Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, ágúst 05, 2003
 
Föstudagurinn
Ég fór í vinnuna í tvo tíma en hitti síðan Auði í bænum þar sem hún hafði verið á umræðum í Pride house. Drifum okkur heim til að undirbúa matinn með Önnu og Þorvarði. Við grilluðum lax í forrétt (í undrasósu sem gestirnir keyptu) og lambafilé, sem þau komu með frá Íslandi, í aðalrétt. Þetta var að sjálfsögðu rosalega gott. Ég ætlaði síðan að þeyta rjóma með ávöxtunum í eftirrétt en tókst að búa til smjör (líklega var rjóminn ekki nógu kaldur) svo ávextirnir voru bara borðaðir eintómir. Greyið Auður mín var stungin af geitungi á meðan við snæddum og varð oddurinn og hluti af búknum eftir í upphandleggnum á henni en ég bjargaði lífi hennar með því að fjarlægja þennan utanaðkomandi og óvelkomna hlut. Það er þá líklega komið á hreint að Auður er ekki með bráðaofnæmi gegn geitungum.
Við Auður fórum síðan á Dragking keppni á TipTop. Sjálf keppnin var fín (8 atriði) en hitinn þarna inni var ógeðslegur, ég hef bara aldrei svitnað svona rosalega án þess að vera í íþróttum. Það var engin vifta í salnum og við þurftum að bíða í klukkutíma eftir að keppnin byrjaði, frekar fúlt, en ég var nú líklega með besta stæðið í salnum. Atriðið sem vann var rosalega flott; stelpa sem klæddi sig upp á sviðinu og mæmaði lagið“Why” með Ann Lennox af þvílíkri innlifun. Náðum að dansa örlítið en annars var tónlistin nú ekki beint fyrir okkur.

Laugardagurinn
Fórum í Gay pride gönguna öll fjögur, eða öllu heldur horfðum við á gönguna, við stóðum á sama blettinum allan tímann. Það tók gönguna 1 klst og 15 mínútur að fara framhjá okkur og var gríðarlegur fjöldi þáttakenda úr ýmsum áttum: m.a. löggur, kennarar, feministar, s/m, klæðskiptingar og kynskiptingar, þeir sem segja já við evrunniog þeir sem segja nei við evrunni (við skiljum nú ekki beint hver tilgangur þeirra var), stuðningshópur foreldra, stuðningshópur systkina og vina, mótorhjólagengi, leðurhommar, stjórnmálaflokkar, 250 metra langur pride fáni og miklu fleira. Samtals voru yfir 80 atriði. Þetta var margt hvað fríðir hópar en eftir að hafa staðið þarna í rúman klukkutíma verð ég nú að viðurkenna að ég var dauðfegin þegar gangan endaði, ég þurfti nefnilega oft að standa á tám til að sjá eitthvað þar til ég fattaði að standa á sundboltanum sem ég greip. Á boltanum stóð “Ja til euron” og ef þetta er ekki nægileg ástæða til að kjósa já þá veit ég ekki hvað. Eftir gönguna fórum við Auður í Pride park. Þar komumst við að því að 100 þúsund manns hafði horft á gönguna (sem er þrisvar sinnum meira en á Íslandi) en einnig að það hefði verið ráðist á fólk í göngunni sjálfri, þvílíkt og annað eins! Skemmtiatriðin voru með betra lagi þennan daginn en líklega eru það nú bara við útlendingarnir sem kvörtum yfir leiðinlegum atriðum því við þekkjum ekki þessa sænsku celeba. Fram kom hin eina og sanna Samantha Fox. Hún er bresk söngkona og víst lesbía og var frægust á níunda áratugnum. Hún virðist vera mjög þekkt en ég bara hreinlega veit ekkert hver þetta er og fílaði ég ekki lögin hennar. Einnig kom fram sænska hljómsveitin Alcatraz en ég hef heyrt allavega eitt lag með þeim, reyndar án þess að hafa hugmynd um á hvern ég væri að hlusta. Þau eru svo fræg hérna í Svíþjóð að þau fengu þann heiður að búa til Gay pride lagið 2003. Skemmtilegasta atriðið var þó þegar Sertab (tyrkneska konan sem vann Júróvisjón í ár) söng sigurlagði í Júróvisjón 2003. Það var frábært að fá að heyra lagið frá vinningshafanum sjálfum og skipti engu máli þó Júrovisjón væri löngu búið. Þetta var hennar eini tilgangur á hátíðinni. Ekki má gleyma að í pissuröðinni hittum við Gilbert Baker, manninn sem bjó til regnbogafánann sem er tákn samkynhneigðra en fáninn á einmitt 25 ára afmæli í ár. Við sönnum þetta síðar fyrir ykkur (þegar við framköllum myndirnar) því Baker var heldur betur viljugur að láta mynda sig með okkur. Hann var reyndar svo hógvær (eða fyndinn) að þegar ég muldraði eitthvað við hann “photograph” og benti á okkur þá hélt hann að við værum að biðja hann um að taka mynd af okkur.