Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, október 28, 2002
 
Ég er hinn mikli veiðimaður. Hafið ekki áhyggjur, ég er enn ekki orðin geðveik. Í dag veiddi ég heljarinnar kónguló. Ég var að hafa brauðið mitt til þegar ég tók eftir þessari kónguló við hliðina á hendinni á mér, uppi á eldhússkenknum við hliðina á ísskápnum. Auðvitað stökk ég afturábak, eins langt og ég gat, sem er nú ekki nema 1 meter því gegnt er hinn skenkurinn með vaskinum og öllu tilheyrandi (smá útidúr, þið fáið að sjá myndir af eldhúsinu eftir 2 vikur!). Ætli það sé einhvers staðar keppt í afturábaklangstökki!!
Allavega. Lausaganga kóngulóa er stranglega bannaðar á mínu heimili, svo ég greip glas og ætlaði að skella yfir hana. Haldiði ekki að kvikindið hafi þá hreyft sig og tekið á rás, yfir ísskápinn. Ég fékk gæsahúð mánaðarins, það er alveg nóg að þær hreyfi sig þá fæ ég gæsahúð. Mér hryllir þó alltaf meira að vita að þær eru hérna inni heldur en að reyna að veiða þær, svo ég náði í Rambó hnífinn minn og ennisbandið og þá gékk þetta eins og í sögu. Ég hafði þó ekki kjark í mér að renna blaði undir og henda henni út því ef hún slyppi út þá myndi hún detta á lappirnar á mér eða hlaupa eftir hendinni á mér og yfir andlitið og svo upp í mig. Ég tek það fram að á föstudaginn horfðum við á kóngulóarmynd í sjónvarpinu og þaðan hef ég þessar paranoiulýsingar (Auður reyndi nokkrum sinnum að banna mér að horfa á myndina en ég taldi að ég mundi ekki bíða skaða). Ég var samt nógu stór til að stríða smá. Í hvert sinn sem ég fór inn í eldhús athugaði ég hvort kóngulóin væri ekki örugglega enn í glasinu (eins og hún myndi lyfta glasinu upp og hlaupa burt!) og svo hreyfði ég það smá til að pirra hana. Ég veit að það er ljótt að stríða (allavega ljótt að stríða Auði!) en ég er að vona að ef ég get fengið mig til að horfa á kóngulær í svona mikilli nálægð án þess að þær geti stokkið á mig (og upp í mig og allt það) þá lagist ég kannski með aldrinum. Æ, ég veit samt ekki.
Aujan mín henti svo kóngulónni út þegar hún kom. Henni fannst hún samt svo ógeðsleg að það var með herkjum að hún tæki verkið að sér.

Undur og stórmerki gerðust. Það kom viðgerðarkall til mín. Hann leit á viftuna, hún á að vera svona, óskaplega hljóðlát (ekki rafmagnsvifta) og með örlitlu sogi! Hann ætlar síðan að hafa samband við aðra kalla útaf hitanum (eða öllu heldur kuldanum) og einhverjum skáp sem er ómögulegt að opna nema hafa skúffuna fyrir neðan opna!

Og svo kom kall frá Riksbyggen (eigendur íbúðarinnar okkar) til að mæla radon. Ég veit ekki hvort maður á að vera hræddur eða þakklátur. Hann var að mæla fyrir ríkið, og fékk ég örlitlar upplýsingar upp úr honum, ekki mjög ræðinn á sænskunni og talaði litla ensku. Hann fór hann að tala um cesium frá Tjernóbyl, en það var einungis til að koma mér á rétta sporið að ég held, svo ég skildi hvað radon væri!!! Ég tel nefnilega að hann hafi haldið að ég vissi ekkert hvað radon væri því hann skildi ekki nú í fyrsta lagi ekki orðið “radon” þegar ég bar það fram, hálfvitar þessir Svíar. Ég spurði auðvitað hvort þetta radon kæmi frá Tjernóbyl en hann kvað svo ekki vera og þá fór hann að tala eitthvað um byggingar og brýr og dæmi, ég skil nú ekki alveg hvað hann var að tala um. Hann skildi svo eftir dós merkta “Electret radon monitor” sem þeir ná í næsta föstudag. Hann var einnig með rosalegan mæli og kvað mig ekki vera í hættu.

Og svo græddum við Auður einn klukkutíma. Svíar skiptu nefnilega úr sumartíma í vetrartíma í dag, en það vissum við ekki. Auður mætti því kl. 8 í “vinnuna” í morgun, klukkutíma fyrr en vanalega.

Viðburðarríkur dagur í dag.