Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, mars 29, 2008
 
Mér leist nú ekki á páskamatinn sem Aujan mín var búin að steikja handa okkur seinasta sunnudag. Auður hafði náð í pönnu með loki á úr skápnum og skellt henni beint á heita helluna. Þegar hún ætlaði svo að setja grænmetið út á tók hún eftir því að þar var steikt silfurskotta fyrir. Gildrurnar sem við fengum fyrir tæpum 2 mánuðum virðast sem sagt ekki gera sérstaklega mikið gagn.

Við fórum með Önnu Eir í bíó fyrir tveimur vikum. Hún hafði nefnilega farið með mömmu og pabba í bíó um jólin og sat stjörf allan tímann. Við bjuggumst því við að hún hefði álíka ef ekki betri þolinmæði núna. Nei, við þurftum að yfirgefa salinn eftir 1 klst og vorum við Auður þá báðar orðnar töluvert spenntar yfir myndinni.

Við Auður erum á leið saman í útskriftarveislu næsta föstudag. Herbergisfélagi minn til 5 ára, Eistinn Mats Hansen, á að verja doktorsritgerðina sína. Um leið og ég er afar ánægð fyrir hans hönd að vera að klára og snúa aftur til Eistlands og ekki síst að losna frá prófessornum okkar (sem getur verið alveg einstaklega leiðinlegur) þá veit ég að það verður ekki alveg eins gaman í vinnunni. Ég verð alls ekki ein í herberginu, ég er með tvo aðra herbergisfélaga en þeir koma ekki í staðinn fyrir Mats. Herbergið okkar er mest alþjóðlega herbergið á stofnununni með einn Eista, einn Kínverja, einn Íslending og einn Svía (eða tvo ef ég tel mig með).
Ég er búin að ákveða að nágrannar okkar muni passa Önnu Eir á meðan, ég á bara eftir að spyrja þá.

Seinustu helgi skruppum við í Mörby centrum og urðum fyrir því óláni að gleyma koppnum hennar Önnu Eirar fyrir utan matvörubúðina. Að sjálfsögðu hringdi ég þangað til að spyrjast fyrir um koppinn en hann fannst ekki. Við sögðum Önnu Eir að við hefðum gleymt koppnum í búðinni og yrði hún því að pissa og kúka í klósettið framvegis. Hún kinkaði bara kolli og hefur ekkert mótmælt.

Ingimundur er búinn að kippa öllu varðandi myndasíðuna okkar í lið, svo núna getið þið skoðað myndir frá janúar, febrúar og mars:
Janúar
Febrúar
Mars