Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar





























































This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, febrúar 18, 2005
 
Á miðvikudaginn fórum við Emelía á skíði. Við fórum í skíðabrekku hverfisins okkar, Hammarbybacken sem er bara hin álitlegasta, lengri en borgarbrekkan og styttri en gilið (í bláfjölllum). Ég vildi auðvita prófa nýju skíðin sem ég fékk í jólagjöf og þau reyndust stórvel. Emelía þurfti að leigja sér skíði og þar var sami fasisminn og venjulega: maður varð að skilja eftir ökuskírteinið sitt til að geta leigt skíði og maður VARÐ að kaupa hulstur undir lyftukortið sem maður hafði síðan á handleggnum. Fífl. En við skemmtum okkur stórvel í "fríska" loftinu og kuldanum og létum nöldursegginn sem lenti af einhverjum ástæðum ítrekað á eftir okkur í lyfturöðinn ekkert fara mikið í taugarnar á okkur.

Í kvöld er síðan fundur í bókaklúbbnum mínum. Við ætlum að tala um Dr. Glas eftir Hjalmar Söderberg (borið fram jelmar Söderberj) sem fjallar um hvort rétt sé að drepa menn fyrir góðan málstað. Nokkuð góð bók.


þriðjudagur, febrúar 15, 2005
 
Hérna er texti sem átti að birtast með myndunum sem Auður bloggaði á föstudaginn. Þetta er ferðasaga mömmu og pabba í Stokkhólmi séð frá augum pabba. Að sjálfsögðu vorum við ekki að reyna að leika á hlutaðeigendur vegna margra skota á okkur Auði í eftirfarndi texta, erum einfaldlega gleymnar.
Eitt vil ég þó sérstaklega benda á og það er hvernig orðið "sá" er beygt í íslensku tölvuorðabókinni minni sem ég fékk í afmælisgjöf frá Aujunni minni seinasta sumar. Þar stendur að að beygingin sé eftirfarandi: Sá - þann - þeim - þess. Og hananú. Þetta er nákvæmlega sama beyging og við Auður héldum fram enda erum við framúrskarandi í beygingu á íslenskum orðum. Við erum einnig sammála um að eigi að segja "þeim var hrint" (eins og í "honum var hrint") en ekki "sá var hrint". Það er afar ólíklegt að þessi frábæra setning mín sé tilkomin vegna áhrifa frá barnamáli þar sem börn geta örugglega ekki beygt þetta orð "sá" og nota það sjaldan. Auk þess er notkun orðsins "sá" gamaldags og því frekar um öldungamál að ræða. "Það var hrint mér" er síðan allt annar handleggur sem ég ætla ekki að fara út í og er næstum því móðguð yfir því að vera bendluð við þessa hræðilegu íslensku. Hins vegar vil ég að lokum benda þessum manni í Orðabók Háskólans að finna sér nýja vinnu, okkur finnst hann frekar vanhæfur.
En allavega, þið skiljið betur þessa athugasemd þegar neðar dregur. Góða skemmtun.


Neyðarhjálp úr vestri
Það er þekkt staðreynd að mæður hafa áhyggjur af börnum sínum, sama á hvað aldri þau eru. Það er ekki heldur leyndarmál að mín kona Hulda hefur áhyggjur af því að Svíar fari illa með dóttur okkar Emelíu litlu.
Þegar mér barst af því njósn að fyrirhugaður væri fundur hjá mér í Stokkhólmi þriðjudaginn og miðvikudaginn 18. og 19. janúar var ég fljótur að panta far fyrir Huldu fimmtudaginn 20. janúar með það í huga að við kæmum heim sunnudaginn 23. janúar.
Heldur brá mér er fundurinn var tekinn af dagskrá, en svo kom í ljós að hann hefði verið færður til mánudagsins 24. janúar og allt komst í lag á ný.

