Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
![]() |
þriðjudagur, júní 12, 2007
Ég þakka öllum fyrir stuðninginn en ég var í alvöru ekki með neinn dónaskap eða keppnisskap eða neitt við starfsmenn flugvallarins. Ég hefði betur átt að lesa bloggið hennar Auðar áður en ég setti það á síðuna. Við fáum reyndar nettenginu eftir tvo daga og þá getur Auður haldið áfram að setja lygasögur um mig á netinu. En allavega, ég held bara að ég verði að segja ykkur minn hluta sögunnar. Nú, litla fjölskyldan mín var hamingjusöm á Arlanda flugvellinum föstudaginn 1. júní. Við vorum í röðinni á góðum tíma svo allt leit vel út þar til kíkt var í passann minn. Ég var víst ekki með “visa” var mér sagt. Ég trúði þessu auðvitað ekki því ég hafði fengið eyðublöð frá Pennsylvania háskóla og borgað eitthvert gjald svo ég hélt að allt væri klappað og klárt, sérstaklega þegar enginn hafði sagt mér annað. Ég þrálátlega spurði flugvallarstarfsmennina hvort það væri engin leið að ég kæmist með (og það er ábyggilega það sem Auður kallaði “dónaskap” í sínu bloggi) en þeir sögðu að ég myndi lenda í vandræðum í bandaríkjunum ef ég væri ekki með visa, v.þ.a. ég mun fá laun hérna og verð lengur en daga (munaði tveimur dögum frá föstudeginum en þar sem ég fór á mánudeginum þá verð í raun styttra en 90 daga.). Ég er reyndar búin að komast að því núna að þeir höfðu ábyggilega hárrétt fyrir sér því ég hef margoft þurft að sýna þetta visa. Þeir voru mjög vingjarnlegir, bókuðu flugið mitt aftur til laugardagsins og gáfu mér upp símanúmer hjá bandaríska sendiráðinu í Stokkhólmi. Ég hringdi í sendiráðið og komst að því að ég þurfti að fara á netið og kíkja á gátlista sem þar er og kanna hvort ég væri með allt sem ég þyrfti að taka með til þeirra. Klukkan var rúmlega 10 um morguninn þegar ég brunaði í leigubíl frá flugvellinum upp í háskóla til að fá lyklana mína sem ég hafði látið Yang vinnufélaga minn fá (sem hann átti að láta Maarja vinnufélaga minn hafa því hún ætlaði að vökva blómin og svoleiðis) og svo heim. Þar fór ég netið og komst að því að ég var ekki nærri með allt sem þurfti. Ég var með J-1 umsóknina (visa-umsókn fyrir skólafólk), kvittun fyrir einhverju gjaldi sem ég hafði borgað og vottorð frá skattinum (sem við höfðum pantað fyrir löngu því það var bara eitthvað sem við töldum að væri gott fyrir okkur að hafa því þar stendur að Anna Eir sé dóttir okkar beggja) en ég þurfti líka að fylla út eitthvert rosalegt eyðublað á netinu sem var bara hægt að gera á netinu því ég þurfti síðan að fá einhvern barkóða, og svo þurfti ég fylla út tvö önnur eyðublöð, fara í bankann og borga eitthvert annað gjald og láta taka mynd af mér, 5 x 5 cm sem er stærri en venjuleg passamynd. Ég var búin að bera mig aumlega við sendiráðið og segja þeim að fjölskyldan mín væri á leiðinni til Bandaríkjanna og ég þyrfi að fá visa. Ég veit nú ekki hversu erfitt er að komast að hjá þeim en maður verður víst alltaf að panta tíma með einhverjum fyrirvara en ég mátti koma til þeirra fyrir kl. 14. Ég hafði sem sagt 3 tíma til að fylla allt út, fara í bankann og borga, láta taka mynd af mér og fara í sendiráðið. Auðvitað tók ég leigubíl hvert sem ég fór og bað þá vinsamlegast að keyra eins hratt og þeir gætu. Svo hljóp ég um allt því ég mátti engan tíma missa. Þegar ég kom í bankann voru 13 númer á undan mér og það var bara ein kona á kassanum. 