Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar





























































This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, febrúar 15, 2005
 
Hérna er texti sem átti að birtast með myndunum sem Auður bloggaði á föstudaginn. Þetta er ferðasaga mömmu og pabba í Stokkhólmi séð frá augum pabba. Að sjálfsögðu vorum við ekki að reyna að leika á hlutaðeigendur vegna margra skota á okkur Auði í eftirfarndi texta, erum einfaldlega gleymnar.
Eitt vil ég þó sérstaklega benda á og það er hvernig orðið "sá" er beygt í íslensku tölvuorðabókinni minni sem ég fékk í afmælisgjöf frá Aujunni minni seinasta sumar. Þar stendur að að beygingin sé eftirfarandi: Sá - þann - þeim - þess. Og hananú. Þetta er nákvæmlega sama beyging og við Auður héldum fram enda erum við framúrskarandi í beygingu á íslenskum orðum. Við erum einnig sammála um að eigi að segja "þeim var hrint" (eins og í "honum var hrint") en ekki "sá var hrint". Það er afar ólíklegt að þessi frábæra setning mín sé tilkomin vegna áhrifa frá barnamáli þar sem börn geta örugglega ekki beygt þetta orð "sá" og nota það sjaldan. Auk þess er notkun orðsins "sá" gamaldags og því frekar um öldungamál að ræða. "Það var hrint mér" er síðan allt annar handleggur sem ég ætla ekki að fara út í og er næstum því móðguð yfir því að vera bendluð við þessa hræðilegu íslensku. Hins vegar vil ég að lokum benda þessum manni í Orðabók Háskólans að finna sér nýja vinnu, okkur finnst hann frekar vanhæfur.
En allavega, þið skiljið betur þessa athugasemd þegar neðar dregur. Góða skemmtun.


Neyðarhjálp úr vestri
Það er þekkt staðreynd að mæður hafa áhyggjur af börnum sínum, sama á hvað aldri þau eru. Það er ekki heldur leyndarmál að mín kona Hulda hefur áhyggjur af því að Svíar fari illa með dóttur okkar Emelíu litlu.
Þegar mér barst af því njósn að fyrirhugaður væri fundur hjá mér í Stokkhólmi þriðjudaginn og miðvikudaginn 18. og 19. janúar var ég fljótur að panta far fyrir Huldu fimmtudaginn 20. janúar með það í huga að við kæmum heim sunnudaginn 23. janúar.
Heldur brá mér er fundurinn var tekinn af dagskrá, en svo kom í ljós að hann hefði verið færður til mánudagsins 24. janúar og allt komst í lag á ný.

Rauði krossinn tekur við sér
Tekið var til við undirbúning og keypt í matinn fyrir stelpurnar svo sem velfeitt og fitusprengt hrossakjöt, lakkrís, Rauðan Opal og harðfisk. Einnig barst okkur njósn af því að áhugi væri hinu meginn við álinn að við tækjum með oss SS Clinton pulsur, hamborgarasósu, Hraun og skyr. Einungis vantaði merki Rauða krossins á töskuna.

Ja rýr er unginn
Við lögðum því af stað eldsnemma á fimmtudagsmorgni með þungar ferðatöskur og komum á T-Centralen í miðborg Svíþjóðar um hádegisbil.
Þar stóð tjéð Emelía litla og beið foreldra sinna með sting í maga. Það urðu miklir fagnaðarfundir, en heldur fannst mömmunni Emelía litla rýr.

Svikinn og prettaður
Ekki var staldrað lengi við, töskunum komið í geymslu á jarnbrautarstöðinni og lagt af stað í bæinn.
Kíkt var í margar búðir og smávegis keypt. Sumir urðu strax svangir og við fórum á McDonalds svo ég gæti satt mesta hungrið. Auður var að vinna, en kom brátt. Enn var ráfað um miðborgina, en svo var lagt af stað heim á leið á Thunbergsgatan 9. Keypti ávexti á leiðinni og er enn að bölva ávaxtasalanum sem plataði mig til að borga SEK 95 fyrir örfá hindber. Lærði þó helling af þeim viðskiptum. Einnig komum við við í sælgætisverslunum og birgðum okkur upp fyrir helgina. Reyndar endtist sælgætið ekki nema eina kvöldstund og þá birgðum við okkur upp aftur og aftur. Kvöldinu var eytt í rólegheitum og stelpurnar bökuðu frábæra pizzu og auðvitað var spilaður Kani.
Einnig var sérlagað kaffi og dreypt á rauðvíni. Viðgjörningurinn hefði ekki verið betri þó við hefðum verið á hóteli.

Varúlfur í kjallaranum
Stelpurnar virðast hafa það mjög gott í náminu og eiga greinilega þolinmóða vinnuveitendur, því yfirleitt áttu þær nógan tíma fyrir okkur. Auður sem fór þó að vinna á föstudagsmorguninn. Vel fór um okkur í sófanum í stofunni, reyndar svo vel að Huldu dreymdi að hún hefði hitt föður sinn og þrjá bræður, en hún á einungis tvo bræður, svo sá þriðji var glænýr. Við Hulda og Emelía litla fórum að skoða Ráðhúsið, sem er ótrúlega margbrotin bygging. Einnig var ráfað um bæinn og Auður hitti oss í bænum eftir að vinnu hennar lauk. Sumir voru svangir öðru hverju og ég fékk bita hér og þar. Í einu af þeirra frægu dagblöðum sáum við auglýsta bluestónleika á Wirström kránni og þangað fórum við eftir að hafa fengið súpu og brauð á Thunbergsvegi 9.
Vissulega var hljómsveitin ágæt og ekki skemmdi fyrir litríkur söngvari, en hann spilaði einnig á munnhörpu. Öðru hverju rak hann upp ýlfur og gól eins og varúlfur. Var mér orðið um og ó að leitaði að útgönguleið fyrir mig og mína ef söngvarinn umbreyttist á staðnum í varúlf. Þess var þó ekki þörf. Hljómsveitin heitir Little Walter Blues Band, en Little Walter var í hjólastól og því eðlilegt að hann sé lítill. Kráin var útbúin mörgum litlum afkimum í mörgum kjöllurum og tók hvert herbergi einungis örfáar manneskjur.
Enn var lúrt frameftir morgni á laugardegi, en kíkt í verslunarmiðstöð við Globen/Söderstadion heimavöll Hammarby. Íslenska landsliðið spilaði marga leiki í Globen á EM í handbolta 2002 og þar sá ég marga leiki. Grunaði ekki þá að Emelía litla myndi búa skammt frá síðar. Þar kypti ég frábæra gervigrasknattspyrnuskó, mjög mjúka og létta enda hef ég þegar skorað fjölda marka með þeim.