Rauði krossinn tekur við sér
Tekið var til við undirbúning og keypt í matinn fyrir stelpurnar svo sem velfeitt og fitusprengt hrossakjöt, lakkrís, Rauðan Opal og harðfisk. Einnig barst okkur njósn af því að áhugi væri hinu meginn við álinn að við tækjum með oss SS Clinton pulsur, hamborgarasósu, Hraun og skyr. Einungis vantaði merki Rauða krossins á töskuna.

Ja rýr er unginn
Við lögðum því af stað eldsnemma á fimmtudagsmorgni með þungar ferðatöskur og komum á T-Centralen í miðborg Svíþjóðar um hádegisbil.
Þar stóð tjéð Emelía litla og beið foreldra sinna með sting í maga. Það urðu miklir fagnaðarfundir, en heldur fannst mömmunni Emelía litla rýr.

Svikinn og prettaður
Ekki var staldrað lengi við, töskunum komið í geymslu á jarnbrautarstöðinni og lagt af stað í bæinn.
Kíkt var í margar búðir og smávegis keypt. Sumir urðu strax svangir og við fórum á McDonalds svo ég gæti satt mesta hungrið. Auður var að vinna, en kom brátt. Enn var ráfað um miðborgina, en svo var lagt af stað heim á leið á Thunbergsgatan 9. Keypti ávexti á leiðinni og er enn að bölva ávaxtasalanum sem plataði mig til að borga SEK 95 fyrir örfá hindber. Lærði þó helling af þeim viðskiptum. Einnig komum við við í sælgætisverslunum og birgðum okkur upp fyrir helgina. Reyndar endtist sælgætið ekki nema eina kvöldstund og þá birgðum við okkur upp aftur og aftur. Kvöldinu var eytt í rólegheitum og stelpurnar bökuðu frábæra pizzu og auðvitað var spilaður Kani.
Einnig var sérlagað kaffi og dreypt á rauðvíni. Viðgjörningurinn hefði ekki verið betri þó við hefðum verið á hóteli.

Varúlfur í kjallaranum
Stelpurnar virðast hafa það mjög gott í náminu og eiga greinilega þolinmóða vinnuveitendur, því yfirleitt áttu þær nógan tíma fyrir okkur. Auður sem fór þó að vinna á föstudagsmorguninn. Vel fór um okkur í sófanum í stofunni, reyndar svo vel að Huldu dreymdi að hún hefði hitt föður sinn og þrjá bræður, en hún á einungis tvo bræður, svo sá þriðji var glænýr. Við Hulda og Emelía litla fórum að skoða Ráðhúsið, sem er ótrúlega margbrotin bygging. Einnig var ráfað um bæinn og Auður hitti oss í bænum eftir að vinnu hennar lauk. Sumir voru svangir öðru hverju og ég fékk bita hér og þar. Í einu af þeirra frægu dagblöðum sáum við auglýsta bluestónleika á Wirström kránni og þangað fórum við eftir að hafa fengið súpu og brauð á Thunbergsvegi 9.
Vissulega var hljómsveitin ágæt og ekki skemmdi fyrir litríkur söngvari, en hann spilaði einnig á munnhörpu. Öðru hverju rak hann upp ýlfur og gól eins og varúlfur. Var mér orðið um og ó að leitaði að útgönguleið fyrir mig og mína ef söngvarinn umbreyttist á staðnum í varúlf. Þess var þó ekki þörf. Hljómsveitin heitir Little Walter Blues Band, en Little Walter var í hjólastól og því eðlilegt að hann sé lítill. Kráin var útbúin mörgum litlum afkimum í mörgum kjöllurum og tók hvert herbergi einungis örfáar manneskjur.
Enn var lúrt frameftir morgni á laugardegi, en kíkt í verslunarmiðstöð við Globen/Söderstadion heimavöll Hammarby. Íslenska landsliðið spilaði marga leiki í Globen á EM í handbolta 2002 og þar sá ég marga leiki. Grunaði ekki þá að Emelía litla myndi búa skammt frá síðar. Þar kypti ég frábæra gervigrasknattspyrnuskó, mjög mjúka og létta enda hef ég þegar skorað fjölda marka með þeim.

