Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, ágúst 03, 2003
 
Miðvikudagurinn
Auður náði í mömmu sína og löbbuðu þær eitthvað um bæinn. Eftir vinnu hitti ég Þorvarð, Önnu og Auði í bænum og við fengum okkur Pizza Hut saman. Við Auður fórum síðan á opnunarhátíð Gay pride en nýju hjónin í tangó. Það voru alls ekki eins margir inni á svæðinu og ég bjóst við, hugsanlega hafa margir verið ósáttir við að stjórnmálamaður fyrir Moderatarna átti að halda opnunarræðuna því viðkomandi hefur fellt flest stórmál á þingi sem viðkemur auknum réttindum samkynhneigðra. Ég hafði samt soldið gaman af því að hin fræga, sænska hljómsveit A-teens tók nokkur lög. Þessi hljómsveit fór hrikalega í taugarnar á mér fyrir nokkrum mánuðum, þegar ég sat atvinnulaus heima og horfði stöku sinnum á MTV, því þar fara fjögur svo fullkomin ungmenni að það er hálf ógeðslegt. Hins vegar er ég alveg hætt að æsa mig þegar ég sé þau og fannst því jafvel bara gaman að fá að berja þau augu í alvörunni.

Fimmtudagurinn
Fórum fjögur í 20 mínútna siglingu til Fjäderholmarna. Aðaleyjan er frekar lítil með veitingahúsum, leir- og myndagalleríum, glermiðju, járnsmiðju og svo er hægt að baða sig allt um kring. Ég fékk að gera leirskál (og fékk að borga fyrir) eins og litlu krakkarnir, allavega voru bara um 12 ára stelpur þarna þegar ég var. Skálin er auðvitað rosalega flott, langflottust af þeim sem stóðu í sólinni og þornuðu enda fékk ég gríðarlega mikla hjálp hjá leirlistakonunni. Því miður brenna þeir ekki skálina fyrir mann enda tekur það um 9 klst að hita hana og svo þarf hún sinn tíma að kólna. Við röltum um eyjuna til að finna góðan baðstað en allt var frekar svipað svo við plöntuðum okkur við göngustíginn í allra augsýn enda öll afskaplega falleg og flott og því engin ástæða til að fela okkur. Þarna voru að sjálfsögðu engir búningsklefar og notaði ég því Mr. Bean afbrigðaaðferð til að fara í bikiníbuxurnar mínar; ég var nefnilega í stuttbuxum en ekki síðbuxum eins og Mr. Bean en ég komst að því að þetta er allavega hægt og einnig er hægt að klæða sig í stuttbuxurnar aftur á sama hátt. Ég er alltaf jafn hissa þegar ég kemst að því að sjórinn er ekkert svo kaldur en þarna var svo fjandi grýtt að við entumst nú ekki mjög lengi, auk þess mynduðust svo miklar öldur þegar stóru skipin fóru fram hjá að maður blotnaði alveg upp á háls og átti í erfiðleikum með að standa á löppunum. Við keyptum handunninn bolla í afmælisgjöf handa Önnu, sem á afmæli 5. ágúst, og það leið ábyggilega tæpur klukkutími þar til hún tók eftir því að við vorum með pakka vafinn inn í bolinn hennar Auðar en þá fór hún líka að forvitnast.
Við Auður fórum svo í picknick með Hrönn í skóginum fyrir utan Gay Park. Við keyptum nú bara McDonald’s til að hafa þetta sem einfaldast. Við Hrönn fengum að klappa 3 metra langri slöngu sem einhver stelpa var með þarna, þetta var soldið skrítið, ekkert nema vöðvi og mun mýkra en ég hafði hugsað mér, samt kannski soldið eins og að snerta gervileður.
Um kvöldið fékk ég afmælisgjöf frá Önnu og Þorvarði; glansandi fjögurra lítra pott, þvílíkt flottan, með glerloki. Núna er eldhúsið okkar nánast fullkomið. Það er greinlegt að bloggið okkar hefur meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir því Anna hafði fengið þessa frábæru hugmynd eftir að hafa lesið að við værum í pottavandræðum.
Við Auður fórum síðan á stelpukvöld á risaskemmtistað, sá allra stærsti sem ég hef farið inn á. Við þekktum nú ekki nema 3 stelpur þarna inni en þetta var engu að síður mjög skemmtilegt því við gátum dansað við nokkur technólög. Sáum rosa flott dragking show (með hópnum Lion Kings) sem bar það fína heiti Hunky Punky Horny Porno Show en við höfðum aldrei séð dragkónga áður og vorum því soldið spenntar. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað dragkóngur er þá er það kona sem klæðir sig upp sem karlmaður og kemur síðan fram. Þær (þeir!) eru yfirleitt með skegg til að sýnast karlmannlegri, vefja brjóstin á sér með teygjubindi til að minnka þau og setja sokkapar eða eitthvað álíka inn á nærbuxurnar (þarf líklega ekki að útskýra þennan part!). Dragkóngar eru ekki alveg þveröfugt við dragdrottningar; dragdrottningar eru mikið málaðar og öfgafullar í klæðnaði og fasa og líkjast hreinlega engum konum (enda ekki tilgangurinn) en dragkóngar eru oft einfaldlega eins og karlmenn. Það er líka ekki hægt að finna karlmanns hliðstæðu við dragdrottningar. Það sem var m.a. svo skemmtilegt við þessa sýningu var að þær bjuggu til einn dragkóng á innan við 5 mínútum svo maður sá hvað þetta er í raun lítið mál; ein þeirra kom nakin fram á sviðið og svo var hún klædd í boxer, sett sokkapar inn á, brjóstin vafin, klædd í leðurbuxur, klædd í hlýrabol, málað skegg, teygjan tekin úr svarta hárinu og þá var fæddur rokkari. Í þessu showi var ofslega falleg stelpa; ljóshærð með tvær fléttur sem náðu niður á rass (og þetta var greinilega hennar eigið hár), hávaxin, vel vaxin og með nokkuð stór brjóst, svona álíka og hún Auður mín hefur :) Ég hefði sko aldrei í lífi mínu giskað á að þessi stelpa væri í dragking showi svo þetta eru ekki alltaf bara einhverjar feitar ljótar konur.