Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
fimmtudagur, maí 06, 2004
 
Við Auður keyptum okkur hjól á sunnudaginn á ótrúlegum prís, 60 % afslætti. Hjólin eru 21 gíra fjallhjól og bæði gul. Við ætluðum nú upphaflega að kaupa okkur sinnhvorn litinn en það var bara til gulur. Þar sem verðið var svo hagstætt (14.500 ÍSK með brettum og lás) slógum við til þó að við lítum núna geðveikt hallærislega út, alveg eins og miðaldra hjón sem eru í eins joggínggöllum :) Það bjargar þessu næstum því að hjólin heita Tiger.
Áður en Auður fór til Bandaríkjanna keypti hún sér bakpoka, alveg eins og minn nema bara svartan (ég á gráan). Auður vildi nú varla kaupa eins bakpoka en þar sem minn er svo frábær þá sannfærði ég hana um að það væru litlar líkur (allavega sjaldan) á að fólk myndi sjá okkur saman með bakpokana. Eftir hjólakaupin varð Auði á að þessum eins kaupum okkar yrði að linna.
Það fyndna við hjólakaupin var að við fengum þau í kassanum og máttum ekki setja þau saman fyrir utan búðina (því þá yrðu þeir að leyfa öllum það, týpískt sænskt) og urðum því að halda á sitthvorum kassanum heim, ekki létt og ekki gott fyrir skapið á Auju minni. Hjólin eru þrælfín og er hugmyndin að hjóla í vinnuna í sumar frá nýju bækistöðvunum.

Undanfarnar vikur hefur verið sýnt á Eurosport frá heimsmeistarakeppninni í snóker. Auðvitað erum við búnar að fylgjast með eins mikið og við getum. Í úrslitum var okkar uppáhald, Ronnie O’Sullivan, og einhver nánast óþekktur náungi, Dott. Að sjálfsögðu átti þessi Dott ekkert í okkar mann sem vann 18-8 og varð heimsmeistari í annað skiptið. Það sem mér finnst soldið skrýtið er að úrslitin réðust á mánudaginn en samt hef ég ekki séð í lestarblöðunum okkar (sem eru 2) neitt um þetta. Er sem sagt ekki fréttnæmt hver verður heimsmeistari í snóker. Nógu mikið pláss fékk snókerþulur Svíþjóðar í Metróinu í seinustu viku, hálfa blaðsíðu, og ekki varð hann heimsmeistari, hann var bara að lýsa heimsmeistarakeppninni fyrir Svíana!! Í blöðunum blaðra Svíar þessi ósköp um hina og þessa ómerkilegu og leiðinlegu íþrótta”viðburði” en nefna síðan ekki nýkrýndan heimsmeistara. Stundum skil ég ekki Svía.

Nú veit ég af hverju Halldór Ásgrímsson er ekki búinn að taka við af Davíði. Halldór vinnur nefnilega á kebab stað í Fruängen, álítur það ábyggilega vænna til árangurs hvað varðar frama í starfi. Við keyptum okkur ís í gær á leiðinni heim, á kebab staðnum okkar en þar fæst besti ís sem ég hef smakkað í Svíþjóð og hef ég gert margar úttektir enda frábært að borða ís í hitanum hérna á sumrin. Um þennan ákveðna ís hef ég áður skrifað pistla. Það lág við að við Auður snérum við þegar við sáum hver ætlaði að afgreiða okkur; gamall, ljótur og fúll náungi sem við höfum oft séð áður. Ég veit ekki hvort það var það að Auður kyssti mig á ennið eða hvort viðmót hans hafi breyst því þegar hann rétti okkur ísinn sagði hann “gjörið svo vel” og “verið velkomnar aftur” og svo brosti hann. Það var nákvæmlega þetta brost sem fékk mig til að hugsa til Halldórs og atkvæðisgildrunnar hans. Ég skil hins vegar ekkert í því hvað fær þessar tvo menn til að halda að brosið þeirra sé aðlaðandi, það hræðir mig bara og ég vona að þeir hætti þessu.