Fjárfesting dauðans
Eftir að hafa skilað af sér varningnum úr verslunarmiðstöðinni í Globen var farið í bæinn og fórum við að skoða búð sem sérhæfir sig í einkennilegum og sérstökum uppfinningum. Margar uppfinninganna voru áhugaverðar, en nokkuð dýrar. Í annarri búð skammt frá sá Emelía mjög handhæg plastbox í öllum stærðum og gerðum. Fannst henni þjóðráð að fjárfesta í nokkrum boxum, þó svo að hrifning Auðar hafi varla farið yfir frostmark. ”Það er hægt að loka boxunum á öllum hliðum”, segir Emelía, en Auður rifjaði upp svipuð boxkaup á árum fyrr, sem reyndust ekki vel.

Auður nær sér á strik
Einhver stakk upp á því að fara á O’Leary’s krána og horfa á knattspyrnuleik (minnir að það hafi verið Auður). Svo heppilega vildi til að ég mundi að það átti að sýna leik Manchester United og Aston Villa. Stelpurnar pöntuðu borð með sjónvarpi og þar áttum við frábæra stund við snæðing á góðum mat og horfðum á 3-1 sigur Manchester United.
Eftir þennan frábæra gjörning var farið heim að spila Kana, en fyrst komum við við í matvöruverslun að kaupa ís og ávexti. Þetta var síðasta kvöld Huldu og því var hver stund nýtt og vel gert í mat og drykk.

Tár falla á glerharðan stein
Á sunnudeginum var vaknað kl. 9.00 og Hulda dreif sig út á flugvöll. Stelpurnar hafa þann skemmtilega sið að fylgja gestum að strætisvagnastöðinni á T-Centralnum og kveðja þar, en stundum skilst manni að þær reki ferðaskrifstofu í Stokkhólmi. Mörg tár hafa fallið þar á glerharðan stein. Ég fylgdi Huldu alla leið á flugvöllinn og ráfaði svo um bæinn um stund áður en ég fór heim til Auðar og Emelíu. Þær notuðu tækifærið, bökuðu vöfflur og við spiluðum Sequence og fengum oss mjög góðar pizzur, sem fást í nágrenninu. Mín var með kebab, vel krydduð.

Sá var hrint!
Um kvöldið hörfðum við á Svía leika á HM í handbolta í Túnis. Stundum gekk töluvert á og eitt skipti er einum Svíanna var hrint hrópaði Íþróttaálfurinn ”Sá var hrint”. Íslenskuálfurinn hafði sitthvað við það að athuga og sagði Sá vera ábendingafornafn og það ætti nota sá í þágufalli, sumsé ”Þeim var hrint”, þó svo að um einstakling væri að ræða. Umræður urðu fjörugar og Íslandsálfurinn blandaði sér í umræðurnar, sem lognuðust útaf er engin fékkst niðurstaðan. Er heim var komið hringdi Íslandsálfurinn í Orðabók Háskólans og þar sagði þolinmóður starfsmaður að hann mundi ekki nota ábendingafornafn heldur persónufornafn og setningin ætti að vera ”Honum var hrint”. Hann taldi að hugsanlega væri um áhrif úr barnamáli að ræða, en börn ættu það til að segja ”það var hrint mér”.

”Gamli” bakaður í keilu
Á mánudeginum fór ég á fundinn og þegar honum var lokið fórum við Auður og Emelía í keilu. Mér fannst eins og það væri skipulagt atriði, því Emelía notaði tækifærið og valtaði yfir gestinn, sjálfan pabba sinn. Auður lék góðu lögguna og var það sárabót. Einnig fengum við okkur kínverskan mat, en kínverski maturinn var grunsamlega vestrænn. Til dæmis var hægt að fá Bernaise sósu með öllum mat á kínverska staðnum.

