Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, maí 23, 2005
 
Díses hvað maður getur orðið pirraður hérna. Fyrir 8 vikum hringdi ég í símafyrirtækið Tele2, sem sér um breiðbandið okkar, til að fá símanúmer og eitthvert stykki sem maður smellir á breiðbandsúttakið sem maður tengir síðan símann við. Þetta er þægilegasti og ódýrasti kosturinn fyrir okkur því við borgum einungis 200 SEK fast gjald á mánuði fyrir breiðband og getum þá horft á sjónvarpið, verið með netið og eigum síðan að geta verið með síma sem maður borgar einungis af ef maður hringir (sem sagt ekkert grunngjald fyrir símann).
Ég talaði við einhverja konu sem tók niður allar nauðsynlegar upplýsingar um Auði og svo sagði hún að þetta tæki 2-3 vikur og Tele2 myndi hringja í okkur (í gsm símann).
4 vikum síðar hringdi ég í Tele2 til að kanna hvort eitthvað bólaði á símtali frá þeim. Konan sem svaraði sagðist ekkert vita um málið en hún tæki gjarnan við öllum upplýsingum aftur.
Tveimur vikum síðar, þ.e. eftir samtals 6 vikur, var þolinmæði mín farin að dvína og hringdi ég einu sinni enn í Tele2. Sú sem svaraði í þetta sinn sagði að það væri engin ástæða til að taka niður upplýsingarnar enn einu sinni, þetta ætti að vera í kerfinu og málið væri bara svo einfalt að það væri röð, ekkert við því að gera. Okkur ætti að berast bréf innan skamms sem innihéldi fullt af upplýsingum og 5 dögum síðar myndum við fá upphringingu frá Tele2 þar sem við gætum valið okkur símanúmer.
Í dag, eftir samtals 8 vikur, var ég orðin frekar tæp og hringdi því í fjórða skiptið og útskýrði málið. Að sjálfsögðu bað ég um að fá að tala við einhvern sem gæti einfaldlega látið mig fá símanúmer á staðnum því þetta ferli á ekki að þurfa að taka svona langan tíma. Í þetta sinn var karlmaður sem svaraði og sagði hann mér strax að það væru engar upplýsingar um Auði hjá þeim. Ekki varð þetta til að róa mig niður þar sem ég hafði gefið tveimur konum allar nauðsynlegar upplýsingar. Svo sagði hann að það væri ekki hægt að panta breiðbandssímanúmer og meðfylgjandi í gegnum síma, maður þyrfti að skrá sig á netinu. Þá gat ég ekki stillt mig um að biðja manninn um að e-maila vinnufélögum sínum og segja þeim að gefa fólki upp réttar upplýsingar þegar maður hringdi, ég væri aldeilis ekki hrifin af því að þurfa að bíða svona lengi eftir einu símanúmeri. Það kom örlítið hik á manninn, sem er greinilega alinn vel upp af fyrirtækinu og búinn að taka 10 standarkúrsa um sænska kurteisi við viðskiptavini, og svo sagði hann að það væri hægt að koma upplýsingunum áleiðis. Ég varð nú soldið hrifin af því að maðurinn æsti sig ekki á móti heldur tók skítnum sem var skellt framan í hann þó hann væri ekki einu sinni ætlaður honum. Það er svona fólk sem á að vinna í þjónustufyrirtækjum; kurteist fólk sem getur gefið upp réttar upplýsingar til viðskiptavina. Ef ég vissi hvað maðurinn héti væri ég til í að hafa samband við Tele2 og lofa hann. Og því miður veit ég ekki hvað þessar konur heita heldur því þær fengju sko ekki eins góð ummæli.
Ég er búin að skrá Auði á netinu og eigum við að fá símanúmer eftir 2-3 vikur; við sjáum til með það!