10 mínútum síðar voru 10 númer í mig og var ég alveg að missa mig. Ég kallaði yfir bankann hvort það væri einhver með næsta númer sem væri til í að skipta við mig, ég væri jafnvel til í að borga viðkomandi 100 SEK. Augngoturnar sem ég fékk myndu kannski á öðrum tímum hafa böggað mig en ég hafði ekki tíma fyrir svoleiðis hégóma þarna. Enginn vildi skipta við mig enda reynir maður að forðast geðsjúklinga eins og pláguna í Svíþjóð. Enginn var með næsta númer svo ég hljóp að afgreiðsluborðinu í von um að ég fengi nú afgreiðslu þar sem það skiptir í raun ekki máli hvort ég sé með það númer eða ekki, enginn annar var með það númer. Ég veit ekki af hverju ég hélt virkilega að ég fengi afgreiðslu í Svíþjóð ef ég væri ekki með rétt númer, þó ég hafi reynt að segja afgreiðsludömunni mína hræðilegu sögu. Hvað eftir annað reyndi ég að spyrja afgreiðsludömuna hvort ég mætti ekki koma ef einhver var ekki með númerið og loksins sá hún aumur á mér þegar það voru 5 númer í mig. Þá var komið að því að hlaupa í myndatöku. Mér var leiðbeint hingað og þangað en aldrei fann ég sjálfsala. Loksins fann ég búð sem tók passamyndir og var mér nokk sama hvernig hárið á mér leit út þegar myndin var tekin, bara að ég horfði fram, væri með hvítan bakgrunn og myndin yrði 5 x 5. Í öllu fátinu hafði ég gleymt passanum mínum heima og þurfti þá fyrst að bruna þangað og síðan í sendiráðið. Ég mætti loksins í sendiráðið 13 mínútur í 14 og var alveg steinhissa að hafa tekist að gera allt fyrir tilsettan tíma. Konan, sem ég böggaði stöðugt með símhringinum þegar ég var að fylla út eyðublaðið á netinu, hafði ekki mikla trú á því að mér tækist þetta fyrir kl. 14 (þeir hleypa fólki ekki inn eftir kl. 14). Mér var hleypt inn og allt stemmdi meira að segja. Ég beið frá kl. 14 til 16 eftir passanum en því miður. Kerfið þeirra er stundum soldið hægt og fóru upplýsingarnar ekki í gegn. Ég gæti því mætt kl. 8 á mánudeginum og vonað að upplýsingarnar hefðu farið í gegn yfir helgina. Ég var við það að fara að gráta allan daginn, vorkenndi Auði minni að þurfa að fara í 9 tíma flug með lítið barn með nánast allan farangurinn okkar. Sem betur fer hafði Jim (prófessorinn sem ég er að gera verkefnið hjá) boðist til að sækja okkur á flugvöllinn svo ég vissi að Auður þyrfti ekki að drösla töskunum langt. Og svo þyrfti greyið Aujan mín að vera ein alla helgina án húsgagna, í steikjandi hita í nýrri borg. Loksins kl. 17 borðaði ég mat, McDonald’s. Ég þurfti að drífa mig heim til að bóka flugið mitt fram á mánudag, hringja í Jim og segja honum að hann þyrfti bara að ná í tvo ferðalanga, ekki þrjá og svo að hringja í þá sem við leigjum íbúðina af og gefa upp nafnið á Auði svo hún fengi nú lyklana. Þetta tók allt saman smá tíma en tókst á endanum og djöfull var ég fegin þegar ég heyrði í Auði í bandaríkjunum. Málið var að síminn hennar Auðar virkar ekki í bandaríkjunum og gat ég bara rétt talað við hana þegar hún var með Jim og þurfti svo að engjast alla helgina og vona að allt væri í lagi hjá þeim. Ég fékk eitt e-mail frá Auði á laugardeginum en gat ekkert talað við hana því það var ekki hægt að hringja út úr bandaríkjunum úr tíkallasímunum sem hún fann. Þetta var versti tími sem ég hef upplifað. Ég brást fjölskyldunni minni algjörlega með því að senda Auði og Önnu Eir aleinar til hættulegu bandaríkjanna og ég var ekki með til