Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
![]() |
föstudagur, september 19, 2003
Til viðbótar við þrjá ósamstæða sokka (sem hanga ennþá inni á baði) þá fundum við flíspeysu og jakka af fyrrverandi gestunum okkar í morgun. Kæru fyrrverandi gestir, það eru allar líkur á að við hendum þessum sokkum (þar eð við erum búnar að gera of mikið af sokkabrúður) en reynum að koma peysunni og jakkanum til Íslands með næstu gestum. Við Auður erum ennþá að ná okkur eftir keyrsluna í seinustu viku. Drösluðumst þó í pool í gær og í fyrradag. Við vorum alveg búnar í gær, gátum ekkert og fórum að sofa fyrir 23. Þegar vinnufélagar Auðar náðu í fiskinn sinn fyrir nokkrum vikum, þá fengum við einhvers konar Singaporískt ljós í þakklætisgjöf (ekki tilviljun því þau voru í Singapor), þau reyndu meira að segja að gefa okkur fiskinn en Auður afþakkaði pent. Ljósið var heillengi í umbúðunum og færðist um stað í íbúðinni ef það var fyrir okkur. Þegar ég var farin að skammast mín fyrir letina í okkur tók ég það upp og reyndi að setja saman. Í fyrstu leit ekki út fyrir að mér tækist það, það voru fjórar hliðar og tveir þverbitar og engar svona IKEA leiðbeiningar og ég var í vandræðum. Ljósið leit alls ekki út eins og ég hafði ímyndað mér, ég hélt að þetta væri veggljós þegar það var í umbúðunum en þetta er í raun lampi, ofsalega flottur, svona dæmigerður asískur með pappírsveggjum. Mér tókst loksins að sjá útúr þessari roknarbyggingu en geymdi að setja hana saman því við þurftum að taka klóna og perustæðið með út í búð til að kaupa millistykki og peru. Þessi kló var nefnilega afar furðuleg, tveir flatir pinnar, og minnsta peran sem við fundum í Fruängen var of stór fyrir stæðið. Við fórum í sjálfan miðbæinn í búðina sem vinnufélagarnir bentu á en þar var okkur sagt að við gætum ekki fengið þetta millistykki í allri Svíþjóð, það væri einfaldlega bannað að selja það. Hins vegar gætum við fengið millistykki fyrir venjulegar klær svo maður gæti notað þær í Singapor (auk þess vildi kallinn eiginlega ekki selja mér peru því það væri tilgangslaust ef ég hefði ekki millistykki). Þessu neitaði ég sko að trúa, Svíar gætu bara ekki verið svona vitlausir. Að sjálfsögðu fórum við í Åliéns, þar sem allt fæst, og fengum í einum og sama pakkanum þrjár tegundir af millistykkjum sem maður ætti þá að geta farið með um allan heim!!! Við fengum þó ekki peru í Åliéns og fórum því aftur í heimsku búðina. Leitin (við þriðju konu meira að segja því Hrönn hjálpaði okkur) bar ekki árangur og varð úr að við keyptum nýtt perustæði. Þessi ferð var því þegar allt kom til alls afar gagnleg, við lærðum meira að segja stærðarkerfið á perustæðum!!! Hvern langar ekki til að vita það :) Jæja, þegar heim var komið setti ég nýja perustæðið í og millistykkið fyrir klóna en ekki kveiknaði á perunni. Að sjálfsögðu reyndi ég að skrúfa perustæðið í sundur til að sjá hvort vírarnir væru ekki örugglega tengdir en þá var allt pikkfast. Nú var ég að því komin að fella eitt lítið tár. Lokatilraunin mín bar óvæntan árangur, ég skrúfaði slökkvarann í sundur og var þá annar víranna ótengdur. Þessi lampi var nú meiri bjarnargreiðinn en hann er svo flott að við erum hæstánægðar með að hafa haft smá fyrir honum. ENDIR miðvikudagur, september 17, 2003
Laugardagurinn Drösluðumst út um hádegi, að sjálfsögðu var stefnan sett á að versla. Það merkilega við þennan dag var að mér tókst að fá Hauk til að máta nokkrar flíkur og meira að segja kaupa líka; hann setti persónulegt met. Við fórum heim og grilluðum kjúklingabringur og buðum Hrönn og Georg því þetta var hálfgerð afmælisveisla hjá Auði. Auður fékk fullt af pökkum: koníak frá krökkunum (fyrsta flaskan hennar), heklaðan dúk frá ömmu sinni í Sandvík, náttföt frá mömmu sinni og Þorvarði og öllum hinum og líka Kötu, og geislaspilara sem hún getur gengið með frá mér. Við sáum það að við getum í raun ekki boðið neitt fleiri en 6 manns í mat því fleiri komast ekki við matarborðið. Hrönn og Georg fóru heim en við hin drukkum aðeins og ætluðum síðan inn á einhvern stað í bænum, sýna krökkunum svona smá næturlífið í Stokkhólmi. Þau urðu soldið vonsvikin því okkur var vísað frá fyrsta staðnum því ég var með bjór í röðinni, sem stóð btw ekkert um að maður mætti ekki hafa. Auk þess setti ég bjórinn strax frá mér þegar dyravörðurinn gerði athugasemd. Ég held að mér líki afar illa við dyraverði, þeir eru upp til hópa algjör valdafífl og greinilega ekkert í gangi í hausnum á þeim nema það að þeir ráði. Fórum inn á einhvern bar til að