Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, apríl 06, 2005
 
Við erum enn á lífi. Ég vildi að ég gæti sagt að eitthvað hafi verið að síðunni og þess vegna höfum við ekki getað bloggað en það er ekki satt. Við höfum bara ekki gefið okkur tíma til þess og sé ég núna glögglega að með því höfum við svikið margar saklausar sálir.

Frá 4. mars hefur ótrúlega margt gerst hjá okkur.

Það sem var afar ánægjulegt fyrir þremur vikum er að það voraði. Núna er nánast allur snjór farinn og býst ég ekki við honum aftur fyrr en í desember. Herbergisfélagar mínir og ég höfðum meira að segja picknick fyrir utan bygginguna okkar í seinustu viku þar sem við borðuðum snakk og súkkulaði og drukkum vín og bjór. Afar huggulegt en enn allt of kalt.

18. mars fórum við Hrönn og Auður á tónleika með Emilíana Torrini þar sem hún söng lög af nýju plötunni sinni “Fisherman’s wife”. Tóleikarnir voru mjög skemmtilegir, sérstaklega þar sem salurinn hýsti einungis 200 manns svo maður var mjög nálægt stjörnunni. Auk þess er Emilíana svo einlæg og fyndin, algjör dúlla.

Laugardaginn fyrir páska bauð ég þremur úr vinnunni í pönnukökur og vatnsdeigsbollur. Vatnsdeigsbollur átti það bara að vera í byrjun en þar sem mér hafði bara tekist að baka þær einu sinni af sjö skiptum þá ákváðum við að hafa líka pönnukökur. Ég hringdi í ofboði í mömmu á laugardagsmorgninum en enginn svaraði og ég fékk smá kvíðakast því Hrönn var ekki í Stokkhólmi til að leiðbeina mér en hún bauð okkur í bollur á bolludaginn sem voru alveg ofboðslega góðar. Eftir að hafa hringt í mömmu ótal sinnum seinust tvö ár vegna bollanna þá tókst mér nú að rifja allt upp sem ég taldi að hún hafði sagt mér. Í stuttu máli voru bollurnar glymrandi góðar og skiluðu mikilli gleði til fólksins.
Við fengum frekar óvænta heimsókn á laugardeginum því Arna og Karvel komu með glænýja strákinn sinn, Arnar Smára, og foreldra hennar Örnu. Að sjálfsögðu var allt postulínið dregið út úr skápunum og fólk neytt til að borða pönnslur og bollur.

Fyrir mánuði fengum við að vita frá stráknum sem við leigjum af (“fíflinu” eins og við köllum hann) að við fengjum ekki að leigja lengur, að sá sem hann leigði af leyfði ekki að hann áframleigði íbúðina lengur.
Það tók okkur enga stund að fá íbúð frá stúdentasamtökunum í Stokkhólmi enda var Auður búin að vera rúmlega 2 ár í röð.
Íbúðina fengum við 1. apríl og flytjum við núna á laugardaginn. Ég mun setja inn myndir af íbúðinni á næstu dögum en hún er 63 fm og þriggja herbergja. Eldhúsið er ekki beint eldhús heldur eldhúslíki (þ.e. pinkulítið eldhús) og baðherbergið er líka mjög lítið sem verður nátturulega til þess að stofan er þrælstór og herbergin mjög fín að stærð. Íbúðin lítur ekki allt of vel út á köflum og mun vera gert við hana. Umhverfið er heldur ekkert alveg ofsalega fínt enda eru öll hús í kring stúdentaíbúðir með frekar lágri leigu.
Staðsetningin er alveg ágæt, íbúðin er í Bergshamra sem er næsta stöð frá háskólanum og ætti að taka um 10 mín fyrir mig að hjóla. Auðar hópur flutti um mánaðarmótin frá háskólanum til Karolinska Institutet sem þýðir að það tekur hana lengri tíma en mig að hjóla.

Og seinast mánudag kom Mummi í heimsókn til okkar og verður þar til næsta mánudag. Greyið litla verður því píndur til að bera kassa á laugardaginn og fara í IKEA og ELKÓ á föstudaginn. Við munum nefnilega á föstudaginn kaupa okkur sjónvarp, DVD, video og uppþvottavél. Já, uppþvottavél. Þvílíkur draumur. Svo þurfum við auðvitað að fara í IKEA og kaupa eitthvað undir sjónvarpið og græjurnar og eitt og annað í viðbót.

Hérna eru allar myndir sem við höfum tekið 31. janúar – 2. apríl.