Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, apríl 16, 2003
 
Jæja, framhald af laugardeginum: Ég gleymdi náttúrulega einu í gær: Emelía bakaði sínar frægu bollur á laugardagsmorgun sem hlutu afar góðar viðtökur enda held ég að þetta hafi verið þær best heppnuðustu hingað til. Nammmmmm!!!

Allavega:Þegar við vorum búin með ölið í hvíta húsinu fórum við heim til Fruängen og allir lögðu sig nema ég. Ég er nefnilega svo geðvond þegar ég er nývöknuð og það er alveg nóg að gestirnir þurfi að þola það einu sinni á dag. Á meðan horfði ég á sjónvarpið, einhverja gæðaþætti sem sjónvarpsstöðvarnar bjóða upp á á laugardagseftirmiðdögum. Þegar pabbi og Heiðrún risu úr rekkju, fór ég á minn stað í eldhúsinu, vaskaði upp og eldaði. Þar sem nú var boðið upp á pasta sem þykir ekki matur í allra augum var líka boðið upp á kjúklingaafgang frá í gær og franskar. Ég held að allir hafi bara verið sæmilega ánægðir með þetta. Eftir matinn spiluðum við smá kana, held að Heiðrún hafi unnið með yfirburðum, man það ekki alveg og svo fórum við bara í rúmið.

Gestirnir vöskuðu svo upp á sunnudagsmorgun og fóru í gönguferð áður en við Emelía skriðum framúr. Þá fengu allir sér morgunmat sem var svona samansafn af öllu sem við borðuðum um helgina og síðan röltum við um “skóginn” hér í kring. Eftir miðdegislúrinn byrjuðum við að gera okkur sæt því við ætluðum í bæinn að borða. Fórum að venju á hinn stórgóða MEST. Við pöntuðum okkur öll tapasrétti sem voru góðir en svolítið sterkir. Eftir matinn röltum við aðeins um bæinn, fórum m.a. upp á rosalega útsýnisbrú sem Heiðrún benti okkur á. Þar sem einn í hópnum vildi ekki fara í lyftu löbbuðu allir upp stigann, sem var smá puð. Það var alveg rosalega fallegt veður, sólin að setjast og við sáum vel yfir Mälaren í báðar áttir. Príluðum svo niður og röltum meðfram sjónum og inn í gamla bæinn. Þar ætluðum við að setjast inn á kósí kaffihús og fá okkur heitt kaffi og hlýja okkur. Okkur var orðið svo kalt að við hlupum inn á fyrsta kaffihúsið sem við sáum. Það voru smá mistök því kaffið bragðaðist vægast sagt illa og afgreiðslustúlkan var geðvond og leiðinleg. Eftir þetta hlupum við í lestina og brunuðum heim í Fruängen. Spiluðum mjög stuttan kana og fórum svo í rúmið. Emelía þurfti að fara í vinnuna snemma daginn eftir og gestirnir vöknuðu um leið og hún, fóru í sturtu og svona. Ég rifaði í augun um hálf ellefu og við fengum okkur bollur og fórum svo í lestina til T-centralen. Þar tóku Heiðrún og pabbi rútuna til flugvallarins og þessari stuttu heimsókn var því miður lokið. Við Emelía hlökkum ægilega til að fá þau aftur í heimsókn í framtíðinni.