Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, október 06, 2002
 
Afsakið að ég skrifaði ekki í gær eins og Auður lofaði, við horfðum á sjónvarpið og tókum tvær spólur svo það var enginn tími. Sáum “A beautiful mind” sem okkur finnst báðum mjög góð og stórskemmtileg, og “Liberty stands still” sem var allt í lagi, góð ádeila samt á frjálshyggjuvopnalög Bandaríkjanna.

Í gær fórum við Auður í smá skoðunarferð. Fórum í 50 mínútna siglingarferð (með bátnum Prins Carl Philip, byggður 1901) frá Stadshusbron í miðbænum til Drottningholm. Í Drottningholm er nefnilega höll þar sem konungsfjölskyldan hefur haft aðsetur síðan 1981. Byrjuðum á því að skoða garðinn fyrir aftan höllina. Þvílík stærð á einum garði, hann var líka nokkuð flottur, allt gert út á samhverfuna. Mörg trjáanna eru frá 17. öld.
Höllin var byggð frá 1662 af þáverandi drottningu (Hedvig Eleonora) og lítur rosaleg flott út að innan. Ég var strax heilluð af öllum marmaranum, gólf og allir veggir og handrið úr marmara. “Þvílíkt veldi sem hefur verið á konungsfjölskyldunni”, hugsaði ég. Svo fór örlítill glansi af þessu þegar nær var komið, þá er ekki einn einasti veggur eða handrið úr marmara, þetta eru allt úr við og allt saman handmálað. Fyrst fannst mér þetta vera algjört plat en svo óx virðingin upp úr öllu valdi, þvílík vinna sem hefur farið í að handmála þetta og svo er þetta svo hrikalega vel gert að það er ekki fyrr en maður er kominn alveg ofaní veggina sem maður sér að þetta er málað. Ég meina, veggirnir eru ábyggilega 6-8 metrar, það er alveg fullt af herbergjum og svo eru allavega 2 hæðir (einungis aðgangur að tveimur hæðum fyrir almenning), og allt er þetta handmálað. Þetta er náttúrulega bara geggjun. Ég spurði eina sem vinnur þarna út í þetta og hún sagði að í gamla daga hafi þeir haft gaman af að plata augað. Svo spurði ég aðra þarna hvort konungsfjölskyldan byggji í alvöru í höllinni því okkur Auði finnst nú sá hluti sem við fengum að skoða ekkert allt of vistlegur fyrir nútímafólk. Júbb, þau búa þarna á veturna, auðvitað í hluta sem er ekki til sýnis. Þar er blandað saman gömlum og nýjum stíl. Þau mega ekki breyta veggjunum neitt en mega hafa nýlega húsgögn. En á sumrin eru þau oft í annarri höll, eða öðrum höllum, þau hafa úr 10 höllum í Stokkhólmi að velja.
Ókei, núna var konungsfjölskyldufýsn minni soltið svalað, búin að koma á stað sem þau búa virkilega á.
Við vorum á rölti frá höllinni, á malarvegi sem liggur að (og frá!) höllinni, þegar grænleitur jeppi kom brunandi fyrir aftan okkur. Við glottum og sögðum: “Þarna kemur hún”, og áttum við Viktoríu krónprinsessu. En nei, þetta var ekki hún. Það ætlaði hins vegar að detta af okkur andlitið þegar við sáum að þetta var yngsta konungsbarnið, Madeleine prinsessa sem var ein í bíl, brosandi og kjaftandi í gsm (og ekki handfrjálsan!). Þarna brunaði hún tveimur metrum frá okkur. Okkur fannst þetta brjálæðislega fyndið. Bara einhverjir Íslendingar í venjulegri túristaskoðun og eru nánast keyrðir niður af Madeleine prinsessu. Og þetta er alveg satt. Ég á svo eftir að lifa lengi á þessu, ég hef svo mikinn áhuga á konungsfjölskyldum.
Svona til að fræða ykkur aðeins, þá er Madeleine prinsessa fædd 1982 í Drottningholm höll.