Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, janúar 25, 2005
 
Núna eru gestirnir okkar farnir heim til Íslands. Mamma fór á sunnudaginn en pabbi í dag. Það var alveg ofsalega gaman að hafa þau og gerðum við alveg fullt skemmtilegt saman. Þau komu líka með ýmisleg íslensk góðgæti til okkar, s.s. SS-pylsur, Hraun, lakkrís, rauðan ópal, hrosskjöt, skyr og harðfisk.

Á fimmtudeginum, komudeginum, labbaði ég með þau í bænum því það voru ennþá fullt af útsölum í gangi. Fljótlega áttaði ég mig á að þau voru ekki á nákvæmlega sömu bylgjulengd og ég hvað varðar peninga og sparnað en auðvitað höfðu þau samt gaman af útsölunum, hver hefur ekki gaman af því! Drifum okkur því heim og bjuggum til frábæra pizzu og spiluðum kana auk þess sem mamma þrengdi nýju, fínu dragtina mína.

Á föstudeginum fór Auður í vinnuna en við hin sváfum aðeins út og skoðuðum síðan ráðhúsið. Þetta hús er afar merkilegt og túrinn vel peninganna virði því leiðsögumaðurinn var vel að sér í sögu byggingarinnar. Gestirnir voru mjög hrifnir og vilja benda öðrum gestum á að fara eftir vinsamlegum ábendingum okkar þegar þeir koma í heimsókn.
Gestirnir voru sífellt svangir og var því títt stoppað til að fá sér í gogginn sem leiddi til þess að allir voru saddir þegar kom að kvöldmatnum. Eftir þrælgóða súpu og brauð að hætti Auðar fórum við á blústónleika á knæpu með fullt af þröngum og litlum herbergjum ef herbergi á að kalla því sumt var nú bara örlítið útskot. Þrátt fyrir að hljómsveitin hafi nú kannski ekki verið á heimsmælikvarða var þrælgaman að hlusta, sérstaklega í ljósi þess að þetta var live og við í besta stæði í húsinu með bjór á borðinu.

Eftir að hafa hangið smá í Kringlunni, sem er næst okkur, á laugardeginum, fórum við á krá til að horfa á Manchester United keppa gegn Aston Villa. Það þarf nú kannski ekki að taka það fram að Manchester vann 3-1. Auður mín var alveg til friðs allan tímann þrátt fyrir að vera allt annað en fótboltaáhugamanneskja, kannski var það allur maturinn sem hélt henni upptekinni. Auður kipptist þó af og til við meðan á leiknum stóð, þ.e. þegar mamma og pabbi fögnuðu mörkum sinna manna og þegar þó bölvuðu hinum fyrir allt sem þeir gerðu gegn Manchester. Litla skinnið mitt er ekki vön svona hávaða og látum og ákafa áhorfenda en skildi fljótt að þetta var ekkert hættulegt.
Eftir leikinn drifum við okkur heim og spiluðum langt fram eftir kvöldi þar sem leikmannatapi var vænst daginn eftir.

Á sunnudeginum fylgdum við öll mömmu að flugrútunni. Pabbi gerði gott betur og fór alla leið á flugvöllinn til að vinka bless. Við Auður heilsuðum aðeins upp á poolkjuðana okkar sem við höfum ekki séð í þónokkrar vikur. Auður bjó til vöfflur til heiðurs gestinum sem eftir var og svo pöntuðum við feita pizzu, ekki beint heilsusamlegur dagur.

Í gær fórum við Auður í vinnuna og pabbi á fund með sænskum getraunum. Eftir það fengum við okkur kínverskan og fórum í keilu. Ég verð að fara að skrifa niður skorið mitt einhvern tímann því ég er alveg helvíti góð í keilu, sérstaklega þegar tekið er mið af því hversu sjaldan ég hef spilað það. Auði finnst keila ekki skemmtileg en ég er ekki frá því að hún hafi tekið stakkaskiptum.

Veðrið hagaði sér sæmilega skikkanlega allan tímann, fór ekki nema niður í -2.5 gráður og snjóaði lítið en einnig var heiður himinn á köflum. Varla hægt að biðja um meira í endaðan janúar.

Takk ofsaleg fyrir komuna, mamma og pabbi. Vonum að þið komið fljótt aftur.