Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
laugardagur, október 12, 2002
Um kaffileytið í gær hittumst við Auður á Poolstofunni okkar, JoLo. Tókum 4 leiki og var jafnt, 2-2. Fórum þá í miðbæinn til að drepa tímann því það voru tæpir 2 tímar þar til við áttum að vera mættar á lestarstöðina hjá Hrönn og Georg, þau buðu okkur nefnilega í mat. Við fórum og keyptum vínflösku til að taka með okkur. Reyndar fórum við og tókum miða, það er nefnilega þetta biðraðakerfi í öllum ÁTVR hérna. Það voru 64 á undan okkur og fjórir afgreiðslumenn. Við röltum þá um í nokkuð stórum markaði sem var í kjallara hjá Hötorget (undir bíóinu og fullt af veitingastöðum). Þarna rakst ég á sölubás sem sérhæfði sig í furðulegum ávextum, ábyggilega 15 tegundir. Ég get að sjálfsögðu ekki nefnt einn einasta á nafn, en ég þarf að komast að þessu. Ég get varla einu sinni lýst þeim! Keyptum okkur franskar og kók á McD og pantaði ég á sænsku (rosa erfitt!). Svo keypti ég blý, á sænsku. Maður verður einhvern tímann að byrja. Hrönn beið okkar á lestarstöðinni, enda vissum við ekkert hvar þau áttu heima. Reyndar veit ég ekki enn hvert heimilisfangið þeirra er, en ég rata þangað. Þau eru með alveg risastóra íbúð, 55 fm. Eins furðulegt og það er, þá er þeirra íbúð einungis 10 fm stærri en okkar en lítur út fyrir að vera næstum því tvöfalt stærri. Ég var nú bara smá svekkt yfir því hvað okkar íbúð er eitthvað asnalega hönnuð, og ég sem er svo ánægð með hana. Þeirra íbúð er miklu gáfulegri. Það er t.d. ekki mjög gáfulegt að þegar maður er með eitt herbergi sem þjónar tilgangi sem svefnherbergi og stofa, þannig að maður býst þá við að einungis 1-2 geti búið þarna, að þá sé eldhús sem rúmar 12 manna fjölskyldu. Hver er tilgangurinn! Þeirra eldhús er lítið og nett og svo er eldhúsborðið í stofunni, sem ég fíla geðveikt. Svo er baðherbergið okkar stærra og gæti plássið líka verið sparað þar. Kannski ætti ég að reyna fyrir mér sem arkitekt! Þau eru með risastórt svefnherbergi. Og tölvan þeirra þjáist ekki af innilokunarkennd eins og okkar, tölvuherbergið er mjög stórt. Þetta er sum sé skemmtileg íbúð. Ég læt teikningar af íbúðinni fylgja með síðar!!! Já, og svo borga þau 10 þúsund ÍSL lægri leigu og eru við skólann sinn en við í 40 mín fjarlægð. Ég er hins vegar enn ánægð með okkar, hún er lítil og sæt, og dýr og skítköld. Allavega. Fengum þennan fína fiskrétt, ég var rosalega ánægð þar sem ég hef ekki fengið fisk síðan við komum hingað, og þetta var meira að segja íslenskur fiskur. Svo fengum við mjög góðan eftirrétt og hrikalega hollan, heitur réttur með rabbabara og haframjöli. Þegar ég mætti á svæðið var mér soltið mál að pissa, ekkert merkilegt svo sem með það. Ég labbaði auðvitað beint inn á baðherbergið, leit við en sá enga hurð. Ég var nú það hissa að ég leit í kringum mig, eins og ég byggist við að finna hurð bak við klósettið eða eitthvað, veit ekki, maður er nú ekki alltaf að hugsa rökrétt. Leit aftur í dyrnar, ennþá engin hurð sjáanleg. Ég hugsaði með mér: “Jæja, það verður bara að hafa það. Þau eru greinilega bara mjög frjálsleg með sínar klósettvenjur, og ég veit að þau hafa oft fengið gesti, svo aðrir hafa örugglega pissað hérna fyrir opnum dyrum svo ég geri það bara líka”. Mig dauðlangaði nú að vita hvað gestirnir gera þegar þeir þurfa að gera eitthvað annað en pissa! Þvottavélin þeirra er fyrir framan postulínið og skyggir því vel á útsýni stofugestanna inn á klósettið. Mér fannst þetta fín hönnun hjá þeim, það besta sem maður gat gert ef maður ætlaði ekki að hafa hurð, svona fyrir feimnu gestina allavega. Þrátt fyrir að vera búin að sannfæra mig um að þetta væri hið eðlilegasta mál, gat ég ekki pissað nema að halda fyrir eyrun og þannig útiloka að það væri virkilega fólk frammi sem gæti heyrt í mér. Ég vissi samt vel að þeim var alveg sama því þetta voru þeirra venjur! Jæja, þetta gékk vel. Síðar, þegar ég sat í stofunni með fínt útsýni að baðherberginu, fór Auður að klóið. Hún labbaði að baðherbergið, tók í hurð sem var alveg upp við vegginn, fór inn á bað og lokaði að sér. Mér var starsýnt á þetta, alveg eins og hún hefði dregið fíl upp úr pípuhatti. Hvaðan kom þessi hurð eiginlega? Ég held að málið sé að hurðin sé samlit veggnum (væruð þið til í að segja mér það, Hrönn og Georg) og svo sést ekkert í hana þegar maður hefur strunsað inn á baðherbergið í þungum þönkum (ábyggilega minesweeper) og snýr sér við. Mikið var ég fegin, þegar ég sagði þeim frá nýju reynslunni minni af “þeirra” klósettvenjum, að þau væru ekki alveg svona skrítin að hafa ekki klósetthurð. En mér fannst þetta hins vegar hinn eðlislegasti hlutur at the time. föstudagur, október 11, 2002