”Fínari” kápa
Íþróttaálfurinn fór á kostum er hann sagði að kápa sem hún sá á konu væri ”fínari” en aðrar kápur og Íslenskuálfurinn var fljótur að grípa tækifærið og benda á að það ætti að segja ”fínni kápa”. Á kannski að segja ”meirari” líka?
Enn voru þær stúlkurnar í góðum gír daginn eftir og fylgu gamla manninum á T-Centralinn.
Það tekur fljótar af fyrir nútíma Íslending að fara milli Íslands og Skandinavíuskagans, en þegar víkingarnir voru upp á sitt besta og brátt var ferðalangurinn kominn heim til sín.
Á síðasta degi snjóaði, en snjókornin virðast jafn óákveðin og Svíar, því þau virtust ýmist fara upp eða niður og í endalausa hringi án takmarks.

Viljum við hjónin nota tækifærið og þakka kærlega fyrir frábærar móttökur og við förum ábyggilega aftur að heimsækja þær.


mánudagur, febrúar 14, 2005
 
Er í mjög vondu skapi, mest útaf þessum heimsku degi sem verið er að reyna að troða inn á mann. Ef að maður er ekki nógu klár að fatta að maður á að vera góður við kærustuna sína amk einu sinni á ári án þess að kaupmannasamtökin segi manni það, ætti maður að velta alvarlega fyrir sér af hverju maður er með henni. Djö....

Um helgina var ársfundur í billjardfélaginu okkar og félagskeppni (heitir það ekki það). Emelía var svo duglega að hún var Rookie of the year, fékk rosa fína viðurkenningu og allt. Hún vann eitthvað böns af leikjum en skemmtilegast fannst okkur þó að hún vann kennarann okkar úr mánudagstímunum. Ég vann hana einu sinni alveg óvart og hún varð alveg brjáluð og síðan þá er það markmið hjá Íslandsdeild klúbbsins að vinna hana. Hún er reyndar miklu betri en við en samt....
Á meðan þeir allra bestu kláruðu að spila sína leiki skruppum við Emelía í svona fyrir-umbreytingu-innflutningspartý þar sem vinnufégar mínir sem eru nýflutt í miðbæinn sýndu nýju íbúðina áður en þau byrja að mála og brjóta og breyta. Síðan verður svona eftir-umbreytingu innflutningspartý síðar og þá á maður að koma og segja hvað þau voru dugleg og hvað allt er miklu fínna núna hjá þeim. Við vorum þarna í ca. klst. og fórum svo aftur á poolstaðin og borðuðum góðan mat. Síðan var smá spjall og svo bara heim að sofa.

Í gær smökkuðum við rosa gott kampavín sem var sérstaklega keypt sem prufuflaska fyrir brúðkaupið. Það var alveg svakalega gott, af kampavíni að vera en því miður dálítið dýrt. Það var svona ekki of sætt og ekki of þurrt. Ef þið vitið um eitthvað gott en ekki rosa dýrt kampavín megiði endilega láta okkur vita.


föstudagur, febrúar 11, 2005
 
Og loks myndir frá því að mamma og pabbi Emelíu voru í heimsókn (allar frá Eiríki)


 
Og fleiri myndir, her frá jólaglöggi íslendingafélagsins.


 
Nýjar myndir komnar á netið. Þær eru úr afmælisveislu Yvonne sem er kærasta poolkennarans okkar. Gjörsovel.