að vernda þær. Enda var ég á adrenalíntrippi alla helgina og stöðugt á klósettinu með skitu. Ég hef sjaldan talað eins oft við mömmu og pabba og Hauk, sem voru svo yndisleg að hringja í mig og hlusta á mig. Haukur hringdi nú reyndar til að hlæja að mér!!! Helginni eyddi ég í að lesa í Neuroscience bók til að rifja upp áður en ég mætti á labið hjá Jim og á kvöldin horfði ég á Grey’s anatomy og House sem ég hafði fengið lánað á netinu. Vaknaði kl. 6 á mánudeginum og var komin kl. 7:30 fyrir utan sendiráðið. Þar voru fyrir nokkrir í röð. Ég var á lista hjá vörðunum og átti því að geta komist inn. Mér var ekkert heilagt lengur, vildi bara geta komist með fluginu þennan dag til að hitta Auði og Önnu Eir og bað því fólkið á undan mér í röðinni að hleypa mér fyrst því ég þyrfti að ná flugi. Fólk er nú oft yndislegt ef maður bara spyr og auðvitað fékk ég að fara fremst í röðina. Ég þurfti bara að bíða í korter eftir passanum mínum og var alveg yfir mig ánægð þegar ég sá þetta blessaða visa í passanum; rosa flott litaglatt blað með mynd af mér. Þá var það leigubíll á flugvöllin og var ég komin rúmlega 9 en flugvélin átti að fara 10:20, svo nógur tími. Loksins kom röðin að mér kl. 9:45. Ég var ekki í kerfinu. Ég sagði auðvitað að það stæðist ekki, ég hefði hring í flugfélagið á föstudeginum og þeir hefðu umbókað flugið mitt fram á mánudaginn. Ég fannst í öðru kerfi, var sem sagt með bókun en var ekki í check-in kerfinu þeirra sem þýddi að það væri ekki hægt að checka mig inn. Þetta leystist ekki fyrr en kl. 10:10 og hefði ég hugsanlega misst af fluginu ef það hefði ekki verið seinkun. Þvílíkur léttir sem það var að vera kominn í flugvélina, þó ég þyrfti að hírast í miðjusæti með lítið blóðflæði til lappanna allt flugið þá var ég svo yfir mig ánægð að vera loksins á leiðinni yfir Atlantshafið og létti ekki adrenalíninu fyrr en ég hitti stelpurnar mínar á flugvellinum. Eins og Auður nefndi þá fórum við beint af flugvellinum í IKEA og keyptum fullt af innbúi enda íbúðin tóm. Húsgögin fengum daginn eftir og var kærkomið fyrir stelpurnar að hafa rúm að sofa í. Næstu daga dunduðum við okkar að skrúfa eitt og annað saman, fórum tvisvar í viðbót í IKEA til að kaupa eitthvað sem við gleymdum, keyptum okkur örbylgjuofn og loftræstiapparat. Núna lítur íbúðin okkar sæmilega út og miklu munar að hafa loftræstikerfi. Reyndar keyptum við eitt notað á $60 sem er í stofunni og er alveg rosalega góð, nær að kæla alla stofuna og eldhúsið en er örlítið hávær. Þessi sem ég keypti, glæný á $130 kælir nánast ekki einu sinni svefnherbergið. Maður þarf kannski að vita eitthvað smá um loftkælingu áður en maður hleypur út kaupir eitt stykki. Við höfum það allavega nokkuð gott núna, fáum nettengingu á morgun og getum þá spjallað við ykkur á Skype. Erum búnar að fara einu sinni á KFC og ég er búin að borða nokkrum sinnum donuts. Hérna er alveg ótrúlega góður “fast food” sem er uppáhalds maturinn minn. Skrifum meira bráðlega, ástarkveðjur, Emelía Es. Ég ræddi við Auði um umræddan dónaskap minn í gær og hún sagði að hún hefði bara verið að djóka, alveg eins og einhverjum væri meinað að fara til Bandaríkjanna vegan dónaskaps við flugvallarstarfsmennina. Henni fannst samt að stuðningurinn sem ég fékk frá fólki sýndi að fólki finndist ég vera dónaleg en ég vil ekki trúa því. Þá er þetta komið á hreint (ein með áráttu)! |