Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
mánudagur, september 16, 2002
Húsmóðirin stóð sig vel í gær. Mín eldaði þriggja rétta máltíð fyrir afmælisbarnið: kjúkling, kartöflur og sósu!! Í eftirmat var stórgóður ís (úr Grillhörnan!!) og að sjálfsögðu súkkulaðisósa. Ég geri mér augljóslega enga grein fyrir því hversu mikinn ís maður borðar, ég keypti 1 líter (eins og frægt er orðið) en við torguðum ekki nema ¼. Þetta er ekkert svo mikið þegar maður huxar um það, en þegar jafnvel ¼ er skipt á tvo diska þá erum við samt að tala um þokkalega hrúgu. Í afmælisgjöf fékk Auður rosalega fallegan handmálaðan vasa frá ömmu í Sandvík (sem hún málaði sjálf) og fúlgu fjár til að kaupa blóm. Ég er reyndar ansi hrædd um að við þurfum að kaupa nokkra vasa í viðbót ef við eigum að kaupa blóm fyrir alla peningana. Frá mér fékk hún brjóstahaldara og naríur í stíl (mjög smart) og krús með hvítu ávaxtakaramellunum sem Auður tímdi ekki að kaupa sér á föstudaginn. Síðar mun ég setja inn myndir af afmælisbarninu í og með gjafirnar! Loksins lauk ég við að lesa “PYTHAGORAS’ TROUSERS God, Physics, and the Gender Wars” eftir Margaret Wertheim. Ég fékk þessa bók í útskrifargjöf frá föðursystkinum mínum þegar ég varð tvítug. Þetta er ábyggilega fjórða skiptið sem ég byrja á henni en nú var ég staðráðin í að klára hana, og sé alls ekki eftir því. Þetta er frekar áhugaverð bók þar sem farið er yfir 2500 ára sögu vísindanna, hvernig trúin og vísindin unnu saman og hvernig kynin unnu saman, eða öllu heldur hvernig kynin unnu ekki saman. Það er nefnilega sláandi að lesa um það hvernig konum hefur verið meinaður aðgangur að vísindum í gegnum aldirnar, það er varla að maður trúi þessu. Ég mæli með þessari bók en ég er ansi hrædd um að hún muni ekki hafa sömu áhrif á karla eins og konur. Nú er það ljóst að við fáum ekki sítengingu fyrir netið í gegnum stúdentasamtökin. Til að það sé mögulegt er nefnilega nauðsynlegt að þeir eigi húsið sem maður býr í, en það á ekki við okkur. Það verður því rándýrt fyrir okkur að vera á netinu. Og núna er loksins orðið sæmilega fínt hjá okkur. Ég tók alla kassana og setti þá í geymsluna, sumir fullir aðrir tómir. Við eigum engar hillur ennþá til að geyma draslið í svo það verður að bíða betri tíma. |