Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar





























































This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, janúar 31, 2006
 
Eins og Arna benti réttilega á í tjáningarkerfinu í gær þá er bolludagurinn 27. feb en ekki á mánudaginn næsta eins og ég hélt fram. Ég kíkti reyndar á eitthvert dagatal á netinu en ég tók greinlega ekki betur eftir en svo að það dagatal var fyrir 2005. Ég get því æft mig í 27 daga í viðbót (ef ég verð ekki upptekin við eitthvað annað) og miðað við tölfræðina þá ættu bollurnar að takast allavega þrisvar sinnum; ekki slæmt.
Annars er seinasti dagurinn í vinnunni og mun ég m.a. eyða honum á tveggja tíma fundi sem öll deildin mín verður á. Ég elska fundi (NOT!!!) og á þessum er farið í gegnum fjármagn deildarinnar og fleira áhugavert. Það ætti líklega að lyftast á manni brúnin við að hver og einn fær heila pizzu og kók í boði deildarinnar. Þessar pizzur eru hins vegar langt frá því að vera góðar og seinustu ár hefur kókið ekki verið Coca Cola heldur eitthvert sænskt Kola. Svíar eru með margar eigin vörutegundir sem þeir meta mikils, en að taka þetta Kola fram yfir alvöru kók er eins og að Íslendingar myndu hylla Bónus Kóla sem allir heilvita menn sjá að er alveg út í bláinn.
En svo ég breyti yfir í sænskan hugsunarhátt þá á maður að vera þakklátur fyrir það sem maður fær (en samt hefur maður rétt til að kvarta og kvarta og kvarta ef maður fær ekki nákvæmlega jafn mikið og næsti maður!).


mánudagur, janúar 30, 2006
 
Hérna getið þið séð línuritið yfir þær 5 stærðarmælingar sem gerðar hafa verið á Gússí (eða leginu öllu heldur).

Af því að bolludagurinn nálgast (er eftir nákvæmlega viku) og ég elska vatnsdeigsbollur þá datt mér í hug að þjófstarta aðeins. Ég byrjaði því mjög bjartsýn í gær að gera bollur því þær tókust svo fullkomlega í fyrra. Ég hugsaði lítið til þess þegar ég reyndi að baka vatnsdegisbollur 7 sinnum fyrir 3 árum en fékk einungis út vatnsdegisklatta í hvert einasta skipti. Mér til smá furðu (því ég var svo bjartsýn) og örlítilla vonbrigða fékk ég út klatta í þetta skiptið líka. Staðan er því 8:1 fyrir klöttum gegn bollum!!! Það er næsta víst (eins og Bjarni Fel myndi orða það) að ég mun prófa aftur næsta sunnudag því ég gefst ekki upp.


sunnudagur, janúar 29, 2006
 
Á okkar heimili hafa allir það glymrandi fínt. Seinustu vikur hafa verið soldið kaldar í Stokkhólmi enda janúar og febrúar köldustu mánuðirnir. Ég held að við höfum ekki gert neitt af okkur undanfarið sem hefur einmitt verið ástæða þess að við höfum ekki bloggað. Í gær drifum við okkur þó á Pizza Hut og í bíó. Sáum "Fun with Dick and Jane" með Jim Carrey og var hún alveg þokkalega fyndin á köflum, þið ættuð því ekki að sjá eftir þeim peningum.
Það eru bara 2 dagar í að ég verði heimavinnandi húsmóðir. Á bara eftir að vinna morgundaginn og þriðjudaginn og er svo bara komin með tuskuna í hendina. Ég verð að viðurkenna að ég hlakka nokkuð mikið til; ekki veitir af að þrífa aðeins heimilið og þvo öll fötin af Gússí. Þessi verkefni gætu enst mér í nokkra daga og ég hef ekki minnstu áhyggjur af að mér eigi eftir að leiðast.
Hérna er mynd af bumbunni 36 vikna.


föstudagur, janúar 20, 2006
 
Á föstudaginn fyrir viku var ég heima, var að reyna að ná úr mér horinu og slíminu úr hálsinum. Þetta kom sér afar vel því þá gat ég hringt í ömmu í Vorsabæ og óskað henni til hamingju með afmælið en hún varð áttræð. Amma hljómar alltaf svo hress og ekkert að heyra að aldurinn hái henni. Að sjálfsögðu sameinaðist stórfjölskyldan um kvöldið og borðaði saman. Fyrir valinu varð Hótel Örk og fór þetta víst allt saman friðsamlega fram. Við Auður komumst því miður ekki í afmælið en við fengum smá sárabót því pabbi sendi mér þessar myndir sem hann tók.
Núna eru bara 7 virkir dagar eftir í vinnunni. Ég hætti nefnilega að vinna í lok janúar og ætla þá bara að dúlla mér í "sumarfríi" þar til Gússí fæðist. Hrönn ætlar þá að hafa ofan af fyrir mér enda ekki mikið að gera hjá henni þar sem Eiríkur er svo þægur. Annars fórum við til Hrannar og Georgs á miðvikudaginn og borðuðum pizzu. Við fengum að sjá nýjustu trikkin hans Eiríks sem voru að skríða og toga í typpið á sér og gerði hann álíka mikið af hvoru.


