Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, ágúst 15, 2003
 
Nöldurhorn Auðar
"Ísland, best í heimi"

Þegar maður býr í útlöndum þá hugsar maður oft heim til fallega litla landsins síns og hvað er nú gott að búa þar, ekki bara út af öllu frábæra fólkinu sem maður þekkir heldur líka því land og þjóð eru svo öðruvísi, spennandi, skemmtileg, síbreytileg. Maður horfir út um gluggann á útlenska sumarmolluna, á 20 metra háu trén allstaðar sem skyggja á allt útsýni og muldrar í barminn “Ísland best í heimi”.
En þessi tilfinning er ekki gagnkvæm. Það er eins og um leið og maður stígur út um dyrnar á hagstofunni eftir að hafa tilkynnt að maður ætli að flytja út, afskrifi Ísland mann algjörlega og líti svo á að það gegni engum skyldum gagnvart manni frá og með þeirri mínútu. Ég á til dæmis vinkonu sem flutti ólétt út til Danmerkur með manninum sínum sem ætlaði í nám. Þau höfðu bæði búið á Íslandi mestanpart ævinnar og borgað skatt eins og aðrir í nokkur ár en þegar þau fluttu til Danmerkur misstu þau allan rétt til fæðingarorlofs frá Íslandi. Hún varð að gjöra svo vel að finna sér ólétt vinnu í Danmörku til þess að komast inn í kerfið þar (og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað eru margir vinnuveitendur sem vilja ráða óléttan útlending). Sem betur fer er hún hraust og dugleg og gat unnið á meðgöngunni þann tíma sem þurfti til að fá fæðingarorlof frá danska ríkinu. Auðvitað reyndi vinnuveitandinn hennar að svindla á henni, af því að hún er ung, útlensk kona með barn en það er önnur saga. Það sem mér finnst svo merkilegt er að enginn réttindi flytjast með manni þegar maður flytur út. Fæðingarorlof er miðað við laun í heilt ár áður en orlofið hefst og eðlilegt hefði verið að íslenska ríkið borgaði amk. þá mánuði sem foreldrarnir unnu á Íslandi á þessu viðmiðunarári.
Ég á aðra vinkonu sem flutti með mér til Svíþjóðar þegar ég byrjaði þar í námi. Hún hafði borgað sem nemur tæplega einum atvinnuleysisbótum á mánuði í skatt í tvö ár áður en hún flutti út en enginn réttindi fluttust með henni hingað og því lifði hún og vinkonan, ég, af 75 þúsund krónunum á mánuði í þrjá mánuði. Þar að auki gat þessi vinkona mín ekki fengið til baka neitt af persónuafslættinum sem hún nýtti ekki eftir að hún flutti frá Íslandi því hún var ekki að fara í nám eða að elta maka sinn sem var að fara í nám heldur elti hún “vinkonu sína”. En það snýst nú um að samkynhneigðir geti ekki skráð sig í sambúð heima og er líka önnur saga.
Þessi vinkona mín sem býr með mér hér í Svíþjóð og ég erum orðnar dálítið leiðar á því að vera bara vinkonur í augum ríkisins hér og heima, auk þess sem okkur langar eins og öðrum pörum að fagna því með ættingjum og vinum að við séum saman og ætlum að vera áfram saman. Því langar okkur að gifta okkur eða staðfesta samvist eins og það heitir víst. Við vorum búnar að velja dag (fyrir löngu, reyndar) og sjá þetta dálítið fyrir okkur, hversu stóra veislu við vildum hafa og hvernig við vildum vera klæddar og greiddar og svoleiðis. Góða fólkið á sýsluskrifstofunni var meira að segja búið að segja okkur að hægt væri að staðfesta samvist einhverstaðar annarstaðar en á sýsló á skrifstofutíma. En þetta er auðvitað of gott til að vera satt. Um leið og við fluttum frá Íslandi gleymdi það okkur. Við getum ekki staðfest samvist á íslandi þar sem hvorug okkar er búsett þar, þó við séum báðar íslenskir ríkisborgarar. Ég þarf auðvita ekki að taka fram að þetta gildir ekki fyrir heterópakk. Karl og kona sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar, og eru ekki einu sinni með íslenskt lögheimili geta trillað sér til Íslands og gift sig en ekki við. Um leið og við erum komnar útaf hagstofunni með flutningsvottorðið í hendinni missum við þennan möguleika líka. Veit ekki hver rökin eru, kannski er svo dýrt að staðfesta samvist, kannski finnst Íslandi óþarfi að létta lífið of mikið í einu fyrir íslenska homma og lesbíur, kannski finnst Íslandi að við getum þá bara gert þetta í útlandinu sem við erum í (sem er btw ekki hægt í Svíþjóð fyrr en eftir 2ja ára búsetu), skiptir ekki máli þó að allir ættingjar og flestir vinir okkar séu á Íslandi og kannski af því að Íslandi er nákvæmlega sama um okkur um leið og við hættum að borga skatt. Þá feikar það alzheimer og gleymir okkur eins og öllum öðrum Íslendingum í útlöndum.
En ég held samt að þó Ísland gleymi okkur Íslendingum í útlöndum strax þegar við veifum út um pínulítinn gluggann á flugleiðavélinni með tár á kinn gleymum við því aldrei. Þegar við veltum blindfull niður þverbrattan útlenskan stiga og fótbrjótum okkur erum við með sonnettu um fjöllin, litla stöku um sumarnóttina eða jafnvel bara lítið “Ísland best í heimi” á vörunum, jafnvel þó að við vitum að við fáum engar örorkubætur frá Íslandi.