Fjárfesting dauðans
Eftir að hafa skilað af sér varningnum úr verslunarmiðstöðinni í Globen var farið í bæinn og fórum við að skoða búð sem sérhæfir sig í einkennilegum og sérstökum uppfinningum. Margar uppfinninganna voru áhugaverðar, en nokkuð dýrar. Í annarri búð skammt frá sá Emelía mjög handhæg plastbox í öllum stærðum og gerðum. Fannst henni þjóðráð að fjárfesta í nokkrum boxum, þó svo að hrifning Auðar hafi varla farið yfir frostmark. ”Það er hægt að loka boxunum á öllum hliðum”, segir Emelía, en Auður rifjaði upp svipuð boxkaup á árum fyrr, sem reyndust ekki vel.

Auður nær sér á strik
Einhver stakk upp á því að fara á O’Leary’s krána og horfa á knattspyrnuleik (minnir að það hafi verið Auður). Svo heppilega vildi til að ég mundi að það átti að sýna leik Manchester United og Aston Villa. Stelpurnar pöntuðu borð með sjónvarpi og þar áttum við frábæra stund við snæðing á góðum mat og horfðum á 3-1 sigur Manchester United.
Eftir þennan frábæra gjörning var farið heim að spila Kana, en fyrst komum við við í matvöruverslun að kaupa ís og ávexti. Þetta var síðasta kvöld Huldu og því var hver stund nýtt og vel gert í mat og drykk.

Tár falla á glerharðan stein
Á sunnudeginum var vaknað kl. 9.00 og Hulda dreif sig út á flugvöll. Stelpurnar hafa þann skemmtilega sið að fylgja gestum að strætisvagnastöðinni á T-Centralnum og kveðja þar, en stundum skilst manni að þær reki ferðaskrifstofu í Stokkhólmi. Mörg tár hafa fallið þar á glerharðan stein. Ég fylgdi Huldu alla leið á flugvöllinn og ráfaði svo um bæinn um stund áður en ég fór heim til Auðar og Emelíu. Þær notuðu tækifærið, bökuðu vöfflur og við spiluðum Sequence og fengum oss mjög góðar pizzur, sem fást í nágrenninu. Mín var með kebab, vel krydduð.

Sá var hrint!
Um kvöldið hörfðum við á Svía leika á HM í handbolta í Túnis. Stundum gekk töluvert á og eitt skipti er einum Svíanna var hrint hrópaði Íþróttaálfurinn ”Sá var hrint”. Íslenskuálfurinn hafði sitthvað við það að athuga og sagði Sá vera ábendingafornafn og það ætti nota sá í þágufalli, sumsé ”Þeim var hrint”, þó svo að um einstakling væri að ræða. Umræður urðu fjörugar og Íslandsálfurinn blandaði sér í umræðurnar, sem lognuðust útaf er engin fékkst niðurstaðan. Er heim var komið hringdi Íslandsálfurinn í Orðabók Háskólans og þar sagði þolinmóður starfsmaður að hann mundi ekki nota ábendingafornafn heldur persónufornafn og setningin ætti að vera ”Honum var hrint”. Hann taldi að hugsanlega væri um áhrif úr barnamáli að ræða, en börn ættu það til að segja ”það var hrint mér”.

”Gamli” bakaður í keilu
Á mánudeginum fór ég á fundinn og þegar honum var lokið fórum við Auður og Emelía í keilu. Mér fannst eins og það væri skipulagt atriði, því Emelía notaði tækifærið og valtaði yfir gestinn, sjálfan pabba sinn. Auður lék góðu lögguna og var það sárabót. Einnig fengum við okkur kínverskan mat, en kínverski maturinn var grunsamlega vestrænn. Til dæmis var hægt að fá Bernaise sósu með öllum mat á kínverska staðnum.

”Fínari” kápa
Íþróttaálfurinn fór á kostum er hann sagði að kápa sem hún sá á konu væri ”fínari” en aðrar kápur og Íslenskuálfurinn var fljótur að grípa tækifærið og benda á að það ætti að segja ”fínni kápa”. Á kannski að segja ”meirari” líka?
Enn voru þær stúlkurnar í góðum gír daginn eftir og fylgu gamla manninum á T-Centralinn.
Það tekur fljótar af fyrir nútíma Íslending að fara milli Íslands og Skandinavíuskagans, en þegar víkingarnir voru upp á sitt besta og brátt var ferðalangurinn kominn heim til sín.
Á síðasta degi snjóaði, en snjókornin virðast jafn óákveðin og Svíar, því þau virtust ýmist fara upp eða niður og í endalausa hringi án takmarks.

Viljum við hjónin nota tækifærið og þakka kærlega fyrir frábærar móttökur og við förum ábyggilega aftur að heimsækja þær.