Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
![]() |
mánudagur, júlí 07, 2003
Loksins létum við Auður verða að því að fara á Skansen, sem er víst frægt útivistarsvæði hérna. Fórum sem sagt á laugardeginum, vöknuðum snemma (klukkan 10) en fórum ekki af stað fyrr en rétt fyrir kl.14 þar sem við urðum aðeins að lesa Harry Potter. Lestarteinarnir voru rafmagnslausir frá næstu stöð við okkur að þeirri þriðju svo við urðum að taka strætó út í rassgat og svo annan þaðan niður í bæ. Við vorum heillengi með stætóunum en fengum þessa prýðis útsýnisferð. Reyndar horfði ég ekki svo mikið út þar sem ég hafði auga á þeim sem ég sat við hliðiná. Þetta var soldið subbulegur, gamall kall sem lyktaði smá af áfengi og byrjaði strax á því að spyrja mig af hverju ég gæti ekki sest annars staðar þar sem væru laus sæti. Til að fá kallinn til að þegja sagði ég honum að slappa af (á íslensku). Hann skildi mig ekki og spurðu hvað ég hefði sagt. Ég svaraði auðvitað á sama máta, afar rólega: "Ég sagði þér að slappa af" og við það þagnaði hann. Reyndar reyndi hann að spyrja mig af og til hvort ég væri hérna í fríi en ég ignoraði hann algjörlega, það er stundum einfaldast með svona fólk í samgöngutækjum. Allavega, fórum með ferju frá miðbænum (Slussen) til eyju sem heitir Djurgården og tók það innan við 10 mínútur enda ekki löng vegalengd. Á Djurgården kennir ýmissa grasa, þar er tívolí, sjávardýragarður, Líffræðisafn, safnið með hinu fræga Vasaskipi, þessi Skansen og margt fleira. Og við sem héldum að Skansen væri risastór svæði sem innihéldi allt þetta, þar með leiðréttist það hjá okkur. Við röltum aðeins um eyjuna (hún er alveg ofsalega falleg) í mjög fínu veðri og mössuðum svo safnið með Vasaskipinu. Þetta safn er rosalega flott, vel gert, vel uppbyggt og mjög áhugavert. Þeir segja að þetta skip sé eitt það frægasta í heiminum en við höfðum samt aldrei heyrt um það áður en við komum hingað til Svíþjóðar. Reyndar var Titanic eina skipið sem ég gat nefnt svo ég er ekkert smá stolt núna að hafa tvöfaldað skipanafnakunnáttuna. Til að fræða ykkur örlítið um þetta Vasaskip, þá var það sænsk stríðsskip af stærstu gerð sem sökk 1628 í jómfrúarferð sinni hér í höfninni í Stokkhólmi. Skipið var greinilega ekki nógu vel byggt því smá vindkviða varð til þess að það flæddi sjór inn um neðri fallbyssulúgurnar sem varð til þess að það sökk. Þetta var að sjálfsögðu ægilegur skandall fyrir Svía en þeir hafa samt heldur betur náð að græða á þessu skipi því 1954 fannst það aftur á hafsbotninum, að mestu heillegt, og var híft upp soldið síðar. Vasasafnið er mest sótta safnið á Norðurlöndunum. |