Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, maí 03, 2004
 
Við fórum til Uppsala snemma á föstudaginn. Vöknuðum klukkan 6 til að geta verið komnar sem fyrst því í Uppsala var mikilvægur dagur, Valborgsafton. Þá tjúllast Uppsalabúar hreinlega. Haga sér sæmilega snemma um morguninn en byrja snemma að djamma og djúsa. Um morguninn tók Arna á móti okkur og lét okkur labba niður í bæ til að horfa á bátakeppnina þar sem Snævar og Karvel voru að keppa. Þeir voru nú reyndar númer 81 af 82 keppendum en það var ágætt því þá höfðum við ástæðu til að sitja í sólinni og slappa af og njóta allra fínu bátanna. Bara til að leiðrétta misskilninginn (sem ég hafði allavega áður en ég mætti) þá voru þetta ekki bátar í skilningnum bátar heldur farartæki úr korki og nokkrum spýtum sem gat flotið á ánni. Okkar menn voru flottastir að okkar mati, voru hrafnar sem flutu á hreiðri og voru með stóran hníf um borð sem á stóð “Tungur knivur” en það þekkja flestir Svíar úr myndinni “Hrafninn flýgur” sem þeir neyðast til að horfa á í grunnskóla. Strákarnir okkar unnu þó ekki, líklega samsæri í gangi.

Eftir siglinguna miklu sem samanstendur af siglingu niður tvo fossa (Íslandsfossinn meðal annars) fórum við öll (Snævar, Karvel, Sigrún, Arna, Auður og ég) í picknic á grasflöt í bakgarði vinnufélaga Örnu þar sem við borðuðum síld, kartöflusalat og tunnbröd. Allt frekar öðruvísi matur fyrir mig. Ég þorði því ekki öðru en að kaupa líka snakkpoka svo ég væri viss um að hafa eitthvað gott að borða. Það sem var boðið upp á reyndist hins vegar mjög gott.

Svo var rölt niður í bæ til að fara inn á einhvern stað (nation) til að drekka og láta öllum illum látum. Við vorum bara með þeim prúðustu þarna skal ég segja ykkur. Í fyrsta lagi var hrikalega margt fólk í bænum og líka inn á þessum stað (sem var reyndar bæði úti og inni) og svo var fólkið spreyjandi kampavíni út um allt, á alla. Það var engin leið að kaupa sér bjór og reyna að koma honum út heilum á húfi. Eftir að hafa gert þau mistök einu sinni stóð ég við barinn og drakk svo hratt úr glasinu að mér varð bumbult. Sigrún var búin að segja okkur að mæta í frekar ófínum fötum og var þetta ástæðan. Allt lyktaði og var klístrað þegar við komum til Örnu og Karvels eftir kampavín, bjór og cíter. Hárið var stíft af sykurdrullu. Sturta var því hánauðsynleg áður en við fórum í partý til Þóru og Hákons. Eftir partýið fórum við á sama stað of fyrr um daginn og dönsuðum fram á nótt, eða þar til flestir voru uppgefnir.

Á laugardeginum var maður eins hress og á virkum degi enda sveitaloftið endurnærandi. Við mælum sko eindregið með að vera á Valborgsafton í Uppsala, þvílík skemmtun og gott veður. Fólkið er einnig voða vinalegt, býður gistingu með morgunmat og býður manni í partý.

Þið getið séð myndir frá Snævari og myndir frá Þóru.