Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
![]() |
miðvikudagur, maí 18, 2005
Við erum alltaf að koma okkur betur og betur fyrir í íbúðinni, sem mér finnst við eiginlega ekki geta kallað lengur “nýju íbúðina” því við fluttum inn í hana fyrir tæpum 6 vikum. Þetta er því að verða ein lengsta tiltekt sem um getur, við erum bara svo óendanlega latar og horfum mun frekar á sjónvarpið en að taka til. Þegar við fluttum inn keyptum við stóra og fína uppþvottavél og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að þurfa aldrei að eyða tímanum okkar frekar í þá vitleysu að vaska sjálfar upp. Þar höfðum við heldur betur rangt fyrir okkur. Við pöntuðum pípara til að tengja gripinn og sá sagðist oft og mörgum sinnum ætla að koma. Á mánudaginn, sem sagt eftir fimm vikna bið, brást mér algjörlega þolinmæðin. Ég afpantaði píparavesalinginn, dreif mig út í búð og keypti allt sem uppá vantaði til að tengja vélina. Auðvitað nenntum við síðan ekki að tengja vélina á mánudaginn (horfðum frekar á sjónvarpið), enda ekki algjörlega nauðsynlegt; hreinu diskarnir voru ekki búnir. Undir morgunmatinn (brauð) í gær notaði ég sama diskinn í þriðja daginn í röð (án þess að þvo hann) auðvitað af því að þetta var seinasti litli diskurinn. Og í kvöldmatinn í gær notuðum við seinasta diskinn í skápnum og einn notaðan disk. Þarna var því komin algjör neyð á heimilinu. Leirtau út um allt í eldhúsinu (ekki svo sem óvanaleg sjón) og við ekki í stuði til að vaska upp frekar en fyrri daginn. Eftir að hafa tekið myndir af öllu klabbinu undir vasknum og sent Hauki bróður til ráðfæringar þá gerðum við okkur lítið fyrir og tengdum uppþvottavélina alveg snilldarlega. Það var svo gaman að lifa í gær þegar þessi elska malaði og malaði og þvoði allt upp fyrir okkur og við gátum eytt meiri tíma fyrir framan imbann. Já, og fyrir þau ykkar sem viljið tala við okkur á Skype þá er notendanafnið okkar "aujaogemo". |