Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, maí 28, 2004
 
Í gær eftir vinnu fórum við í IKEA og keyptum rosalega fína kommóðu í fínu stofuna okkar. Kommóðan var 40 kg og það tók okkur töluverðan tíma að dröslan henni heim með strætó og tunnelbana. Undir lokin gátum við labbað kannski 10 metra og þurftum þá að hvíla okkur. Á þessu spöruðum við 5000 íslenskar (sendingarkostnaður/leigubíll) og við erum ekki alveg búnar að ákveða hvað við ætlum að kaupa fyrir peninginn. Það merkilega við þessa ferð var samt að við rifumst bara tvisvar þegar við vorum að rogast með ferlíkið heim og bara einu sinni þegar við vorum að setja það saman. Það kalla ég gott, enda IKEA ábyrgt fyrir mörgum sambandsslitum í upphafi búskapar.

Í kvöld er veisla hjá einni í hópnum mínum því hún mun verja doktorsritgerðina sína í dag. Ég er rebbel og ætla að fara í buxnadragtinni minni en ekki kjól/pilsi eins og reglurnar segja. Ég verð síðan örugglega látin sitja hjá einhverjum kallhálfvita sem mun drepa mig úr leiðindum með sænskum samtalsefnum; hvernig þekkir þú Doktorinn/hvar býrðu eiginlega/mig hefur alltaf langað til að koma til Íslands. En ég er ákveðin í að vera kurteis, Snævar Uppsalabúi skammaði mig nefnilega um daginn fyrir að reyna ekki einu sinni að sýna rétta samkvæmishegðun í veislum sem mér er boðið í (og þarf reyndar að borga í líka), við skulum sjá til hversu lengi ég held út, ég giska á þriðja rauðvínsglas.

Og munið: Nú er næstum bara mánuður þar til við komum heim (4. júlí) og þið verðið að fara að skipuleggja partýin.