, okkur var því ekkert meint af röltinu. Og það var ekki að sjá að Arna væri komin 5 mánuði á leið, hún var enginn eftirbátur okkar hinna sem eru laus við sníkjudýr af þessari stærðargráðu.
Þegar leið að kvöldmatnum sameinuðust allir heima hjá Snævar og Sigrúnu og borðuðu fajitas. Okkur leið eins og maður ímyndar sér þessar stóru innflytjendafjölskyldur; 8 við matarborðið og hendur út um allt að reyna að ná sér í mat.
Það vantar ekki leikgleðina og hugmyndaríkið hjá sveitafólkinu. Uppsalabúar kenndu okkur hinum nýja útgáfu af Fimbulfambi; orðabókarútgáfuna, sem gefur manni möguleika á að spila Fimbulfamb ef maður á ekki spilið. Ég spilaði þetta spil eitt kvöld fyrir 10 árum og þótti það alveg óskaplega leiðinlegt sökum hugmyndaleysis. Hugmyndaleysið er ekki lengur fötlun hjá mér en ég var samt langt frá sigrinum. Kannski þarf ég að æfa mig í að giska á rétt svar!

Í gær hengum við inni allan daginn. Fórum ekki einu sinni út í búð, en við opnuðum eldhúsgluggann í smá stund.
Það er sko heldur betur hægt að dunda sér heima heilan dag, mest með því að horfa á Friends. Haukur, elsku bróðir, okkur vantar meiri Friends, erum búnar að horfa á allt sem við eigum (2., 3., 9. og 10. seríu) nokkrum sinnum! Eins og vanalega var þvottadagur í gær. Ég skil bara ekkert í öllum þessum þvotti, við erum bara tvær en þvoum samt 4 vélar á viku. Ég legg ekki í að okkur fjölgi einhvern tímann á þessu heimili, þá verðum við að ráða ráðskonu.

Eftir 4 vikur fáum við gesti, Ögmund og Kalla, og ætla þeir að stoppa í marga daga.
Og í lok nóvember koma tengdamamma og stjúptengdapabbi. Þetta fólk veit ekki hvað bíður þeirra að koma svona nálægt jólunum :)