Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
þriðjudagur, febrúar 08, 2005
Soldið ótrúlegt en alveg satt; ég fór á djasstónleika í gær. Málið var að Helena vinnufélagi minn og systir hennar ákváðu að fara að hlusta á vin systurinnar spila á knæpu. Systirin kom meira að segja alla leiðina frá Gautaborg til að hlusta á vininn og þetta er víst bara vinur því hann er fertugur, giftur og á börn (eins og það séu rök!). Ég lýsti yfir áhuga mínum á djassi, þ.e. áhuga mínum í tengslum við að Auður fílar djass rosalega og okkur var boðið með. Við ákváðum að hittast á staðnum sem við vissum fyrir að átti að vera lítill en við gerðum okkur ekki almennilega grein fyrir því fyrr en við komum þangað. Staðurinn hýsti nú alveg 40 manns sitjandi en það var einungis vegna þess að borðin voru svo ótrúlega þétt saman. Auk þess stóð slatti af fólki sem virtist einungis vera á staðnum vegna djassins. Við náuðum að næla okkur í borð þegar einhver sem betur fer fór. Borð er kannski ofsögum sagt. Við fengum einn stól en svo var hægt að troða þremur afar grönnum persónum á bekk við hliðina. Þetta passaði því fullkomlega fyrir okkur fjórar; ég sat á stólnum góða en hinar á bekknum (enda komu Helena og systirin á eftir okkur). Eigandi staðarins (Glenn Miller Café) krefst þess að hver og einn panti sér minnst eitthvað að drekka til að fá að vera á staðnum, enda um krá/veitingarstað að ræða. Ég nískupúkinn hefði nú samt ábyggilega sleppt því ef ekki um ákvæði væri að ræða. Aðrar reglur fylgdu síðan djasshlustuninni. Hljómsveitin spilar þrjú lög í hverju setti og tekur sér síðan pásu á milli. Eftir hvert sett þarf hver hlustandi að borga minnst 20 SEK og gengur eigandinn um með bakka til að safna peningunum. Það má skipta ef maður er með stóra seðla! Þetta var sem sagt alveg ágætis kvöld. Við hlustuðum á tvö sett og vinur systurinnar kom tvisvar og spjallaði við okkur. Mér fannst það örlítið merkilegt því hann var sko í hljómsveitinni sem við vorum að hlusta á á almenningsstað. Það er samt greinilegt að ég á margt ólært. Ég þarf að læra að hlusta á djass og skilja hann aðeins betur. Enn sem komið er finnst mér sem þetta sé allt of mikið út og suður og ekki nógu mikið grunnstef í gegnum lagið til að halda mér á brautinni. En ef ég þekki hana Auði mína þá mun hún reyna að hjálpa mér í gegnum þetta :) |