þriðjudagur, febrúar 08, 2005
 
Soldið ótrúlegt en alveg satt; ég fór á djasstónleika í gær. Málið var að Helena vinnufélagi minn og systir hennar ákváðu að fara að hlusta á vin systurinnar spila á knæpu. Systirin kom meira að segja alla leiðina frá Gautaborg til að hlusta á vininn og þetta er víst bara vinur því hann er fertugur, giftur og á börn (eins og það séu rök!). Ég lýsti yfir áhuga mínum á djassi, þ.e. áhuga mínum í tengslum við að Auður fílar djass rosalega og okkur var boðið með.
Við ákváðum að hittast á staðnum sem við vissum fyrir að átti að vera lítill en við gerðum okkur ekki almennilega grein fyrir því fyrr en við komum þangað. Staðurinn hýsti nú alveg 40 manns sitjandi en það var einungis vegna þess að borðin voru svo ótrúlega þétt saman. Auk þess stóð slatti af fólki sem virtist einungis vera á staðnum vegna djassins. Við náuðum að næla okkur í borð þegar einhver sem betur fer fór. Borð er kannski ofsögum sagt. Við fengum einn stól en svo var hægt að troða þremur afar grönnum persónum á bekk við hliðina. Þetta passaði því fullkomlega fyrir okkur fjórar; ég sat á stólnum góða en hinar á bekknum (enda komu Helena og systirin á eftir okkur).
Eigandi staðarins (Glenn Miller Café) krefst þess að hver og einn panti sér minnst eitthvað að drekka til að fá að vera á staðnum, enda um krá/veitingarstað að ræða. Ég nískupúkinn hefði nú samt ábyggilega sleppt því ef ekki um ákvæði væri að ræða.
Aðrar reglur fylgdu síðan djasshlustuninni. Hljómsveitin spilar þrjú lög í hverju setti og tekur sér síðan pásu á milli. Eftir hvert sett þarf hver hlustandi að borga minnst 20 SEK og gengur eigandinn um með bakka til að safna peningunum. Það má skipta ef maður er með stóra seðla!
Þetta var sem sagt alveg ágætis kvöld. Við hlustuðum á tvö sett og vinur systurinnar kom tvisvar og spjallaði við okkur. Mér fannst það örlítið merkilegt því hann var sko í hljómsveitinni sem við vorum að hlusta á á almenningsstað.
Það er samt greinilegt að ég á margt ólært. Ég þarf að læra að hlusta á djass og skilja hann aðeins betur. Enn sem komið er finnst mér sem þetta sé allt of mikið út og suður og ekki nógu mikið grunnstef í gegnum lagið til að halda mér á brautinni. En ef ég þekki hana Auði mína þá mun hún reyna að hjálpa mér í gegnum þetta :)


mánudagur, febrúar 07, 2005
 
Á föstudaginn var jólapartý í vinnunni minni. Fyrir veisluna var prófessorinn minn (sem er nýlega orðinn yfirmaður stofnunarinnar næstu tvö árin) með upplýsingafund, þ.e. hvernig fjármál stofnunarinnar standa, við hverju megi búast á næstunni og svör við spurningum sem voru nýlega sendar til allra á stofnuninni. Upphaflega átti fundurinn að taka hálftíma. Eftir 50 mínútur var hann greinilega búinn að átta sig á því að hann var búinn að tala allt of lengi því hann hafði orð á því. Þrátt fyrir það lauk fundinum ekki fyrr en eftir einn og hálfan tíma. Vá hvað svona fundir geta verið þreytandi.

Ég skellti mér þá í nýju draktina mína og gékk niður stigann þar sem nánast allir voru. Mér leið alveg eins og þegar okkur mömmu og pabba var kennt að ganga eins og drottningin niður tröppur í ráðhúsinu. Draktin vakti þvílíka lukku enda hrikalega flott. Kvöldið var afar vel heppnað með tilheyrandi mat, leikjum, dans og drykkju og kom ég heim tæplega 5. Svíarnir mínir kunna sko að skemmta sér.

Á laugardeginum fórum við til Hrannar og Georgs og átum nánast allar nýbökuðu vatnsdeigsbollurnar þeirra. Ég var nú örlítið þunn en ákvað samt að éta eins mikið og ég gat því ekki væri von á þessum bollum aftur fyrr en eftir ár. Bollurnar voru líka alveg ofboðslega góðar.
Heimsóknin drógst svo á langin að tími var til að panta pizzu. Ef frá eru dregnar Pizza Hut pizzurnar þá eru pizzufyrirtækið þeirra Hrannar og Georgs með best útilátnu pizzur sem ég hef borðað í Stokkhólmi.

Við drifum okkur samt nógu snemma heim til að sjá Gaygalan beint í sjónvarpinu. Galan var mjög flott og skemmtileg og ákváðum við Auður því að fara einhvern tímann sjálfar. Það kostar samt eflaust nokkra þúsundkalla. Það er þá bara að byrja að safna.

