Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, desember 21, 2002
 
Núna er sunnudagurinn 7. desember, sem er soldið skemmtileg tilhuxun því við Auður erum einmitt búnar að vera að ræða tímaflakk í tvo daga og það þarf kannski ekki að taka það fram að við erum ekki alveg sammála! En allavega, það er sunnudagurinn 7. desember.
Við þremenningarnir (ég, Auður og Hákon) vöknuðum frekar snemma m.v. að það var sunnudagur. Hákon þurfti að ná flugvélinni heim og fylgdum við honum að rútunni. Við Auður drifum okkur svo í fyrirlestrarsalinn Aula Magna í Stockholms Universitetet og hlýddum á Nóbelsverðlaunahafana í efnafræði 2002. Fyrirlestrarnir voru að sjálfsögðu misáhugaverðir, tveir skemmtilegir (Bandaríkjamaðurinn og Þjóðverjinn) en einn frekar óskiljanlegur (Japaninn). Bandaríkjamaðurinn og Þjóðverjinn voru fyndnir og sögðu skemmtilega frá og Þjóðverjinn reif meira að segja af sér beltið og notaði sem módel fyrir prótein. Japaninn var hins vegar eins og maður hafði kannski hugsað sér fólk frá hans heimshluta, hann útskýrði ofaní kjölinn aðferðina sem hann var verðlaunaður fyrir og var sko örugglega ekkert að skafa af því og það var ekki mjög fyndið! Auk þess talaði hann með þessum hrikalega hreim með fyndum japönkum áherslum sem var ekki til að auka skilninginn.
Við mæltum okkur mót við Þorvarð, sambýlismann Önnu Kristínar (móður Auðar). Hann var á leið til Brussel á fund og ákvað að millilenda í Stokkhólmi til að láta okkur hafa fullt af pökkum, Þorvarður er voða góður maður. Honum varð að sjálfsögðu boðið í litla kotið okkar og gátum við boðið honum upp á kleinur og kaffi, voða íslenskt eitthvað. Við fengum fullt af jólapökkum og er engu líkara en hérna búi fjórir smákrakkar. Einnig fylgdu með venjulegar gjafir. Ég er búin að sjá það að þegar allt er á botninn hvolft þá græðum við ábyggilega á því að hafa flutt út :-) Fengum flatkökur, laufabrauð, reyktan silung og harðfisk frá ömmu Auðar í Sandvík. Frá mömmu hennar Auðar fengum við birkireykt SS hangikjöt og jóladagatal með fullt af pökkum á. Ég persónulega borða ekki flatkökur nér reyktan fisk en harðfisk get ég sko étið og hlakka þvílíkt til hangikjötsins, maður treystir SS vörunum til að standa fyrir sínu. Við erum búnar að opna fullt af dagatalinu og höfum við alltaf fengið íslenskt nammi (himneskt alveg) og eitt jólaskraut.

Í sömu viku bárust okkur pakkar frá Magga (pabba Auðar) og Ósk (frænku minni og vinkonu Auðar) og sendu þau líka fullt af íslensku nammi. Fólk er svo gott við okkur, kærar þakkir allir saman.