Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, júlí 21, 2003
 
Helvítis. Ég var búin að skrifa soldið, fór síðan að vinna og þegar ég kom til baka var búið að loka öllum explorer gluggunum.
Á föstudaginn, eftir vinnu, fórum við Auður í stuttbuxnaleit í bænum. Það gengur hreinlega ekki að ég sé stöðugt í sömu stuttbuxunum, sérstaklega þar sem maður svitnar oft óheyrilega mikið vegna hitans. Ég fann fína, sumarlega skyrtu og hélt þá að ég fyndi ekki stuttbuxur, að ferðin væri jinxuð. En svo var ekki, ég á ábyggilega flottustu stuttbuxur í heimi; always ultra (þunnar og þægilegar), ljósar strákasundstuttbuxur, nákvæmlega eins og ég vildi hafa þær og svo er þær Nike í þokkabót :)
Eftirá skruppum við á JoLo til að spila pool og þaðan fengum við far með kennurunum okkar á írskan bar til að horfa á 16 liða úrslit á heimsmeistaramótinu í nine-ball, sem er einn af pool leikjunum.

Það var aðeins meira að gera á laugardeginum en ég áætlaði en samt sem áður stóðst nú tímaplanið mitt. Það þurfti að sjálfsögðu að þrífa pleisið aðeins, raða örlítið hagkvæmara upp í stofunni og færa græjurnar inn í litlu kompuna til að hátalararnir gætu hangið á veggnum sitt hvoru megin við dyrnar. Í vikunni hafði ég dröslað 7 klappstólum úr vinnunni hennar Hrannar því við bjuggumst við fullt að fólki. Ég gerði tvöfalda uppskrift af karmellunni hans pabba og tókst hún þrælvel í þetta sinn þó hún hafi kannski verið í örlítið harðari kantinum (skárra en að þær séu of linar) sem gerir það bara skemmtilegra að brytja hana niður; það er bara hnífur og hamar sem duga og yfirleitt verður allt í meters fjarlægð klístrað vegna lítilla karamellubrota sem skjótast út um allt. Svo gerði ég tvær kókosbollukökur að hætti mömmu, ég bakaði nú reyndar ekki botnana enda hægt að fá rosalega góða og ódýra botna út í búð, kosta svona 120 íslenskar krónur. Við stelpurnar bjuggum til kartöflusalat og venjulegt salat fyrir alla gestina og Hrönn kom með tvenns konar pæj og ís í eftirmat. Einnig þvoði ég allan þvottinn okkar því ég ætlaði sko að vera í nýju naríunum sem Auður gaf mér. Auður mín var algjör hetja, stóð í þessu öllu saman, sópaði og valdi margra klukkustunda tónlist í tölvuna. Við fengum fleiri gesti en ég hafði þorað að vona: 5 Uppsalabúa (allir Íslendingar), 4 úr vinnunni frá mér + 4 fylgifiskar, 1 úr vinnunni frá Hrönn, djammvinkonur okkar (2 stykki) + 4 vinkonur þeirra = 20 manns. Í afmælisgjöf fékk ég Kubb, sem er sænskt útispil, úttekt í búsáhaldadeild (fer einmitt á eftir að kíkja) og blóm (fyrsta blómið okkar) ásamt svona baðsápum og einhverju. Allir grilluðu (Georg grillaði fyrir flesta) og átu mikið. Við vorum svo saddar að við steingleymdum að bera fram allt snakkið og ídýfurnar en karamellurnar voru borðaðar. Auðvitað spiluðum við Kubb, mitt lið vann, en svo var farið inn og spilað soldið á gítar; ein af Uppsalafólkinu (Þóra) tók nefnilega með gítarinn sinn og spiluðum við saman. Nokkrir fóru í bæinn og fóru seinustu gestirnir rúmlega 2. Fjórir af Uppsölungunum gistu hjá okkur, það var því kjaftað heillengi frameftir og fórum við ekki að sofa fyrr en kl. 5.

Þetta voru fínir gestir, þeir sváfu alveg til kl. 12. Við borðuðum saman en svo héldu þau á vit ævintýranna, í útilegu. Einn hinna frábæru Ikea stólanna okkar brotnaði um daginn, þ.e. bakið brotnaði af. Þessir stólar eru nefnilega svo innilega heimskulega settir saman að þeir þola ekki álagið sem verður við að halla sér örlítið að þeim. Við trítluðum okkur því í Ikea, löbbuðum alla leiðina í sólskininu og tók það 55 mínútur. Ég er greinilega soldið vandlát þegar það kemur að stólbökum og fann ég ekki neinn sem ég var yfir mig hrifin af. Hins vegar fundum við gríðarlega góðan klappstól, úr mjúku plasti svo það skiptir engu máli hvernig maður situr í honum, það er alltaf fínt. Keyptum eitt stykki klappstól því á dagskrá eru fleiri heimsóknir frá Íslandinu góða og er nauðsynlegt að allir komist við matarborðið. Við vorum ekki í stuði að ferðast til að horfa á úrslitaleikinn nine-ball og í staðinn skúraði ég alla íbúðina, það var nú gaman.


Komnar 2 nýjar myndir af Týra.