Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, október 12, 2002
 
Um kaffileytið í gær hittumst við Auður á Poolstofunni okkar, JoLo. Tókum 4 leiki og var jafnt, 2-2. Fórum þá í miðbæinn til að drepa tímann því það voru tæpir 2 tímar þar til við áttum að vera mættar á lestarstöðina hjá Hrönn og Georg, þau buðu okkur nefnilega í mat. Við fórum og keyptum vínflösku til að taka með okkur. Reyndar fórum við og tókum miða, það er nefnilega þetta biðraðakerfi í öllum ÁTVR hérna. Það voru 64 á undan okkur og fjórir afgreiðslumenn. Við röltum þá um í nokkuð stórum markaði sem var í kjallara hjá Hötorget (undir bíóinu og fullt af veitingastöðum). Þarna rakst ég á sölubás sem sérhæfði sig í furðulegum ávextum, ábyggilega 15 tegundir. Ég get að sjálfsögðu ekki nefnt einn einasta á nafn, en ég þarf að komast að þessu. Ég get varla einu sinni lýst þeim!
Keyptum okkur franskar og kók á McD og pantaði ég á sænsku (rosa erfitt!). Svo keypti ég blý, á sænsku. Maður verður einhvern tímann að byrja.

Hrönn beið okkar á lestarstöðinni, enda vissum við ekkert hvar þau áttu heima. Reyndar veit ég ekki enn hvert heimilisfangið þeirra er, en ég rata þangað. Þau eru með alveg risastóra íbúð, 55 fm. Eins furðulegt og það er, þá er þeirra íbúð einungis 10 fm stærri en okkar en lítur út fyrir að vera næstum því tvöfalt stærri. Ég var nú bara smá svekkt yfir því hvað okkar íbúð er eitthvað asnalega hönnuð, og ég sem er svo ánægð með hana. Þeirra íbúð er miklu gáfulegri. Það er t.d. ekki mjög gáfulegt að þegar maður er með eitt herbergi sem þjónar tilgangi sem svefnherbergi og stofa, þannig að maður býst þá við að einungis 1-2 geti búið þarna, að þá sé eldhús sem rúmar 12 manna fjölskyldu. Hver er tilgangurinn! Þeirra eldhús er lítið og nett og svo er eldhúsborðið í stofunni, sem ég fíla geðveikt. Svo er baðherbergið okkar stærra og gæti plássið líka verið sparað þar. Kannski ætti ég að reyna fyrir mér sem arkitekt! Þau eru með risastórt svefnherbergi. Og tölvan þeirra þjáist ekki af innilokunarkennd eins og okkar, tölvuherbergið er mjög stórt.
Þetta er sum sé skemmtileg íbúð. Ég læt teikningar af íbúðinni fylgja með síðar!!!
Já, og svo borga þau 10 þúsund ÍSL lægri leigu og eru við skólann sinn en við í 40 mín fjarlægð.
Ég er hins vegar enn ánægð með okkar, hún er lítil og sæt, og dýr og skítköld.

Allavega. Fengum þennan fína fiskrétt, ég var rosalega ánægð þar sem ég hef ekki fengið fisk síðan við komum hingað, og þetta var meira að segja íslenskur fiskur. Svo fengum við mjög góðan eftirrétt og hrikalega hollan, heitur réttur með rabbabara og haframjöli.

Þegar ég mætti á svæðið var mér soltið mál að pissa, ekkert merkilegt svo sem með það. Ég labbaði auðvitað beint inn á baðherbergið, leit við en sá enga hurð. Ég var nú það hissa að ég leit í kringum mig, eins og ég byggist við að finna hurð bak við klósettið eða eitthvað, veit ekki, maður er nú ekki alltaf að hugsa rökrétt. Leit aftur í dyrnar, ennþá engin hurð sjáanleg. Ég hugsaði með mér: “Jæja, það verður bara að hafa það. Þau eru greinilega bara mjög frjálsleg með sínar klósettvenjur, og ég veit að þau hafa oft fengið gesti, svo aðrir hafa örugglega pissað hérna fyrir opnum dyrum svo ég geri það bara líka”. Mig dauðlangaði nú að vita hvað gestirnir gera þegar þeir þurfa að gera eitthvað annað en pissa!
Þvottavélin þeirra er fyrir framan postulínið og skyggir því vel á útsýni stofugestanna inn á klósettið. Mér fannst þetta fín hönnun hjá þeim, það besta sem maður gat gert ef maður ætlaði ekki að hafa hurð, svona fyrir feimnu gestina allavega. Þrátt fyrir að vera búin að sannfæra mig um að þetta væri hið eðlilegasta mál, gat ég ekki pissað nema að halda fyrir eyrun og þannig útiloka að það væri virkilega fólk frammi sem gæti heyrt í mér. Ég vissi samt vel að þeim var alveg sama því þetta voru þeirra venjur! Jæja, þetta gékk vel.
Síðar, þegar ég sat í stofunni með fínt útsýni að baðherberginu, fór Auður að klóið. Hún labbaði að baðherbergið, tók í hurð sem var alveg upp við vegginn, fór inn á bað og lokaði að sér. Mér var starsýnt á þetta, alveg eins og hún hefði dregið fíl upp úr pípuhatti. Hvaðan kom þessi hurð eiginlega?
Ég held að málið sé að hurðin sé samlit veggnum (væruð þið til í að segja mér það, Hrönn og Georg) og svo sést ekkert í hana þegar maður hefur strunsað inn á baðherbergið í þungum þönkum (ábyggilega minesweeper) og snýr sér við.
Mikið var ég fegin, þegar ég sagði þeim frá nýju reynslunni minni af “þeirra” klósettvenjum, að þau væru ekki alveg svona skrítin að hafa ekki klósetthurð. En mér fannst þetta hins vegar hinn eðlislegasti hlutur at the time.