Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar





























































This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, apríl 27, 2009
 
Til hamingju kæru Íslendingar með niðurstöður kosninganna. Þetta verður afar spennandi kjörtímabil.

Núna ætla ég að segja ykkur sögu af týpískum Svía. Það er billjardvinkona okkar sem við Auður fórum í partý hjá á föstudeginum langa. Þegar við mættum heim til hennar (hún býr í blokk), rákum við augun í miða í anddyrinu sem á stóð að hún ætlaði að halda partý um kvöldið og ef einhver yrði fyrir óþægindum vegna þess þá væri viðkomandi velkomið að banka uppá eða hringja í hana og kvarta. Viðkomandi væri líka velkominn í partýið. Og á miðanum hékk poki með eyrnatöppum. Svíar eru soldið sniðugir. Ef maður tilkynnir restinni í húsinu af komandi partýi þá getur enginn agnúast út í mann, og vanalega bankar fólk nú ekki uppá og kvartar. En ef maður heldur partý og hefur ekki tilkynnt neinum, þá á maður von á að fá ljótar augngotur næstu daga á eftir. Þó er niðurstaðan fyrir nágrannana sú sama hvora leiðina sem maður fer.

Heiðrún og Maggi voru aftur í heimsókn hjá okkur seinasta mánudag og stoppuðu alltof stutt (tæpa 2 daga) en það er mjög skemmtilegt að fá heimsókn á 2ja vikna fresti. Takið ykkur þau til fyrirmyndar og skellið ykkur í heimsókn til Stokkhólms.

Maggý Nóa er svo meðfærileg og þægileg. Við vorum afar sáttar við hversu auðvelt var að svæfa hana áður en hún tók snuð, en núna er þetta algjört himnaríki. Þegar hún er þreytt þá tilkynnir hún okkur það með því að kvarta smá, þá legg ég hana í vögguna hennar, sting upp í hana snuðinu og fer fram. Litla hetjan okkar sofnar alveg sjálf á nokkrum mínútum án þess að mögla. Er hægt að hafa það betra!! Við erum fyrst núna að átta okkur á því hversu auðvelt það getur verið að eiga ungabörn, Anna Eir var nefnilega á hinum endanum á skalanum.

Í gær leigðum við okkur bíl og keyrðum upp í sveit. Íslendingafélagið hafði skipulagt picknic á sveitabæ hérna skammt frá og fengu krakkarnir að skoða kindur og kýr og skreppa á hestbak. Anna Eir skellti sér á bak og var ekkert smeyk.

Í morgun, þegar Anna Eir hafði lokið við morgunverðinn, kom hún til mín inn á bað og spurði hvort hún mætti fá eftirrétt (jógúrt). Ég leyfði henni það og þá spurði hún hvort grísinn (tuskudýrið hennar) mætti líka fá eftirrétt. Ég neitaði því hins vegar en þá spurði hún auðvitað af hverju grísinn mætti ekki fá eftirrétt. Ég sagði að það væri af því að grísinn væri ekki búinn að borða morgunmat. Hún rauk þá út af baðinu og heyrði ég hana dunda sér við matarborðið og spjalla soldið við grísinn þar til hún birtist aftur. ”Núna er grísinn búinn að borða morgunmat. Má hann núna fá eftirrétt?”. Það er auðvitað ekki hægt annað en að segja já þegar maður hefur svona krók á móti bragði en ég tók það sérstaklega fram að hún ætti ekki að opna jógúrdósina sem grísinn ætti, bara þá sem hún átti. Þegar ég kem svo fram þá eru báðar dósirnar opnar og ég bendi henni á það að ég hefði sagt henni að opna ekki jógúrtdós gríssins. ”Ég opnaði fyrir grísinn því hann gat ekki opnað sjálfur.” Aftur var ég tekin í bakaríið af 3ja ára barni. Og ég held að þetta verði ekki í seinasta skiptið.

Kíkið á nýjar myndir hérna.