Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, desember 01, 2004
 
Vegna Uppsalakúrsins vöknuðum við Auður klukkan 6:20 í morgun. Ég fer alltaf á fætur með Auði þó að ég gæti nú vel sofið í rúman klukkutíma í viðbót. Það er gaman að fara saman á fætur og það eykur líkurnar á að við verðum syfjaðar á sama tíma á kvöldin. Ég var óvenju þreytt í morgun og þegar ein í vinnunni hafði orð á því sagði ég stolt frá því að ég hefði vaknað klukkan 6:20 og að við vöknuðum alltaf fyrir 7 nú orðið því Auður væri í mánaðarkúrsi í Uppsala. Stelpan virtist vorkenna mér ofsalega en sagði svo að hún og kærastinn hennar vöknuðu alltaf klukkan hálf sex, eins og í 5:30!!! og hefðu gert það síðan í haust þegar þau fluttu aðeins út fyrir borgina. Þá skammaðist ég mín smá og hætti að væla.
Þegar ég vann í humri í Þorlákshöfn í gamla daga, þurfti maður alltaf að vera mættur klukkan 7 og því að vakna klukkan 6. Stöku sinnum mættum við 6 og vöknuðum því 5. Eftir þessa reynslu gat ég ekki séð að það væri nein ástæða fyrir mig í framtíðinni að vakna fyrir klukkan 7, sérstaklega ekki þegar maður verður orðinn fullorðinn því þá réði maður sko því sem maður gerði. En sumir hlutir breytast kannski aldrei.

Á mánudaginn var "Nýjasta tækni og vísindi" Svía í sjónvarpinu þar sem kynnirinn er öllu líflegri og skemmtilegri en okkar annars ágæti íslenski Richter. En það var ekki það merkilegasta. Auðvitað horfðum við einungis á þáttinn því það átti að fjalla um Ísland, vetnisframleiðslu og notkun á Íslandi. Og með aðalhlutverk fór prófessor Bragi Árnason sem kenndi okkur almenna efnafræði í Háskóla Íslands. Prófessor Bragi er alveg frábær náungi, léttur (andlega) og tekur sjálfan sig alveg rétt mátulega alvarlega. Bara karakterinn og útlitið er nóg til að veltast um að hlátri. En þetta er auðvitað eitt af þessum "you had to be there" dæmum.