tjilla en týndum Hauki. Þegar drengurinn var ekki búinn að skila sér eftir heilan bjór þá ákváðum við bara að fara heim aftur og freista þess að hann hefði gert hið sama. Okkur létti afskaplega þegar við hittum hann svo á lestarstöðinni. Enn og aftur var haldið heim og spilaður kani. Sunnudagurinn Núna náðum við sædýrasafninu og sjáum sko ekki eftir því, það er rosalega flott og með glæsilegum dýrum. Við Auður nýttum okkur lestarkort krakkanna til að kíkja inn á tívolísvæðið því það er ókeypis fyrir þá sem eiga eins dags eða þriggja daga lestarkort (sem sagt túrista) en ekki mánaðarkort eins og við Auður eigum. Við Auður og Haukur röltum um bæinn og keyptum brúðkaupsgjöf handa Byddí og Nonna og fylgdum svo Hauki í lestina til Köben. Ég held barasta að við hljótum að hafa tekið kana líka þetta kvöld :) Mánudagurinn Vorum í vinnunni allan daginn og fórum svo í poolkennslu. Auður fékk pakka frá Hrönn og Georg: brýni (Hrönn heyrði þegar Sigmar kvartaði eitthvað yfir bitinu á kjöthnífnum okkar á laugardaginn) og bók (sem ég man ekkert hvað heitir) sem Auður og Hrönn ræddu ábyggilega um í heilar 2 mínútur á laugardaginn og ég var svo heppin að sitja á milli þeirra :) Þar sem Auður mín átti afmæli þá fórum við á Pizza Hut. Tókum síðan síðasta kanakvöldið með Sigmari og Hlín. Sigmar fer til baka með fullt af kanareynslu því aldrei á ævi sinni hefur hann séð fólk segja eins oft kana og í þessari ferð. Gærdagurinn fór svo bara í að taka til þegar heim var komið. Það safnast ótrúleg ló á gólfið á einungis einni viku þegar 5 eru saman komnir. Við tiltektina tók ég eftir því að okkur hafði fjölgað soldið því í tveimur hornum voru samtals 4 köngulær og síðar fann ég eina á rölti yfir stofugólfið. Setti inn glænýja mynd af Týra. Gestirnir okkar eru allir farnir. Til þess að við fengjum ekki áfall yfir því að verða aleinar aftur þá fóru þau í hollum; Haukur á sunnudagskvöldið og Sigmar og Hlín þriðjudagsnóttina. Og til að deyfa sársaukann skildu þau eftir pela af vodka og flösku af líkjör sem ætti að duga okkur þar til næsti gestur kemur. Við erum þreyttar eftir allt þrammið en afar glaðar yfir skemmtilegri heimsókn. Ég ætlaði að vera löngu búin að segja smá frá dögunum með gestunum, en allavega, hérna kemur það. Við fengum fullt af dóti með gestunum. Að sjálfsögðu níðumst við á öllum sem koma til okkar, látum þá ferja dótið okkar frá Íslandi :) Haukur kom með úttroðna ferðatösku af tómum myndaalbúmum, bókum, nammi, geisladisk með Herði Torfa frá mömmu og pabba og inní var fullt af pening í afmælisgjöf handa okkur Auði; það var náttúrulega aðallega peningarnir sem tóku allt plássið :) Takk æðislega, mamma og pabbi! Föstudagurinn Unnum bara hálfan dag og gæduðum síðan ferðalangana aðeins. Auðvitað fór ég með Hauk í Naturhistoriska safnið og sýndi honum steingervinga, hann hélt varla vatni yfir fegurðinni (mín útgáfa af sögunni!). Ég sýndi Hauki vinnuaðstöðuna mína og svo var hann svo heppinn að berja Auðar líka augum. Við tókum ferjuna á nærliggjandi hólma til að fara í Tívolíið og Aquaria Water Museum (sædýrasafnið). Það var soldið skondið að við vorum of snemma fyrir Tívolíið og of sein fyrir sædýrasafnið. Við Auður skildum krakkana eftir hjá Tívolíinu og fórum í bæinn til að leita að brúðkaupsgjöf handa Byddí og Nonna. Við sameinuðumst öll um matarleytið og fengum okkur bita á einhverjum stað sem krakkarnir fundu, staður sem við Auður höfum aldrei prófað fyrr og ekki einu sinni tekið eftir. Maturinn var stórgóður en þjónninn var frekar skrítinn. Hann skrifaði ekkert niður sem við sögðum og þó vorum við 5. Síðan kom hann stuttu síðar og spurði okkur hvað Haukur og Sigmar hefðu pantað sér að drekka. Svo kom hann og spurði mig hvað ég hefði pantað að borða. Þegar maturinn kom, vantaði einn skammtur af hvítlauksbrauði og á hamborgaranum hans Hauks var laukur en hann hafði pantað án. Haukur sendi hamborgarann rakleiðis til baka og fékk nýjan stuttu síðar sem hann fann reyndar örlítinn lauk í!!! Héldum heim á leið og spiluðum kana. mánudagur, september 15, 2003
Auður mín á afmæli í dag og er 26 ára, til hamingju yndið mitt :) Í gær kusu Svíar nei við evrunni, 56 % á móti og 42 % með. Spekúlantar vorum með hugmyndir um að margir myndu kjósa já af meðaumkun yfir dauða utanríkisráðherrans (Anna Lindh) sem var einn helsti já-maðurinn. Hins vegar er nú líka sá möguleiki að eftir þetta morð hafi Svíar verið dauðhræddir við breytingar og bara viljað halda landinu áfram fullkomnu og fallegu og þar af leiðandi kosið nei. |