Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
![]() |
mánudagur, júlí 14, 2003
Bátsferð Á laugardaginn pökkuðum við Auður sængurfötunum okkar í eina ferðatösku og nokkrum flíkum ásamt venjulegum ferðaviðbótarhlutum í aðra ferðatösku. Þar með vorum við komnar með helminginn af töskunum sem við fórum með í til Íslands um daginn en í þetta sinn vorum við bara að fara í einn sólarhring í hálfgerða óvissuferð. Það sem við vissum var að við myndum hitta Anders (vinnufélaga minn) í miðbænum, taka strætó eitthvert út fyrir Stokkhólm í austurátt, hitta þar Coco (einnig vinnufélagi minn og fyrrverandi kærasta Anders), keyra að bátnum hans Anders og sigla eitthvert. Ég var með miklar áhyggjur af því að verða sjóveik þar sem ég hef tilhneigningu til að verða bílveik í bíl og lest; allt svona sem stoppar og fer aftur af stað og vaggar. Trikkið er víst (að þeirra sögn) að vera ávallt saddur, halda sig upp á dekki og horfa fram á við. Við settum ekki seglin upp á laugardeginum heldur sigldum bara með mótornum og lögðum að hjá einhverri klöpp þar sem við grilluðum. Að þeirra ósk sungum við Auður tvö íslensk lög. Auðvitað var “Krummi svaf í klettagjá” fyrir valinu þar sem lagið er þungt og með fullt errum en einnig tókum við “Yfir kaldan eyðisand”. Ég verð nú bara að segja það að mér finnst við Auður syngja dável saman. Það var ekkert svo skrítið að sofa í bátnum þó að það sé nú kannski soldið þröngt allt þarna fyrir okkur Auði og því veit ég nú ekki alveg hvernig fer með drauminn hennar Auðar, að eignast bát. Sérstaklega var þreytandi að klöngrast í gegnum litla lúgu upp á dekk um nóttina til að pissa og það í fötu! Á sunnudeginum sigldum við nánast allan tímann með seglunum og var Auður skipstjóri helminginn af tímanum. Mér líst alveg þrælvel á Auði sem skipstjóra, hún var afar áhugasöm og gætin og svo var svo gaman að horfa á hana því hún er svo falleg; hún var sem sagt algjör hetja. Seinni partinn fór sólin loksins að skína. Auður var (að sjálfsögðu) svo gáfuð að bera á sig sterka sólarvörn en þar sem ég var komin með soldinn lit á hendurnar þá hélt ég að ég yrði í lagi. Annað kom á daginn; ég brann vel á herðablöðunum þar sem nýji (bleiki) bolurinn minn var greinilega aðeins öðruvísi í laginu en bolurinn sem ég var í um daginn. Á leiðinni voru hundruðir eyja sem voru allar fallegar, klappir með fullt af gróðri en þó sá maður náttúrulega aðallega trén. Á mörgum eyjunum voru sumarhús eða verslunarhús. Á sjónum sjálfum var fullt af bátum, bæði seglbátum og mótor-bátum, og var öllum heilsað sem framhjá fóru. Mér þótti soldið skondið að það var síðan Auður sem varð örlítið sjóveik en ég var í fínasta lagi. Um leið og hún fékk hins vegar að stýra þá hvarf öll sjóveikin, hún er greinilega fæddur skipstjóri. Okkur var síðan skotið í land á einhverri eyju og tókum við strætóinn þaðan. Við vorum örlítði hissa en himinlifandi að strætókortin okkar giltu þarna úti í rassagati (það tók klukkutíma að komast í miðbæinn) þar sem þau gilda sko ekki út á flugvöllinn (tekur 40 mín). Þegar við settumst inn á McDonald’s fundum við báðar fyrir rosalegri riðu, staðurinn gékk hreinlega upp og niður. Við héldum nú að þetta myndi lagast strax en svo var nú ekki og finn ég örlítið fyrir þessu ennþá. |