Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
![]() |
föstudagur, nóvember 28, 2003
Meira um veruleikaþætti Núna á þriðjudaginn byrjaði stöð 5 að sýna Extreme makeover þar sem 3 manneskjur sem eru óheppnar útlitslega áttu að fá ókeypis lýtaaðgerðir, "styling" og þess háttar þannig að þær yrðu mönnum bjóðandi. Ég var frekar spennt yfir þessu, og bjóst við óhamingjusömum fílamönnum og frankenstænum sem yrði síðan breytt í Brynjur X (hvar er hún annars í dag) og Ben Afflekka og fengju þá alla sína drauma uppfyllta. Í staðin var þetta bara ósköp venjulegt fólk, sem leit bara ágætlega út. Það var í raun ekkert að því og enginn ástæða til að breyta þeim neitt, kannski fyrir utan strákinn sem hafði misst 50 kg og var með lafandi húð útum allt sem hann vildi skiljanlega losna við. En allavega þau fóru í lýtaaðgerðir og eróbikk og meiri lýtaaðgerðir og hárgreiðslu og fengu tískuráðgjöf og bla bla. Á endanum litu þau öll út eins og persónur úr sápuóperu síðan 1989, fullkomin, einvíð og leiðinleg. Fy fan! eins og þeir segja hér í svíþjóð. Ein af þessum þremur fannst hún eiga ægilega bágt því hún var ekki með beint nef og þegar hún var lítil var hún oft spurð hvenær og hvernig hún hefði brotið á sér nefið, en ekki hvort. Þetta fannst henni hafa eyðilagt líf hennar og hún gat ekki verið hún sjálf vegna þess hvað hún var með skakkt nef. Það er ekki langt síðan ég fékk þessa sömu spurningu síðast og mér er alveg sama núorðið. Það fær sko enginn að segja mér að nefið á mér sé ekki nógu gott af því að það er ekki fullkomlega beint. Þetta er mitt nef og ég ætla að hafa það svona. Og frekjuskörð eru falleg. miðvikudagur, nóvember 26, 2003
Heimskulegu veruleikaþættir. Við Auður (aðallega Auður þó!) höfum aðeins verið að fylgjast með “For love or money” sem er eins og “Bachelor” þættirnir nema að í lokin verður stelpan að velja strákinn (sem var nú eiginlega kall, rúmlega þrítugur) eða eina milljón dollara. Það er meira að segja varnagli á. Þessi milljón er borguð út á 40 árum og mega keppendurnir ekki vera í sambandi. Við vorum að sjálfsögðu algjörlega vissar allan tímann að sú sem yrði fyrir valinu myndi vera svo heimsk að velja strákinn. Ég meina, það er augljóslega hin ranga ákvörðun, fólkið er búið að vera að kynnast í tvær vikur og oft innan um aðra keppinauta. Svo eru aðstæðurnar fáránlegar, æðislegar ferðir og matur sem þau munu ekkert hafa efni á að gera þegar þau reyna síðan fyrir alvöru að kynnast eftir þáttinn. Það voru samt margar stúlkur sem sögðust myndu velja peningana því þær þekktu strákinn ekkert mikið eða voru ekkert almennilega hrifnar af honum. Svo var þarna ein ung og afar heimsk sem var svo yfir sig ástfanginn. Ég verð hrikalega pirruð bara af því að hugsa um þessa stelpu, hún var svo vitlaus. Allavega, hún var sko búin að ákveða að velja strákinn. Sem betur fer valdi hann aðra stelpu í blálokin sem gerði hið rétt, valdi peningana. Við þessa einu ákvörðun styrktist trú mín á konum og fólki yfir höfuð. En sú missti svo aldeilis niðrum sig buxurnar. Þremur vikum síðar mætti hún aftur til að taka þátt í “Bachelorette” þáttum til að reyna að finna hinn rétta. Málið er að ef seinast strákurinn velur hana ekki þá tapar hún þessari einu milljón dollara sem hún vann í hinni seríunni, en ef strákurinn velur hana þá fá þau hvor sína milljónina og geta haldið áfram í sambandi. Sem betur fer þurfum við Auður ekki að eyða tímanum í að horfa á þetta, skapið verður þá líklega líka betra, því niðurstöðuna er víst hægt að finna á netinu. Strákurinn valdi sem sagt hana. Undarleg niðurstaða í þessum tveimur þáttum, akkúrat öfug miðað við það sem ég hefði giskað á. þriðjudagur, nóvember 25, 2003
Ha! Í gær fórum við hrönn á poolnámskeiðið okkar. Emelía var að lesa því hun er enn svo stressuð fyrir þessa grein sem hún er að skrifa. Það var útsláttarkeppni í 14-1 sem ég vann!!!! jei! Ég var reyndar svo heppin að ég þurfti ekki að keppa í fyrstu umferð (fjöldi keppenda var oddatala og ég gekk af) en svo átti ég að keppa við stelpu sem er laaaangbest í kúrsinum. Hún spilaði hins vegar svo hræðilega illa að ég vann hana með þó nokkrum mun og hún varð öskureið. Ég var hálfhrædd við hana og þorði eiginlega ekki að keppa í úrslitaleiknum við stelpu sem er skv. nýjustu heimildum, kærasta þeirrar laaangbestu. En ég ákvað að taka afleiðingunum, keppti og vann. Úff! Ég var hrædd um að þær myndu króa mig af í húsasundi á leiðinni heim og berja mig í klessu en í staðin skipti þessi langbesta um leður á kjuðanum mínum og kvaddi með því að segja:" sjáumst í næstu viku!" Ég er samt ekki alveg örugg um mig ennþá.... mánudagur, nóvember 24, 2003
Á föstudaginn fór ég á fyrstu doktoktorsvörnina mína og í fyrstu doktorsútskriftarveisluna. Það var rosalega gaman, bæði, en þó meira veislan. Svíar eru mjög hefðbundnir og í öllum veislum og vitaskuld var það þannig að það var raðað í sæti þannig að enginn sat hjá neinum sem hann þekkti (er þetta tvöföld neitun btw) og auðvita skiptast alltaf á strákur-stelpa-strákur-stelpa, sem er afar heimskulegt og gamaldags fyrirkomulag, sérstaklega fyrir íslenska ribbaldakonu sem hefur engan áhuga á að láta lítt gæfulegan borðsherra draga út stólinn eða hella í glasið fyrir sig. En veislan fór vel fram, með ekkert of mikið af ræðum, þó mamma doktorsins nýja sé fyrsta og eina hingað til, konan sem var yfir sænsku vísindarannsóknargeimakademíunni (man ekkert hvað það heitir) og þó að doktorinn sé af þriðju kynslóð raunvísindamanna í bæði móður- og föðurætt. Foreldrar hans voru bara hissa á hvað það hafði orðið úr stráknum með þessa stórklikkuðu foreldra og þurftu ekkert að tjá sig um hvað hann væri vel ættaður. Eftir eftirréttinn var auðvita dansað, dj-arnir voru ágætir, spiluðu ekkert of mikið af leiðinlegri sænskri evróvísjóntónlist og þeir spiluðu Justin sæta! Áttu samt ekki "Can´t get you out of my head" sem er skylduspilun á öllum diskóum. Ég var með þeim síðustu að fara eins og venjulega og var komin heim um hálf sex. |