þriðjudagur, janúar 17, 2006

fimmtudagur, janúar 12, 2006
 
Kæru lesendur!
Okkur hafa borist nokkrar kvartanir í gegnum tíðina að það sé ekki hægt að sjá símanúmerin okkar. Ég vil því taka það fram aftur að hérna til vinstri undir fyrirsögninni "Símanúmer" er hægt að finna öll símanúmerin okkar í Svíþjóð. Þetta eru ekki linkar og því ekki hægt að klikka á og opna. Ef maður færir hins vegar bendilinn yfir viðkomandi áhugaefni (t.d. "Auðar gsm") og hefur örlitla þolinmæði (u.þ.b. eina sekúndu) þá birtast upplýsingarnar.
Það sama gildir um það sem er undir "Niðurteljarar". Ef þið færið bendilinn yfir viðkomandi áhugaefni (t.d. "X dagar í Ósk") þá birtast upplýsingarnar "Ósk verður í heimsókn 31. maí - 5. júní". Niðurteljararnir eru sérstaklega hugsaðir fyrir alla gestina sem ætla að koma í heimsókn til okkar. Um leið og við vitum hvenær við eigum von á gestum þá munum við setja upplýsingar inn undir "Niðurteljarar" og þá geta aðrir gestir planað sínar ferðir hingað með það í huga. Auðvitað finnst okkur samt lang skemmtilegast að þið hringið í okkur ;)


miðvikudagur, janúar 11, 2006
 
Við erum báðar á lífi, komum heim frá Köben seinasta laugardagskvöld. Þá vorum við búnar að vera hjá Bigga, Hlín og Valtý í 2 vikur og 2 daga yfir jólin, áramótin og þrítugsafmælið hennar Hlínar. Við gerðum nú mest lítið allan tímann og slöppuðum því nokkuð vel á.
Aðfangadagssteikin (hamborgarhryggur), jóladagssteikin (hangiket) og gamlárssteikin (kalkúnn) voru alveg glymrandi góð. Það leynast því greinilega miklir kokkar meðal okkar (eða öllu heldur meðal Auðar, Bigga og Hlínar).
Við prófuðum í fyrsta skiptið “Friends spilið”. Að sjálfsögðu vorum við Auður nokkuð glöggar í spilinu enda höfum við horft fáránlega oft á alla Friends þættina. Við erum því til í að skora á hvern sem er sem á þetta spil. Annars var nú kaninn auðvitað soldið vinsæll.
Við fengum alveg rosalega fínar jólagjafir, heldur betur þess virði að drösla þeim öllum til Köben og til baka en til þess þurftum við samtals 3 ferðatöskur, stóran bakpoka og lítinn bakpoka! Takk, takk allir sem gáfu okkur jólagjöf og sendu okkur jólakort.
Á gamlárskvöld gátum við horft á áramótaskaupið beint í gegnum netið og fannst okkur öllum það alveg svona ágætis afþreying. Það er eiginlega nauðsynlegt að upplifa áramótaskaupið á þessu kvöldi, annars vantar eitthvað svo stóran hluta í kvöldið. Við Auður erum ekki skotglaðar og Hlín hefur heldur ekki svo gaman af flugeldum. Það var því bara fjórum flugeldum skotið af heimilinu og sá ég engan þeirra.
Við gellurnar fórum allar í klippingu fyrir afmælið hennar Hlínar og vorum auðvitað flottastar á svæðinu. Afmælið var mjög skemmtilegt og fólk barasta siðsamlegt þrátt fyrir ógrynni af áfengum jellóskotum, bollu og bjór. Við Auður, Sigga & Gilli og Freyr (bróðir Hlínar) gáfum Hlín brúnan leðurjakka sem hún hefur vælt um í marga mánuði. Jakkinn er eins og minn nema í öðrum lit og fer afmælisbarninu mjög vel. Núna hefur Hlín eitthvað til að hugga sig á nýja tugnum ;)
Annars er Aujan mín veik heima. Hún hefur líklega smitast af mér sem hef verið með kvef og eitthvað í hálsinum í rúmar tvær vikur en ég smitaðist af Bigga.
Gússí virðist hafa það gott. Stækkar alveg í takt við meðlkúrvuna og hefur þyngt mig um 11 kg.

Við setjum bráðlega inn myndir frá Köbenferðinni.