Í gær hjóluðum við að Hammarbybacken sem er alveg ágætisskíðasvæði í Stokkhólmi í korters fjarlægð frá okkur. Hugmyndin var að fara á skíði á gær ef það væri einhver snjór. Það var rétt svo snjór akkúrat þar sem lyftan var en samt voru nú nokkrir á skíðum, aðallega þó fólk með hjálma sem benti til æfingar. Við hættum snarlega við þar sem við vildum nú ekki fórna nýju skíðunum hennar Auðar á hugsanlegum steinum í brekkunni. En fyrirhuguð er ferð hjá okkur um næstu helgi aðeins út fyrir Stokkhólm í skemmtilegum brekkum þar sem er ábyggilega allt fullt af snjó.


miðvikudagur, febrúar 02, 2005
 
Tilgangur þessa bloggs er að bæta upp hræðileg mistök sem urðu í fyrra. Þá átti Sigga vinkona afmæli 3. febrúar (eins og reyndar á hverju ári) en ég óskaði henni ekki til hamingju fyrr en 6 dögum síðar sem er náttúrulega algjörlega óásættanlegt. Sigga er ekki langrækin kona og fyrgaf mér því samstundis. Kannski væri samt þjóðráð að vera ekkert að minna hana á þetta :)
Allavega, innilega til hamingju elsku Sigga! Núna er bara eitt ár í stórveislu.

Fyrst ég er byrjuð að blogga þá ætla ég að nota tækifærið og monta mig og monta Auði. Í gær fengum við okkur nefnilega SS pylsur í brauði og með öllu tilheyrandi, þó ekki remúlaði því það var ekki til og er hvort eð er frekar vont hérna en í staðinn settum við íslenska hamborgarasósu, auðvitað Gunnars. Sum ykkar áætla kannski réttilega að Svíar hafi loksins vitkast örlítið og séu farnir að selja SS á götum borgarinnar. Það er hins vegar því miður einungis óskhyggja. Þetta voru nefnilega pylsur og hamborgarasósa sem við létum mömmu og pabba smygla til okkar um daginn. Afgangurinn nægði okkur í dag á morgun. Ummmmmmmm.


 
Á mánudaginn vorum við óskaplega fátækar. Fórum í búðina og keyptum fullt en svo var nánast enginn peningur inni á kortinu mínu og við þurftum að labba um alla búðina og skila dótinu. Reyndar hefðum við hugsanlega ekki þurft að gera það en af því að önnur okkar var Auður góða þá neyddumst við til þess. Þetta eitt og sér var svo sem ekki neitt stórmál heldur það að fyrir tæpum 4 vikum pantaði ég nýtt kreditkort fyrir Auði og það er ekki enn komið. PIN kóðinn fyrir kortið er löngu komið en sjálft kortið ekki. Það sem verra er að þegar maður hefur pantað nýtt kreditkort þá fellur hið gamla úr gildi og getur maður ekki notað það þar til maður fær það nýja. Ef við værum ekki tvær, þ.e. ef Auður væri bara ein, hvað í ósköpunum ætti hún að gera í þessum tölvuheimi án korts í tæpar 4 vikur. Á hún að ganga um með peningabúnt á sér allan tímann? Það er náttúrulega hugmynd en þá hefði hún þurft að taka þvílíkt magn út fyrir tæpum 4 vikum því bankinn okkar er netbanki og því ekki með nema eitthvað eitt útibú í Stokkhólmi og erum við ekki vissar um að maður geti tekið út peninga þar.
Ég hringdi því í bankann áðan og komst þá að því að kortið á að koma á undan kóðanum og hefði því átt að koma fyrir 3 vikum. Auk þess komst ég að því að ég hafði pantað rangt kort, nefnilega kort sem einungis er hægt að taka út úr hraðbönkum með en ekki borga í búðum. Sem betur fer er bankinn okkar það frábær að það kostar ekki neitt að fá nýtt kort, maður borgar bara árgjald sem er undir 2000 ÍSL og getur fengið eins oft kreditkort og maður vill.