Minesweeper is out! Það er góð ástæða fyrir því að ég hef ekki gefið mér tíma í að fara í tölvuleiki í nokkur ár, ég verð stjörnuvitlaus. Ég er svo kappsöm, alltaf að reyna að bæta metin, mín og annarra. Eftir nokkra leiki (svona 30) í minesweeper á dag verkjar mig í löngutöng (er ábyggilega komin með liðagigt af elli!) og svo hugsa ég stöðugt um þennan leik, og það er sko ekkert grín. Allan helvítis daginn sé ég borðið fyrir mér með fullt af tölum og fullt af óopnuðum reitum og svo klikka ég á nokkra o.s.frv. Það er hrikalega pirrandi og þessvegna ætla ég að hætta að spila hann. Svona var það líka þegar ég spilaði Tetris fyrir mörgum árum, og þegar ég spilaði Packman fyrir enn fleiri árum. Mig langar samt í minesweeper núna! En af fenginni reynslu veit ég að ég sakna þess ekkert eftir nokkra daga, þetta er bara enn einn tölvuleikurinn og það er miklu skemmtilegra að gera eitthvað örlítið meira uppbyggjandi og gefandi. fimmtudagur, október 10, 2002
Nýtt met í minesweeper: 58. Núna er ég farin að prófa aðferðina hans Ögmundar (double klikkið, Líney), sem allir aðrir nota ábyggilega hvort eða er. Það er ekki eins skemmtilegt því maður þarf ekki að hugsa eins mikið, en gaman að því engu að síður. miðvikudagur, október 09, 2002
Glóðvolgt met í minesweeper: 70. Og fyrir þig, Sigga. Ég hringdi í Byddí í gær til að spyrjast fyrir um litla piltinn. Hann verður skírður eftir mánuð en þau hafa nefnt hann Árna Jökul, mér líst vel á það. Hann fæddist með dökkt hár og brún augu, alveg eins og Nonni er. Allt heila klabbið tók 4 tíma og fékk hún meira að segja far með sjúkrabíl. þriðjudagur, október 08, 2002
Pabbi minn á afmæli í dag, hann er 49 ára svo það styttist í stórafmæli. Litla prinsessan þín óskar þér innilega til hamingju með daginn. Auður er alveg hrikalega dugleg. Um helgina kláraði hún Harry Potter 3 á sænsku. Hún var búin að lesa nr. 3 tvisvar áður á ensku svo hún vissi út á hvað hún gékk, það hjálpaði smá. Auður er sko ædolið mitt. Nýt met í minesweeper: 72. sunnudagur, október 06, 2002
Afsakið að ég skrifaði ekki í gær eins og Auður lofaði, við horfðum á sjónvarpið og tókum tvær spólur svo það var enginn tími. Sáum “A beautiful mind” sem okkur finnst báðum mjög góð og stórskemmtileg, og “Liberty stands still” sem var allt í lagi, góð ádeila samt á frjálshyggjuvopnalög Bandaríkjanna. Í gær fórum við Auður í smá skoðunarferð. Fórum í 50 mínútna siglingarferð (með bátnum Prins Carl Philip, byggður 1901) frá Stadshusbron í miðbænum til Drottningholm. Í Drottningholm er nefnilega höll þar sem konungsfjölskyldan hefur haft aðsetur síðan 1981. Byrjuðum á því að skoða garðinn fyrir aftan höllina. Þvílík stærð á einum garði, hann var líka nokkuð flottur, allt gert út á samhverfuna. Mörg trjáanna eru frá 17. öld. Höllin var byggð frá 1662 af þáverandi drottningu (Hedvig Eleonora) og lítur rosaleg flott út að innan. Ég var strax heilluð af öllum marmaranum, gólf og allir veggir og handrið úr marmara. “Þvílíkt veldi sem hefur verið á konungsfjölskyldunni”, hugsaði ég. Svo fór örlítill glansi af þessu þegar nær var komið, þá er ekki einn einasti veggur eða handrið úr marmara, þetta eru allt úr við og allt saman handmálað. Fyrst fannst mér þetta vera algjört plat en svo óx virðingin upp úr öllu valdi, þvílík vinna sem hefur farið í að handmála þetta og svo er þetta svo hrikalega vel gert að það er ekki fyrr en maður er kominn alveg ofaní veggina sem maður sér að þetta er málað. Ég meina, veggirnir eru ábyggilega 6-8 metrar, það er alveg fullt af herbergjum og svo eru allavega 2 hæðir (einungis aðgangur að tveimur hæðum fyrir almenning), og allt er þetta handmálað. Þetta er náttúrulega bara geggjun. Ég spurði eina sem vinnur þarna út í þetta og hún sagði að í gamla daga hafi þeir haft gaman af að plata augað. Svo spurði ég aðra þarna hvort konungsfjölskyldan byggji í alvöru í höllinni því okkur Auði finnst nú sá hluti sem við fengum að skoða ekkert allt of vistlegur fyrir nútímafólk. Júbb, þau búa þarna á veturna, auðvitað í hluta sem er ekki til sýnis. Þar er blandað saman gömlum og nýjum stíl. Þau mega ekki breyta veggjunum neitt en mega hafa nýlega húsgögn. En á sumrin eru þau oft í annarri höll, eða öðrum höllum, þau hafa úr 10 höllum í Stokkhólmi að velja. Ókei, núna var konungsfjölskyldufýsn minni soltið svalað, búin að koma á stað sem þau búa virkilega á. Við vorum á rölti frá höllinni, á malarvegi sem liggur að (og frá!) höllinni, þegar grænleitur jeppi kom brunandi fyrir aftan okkur. Við glottum og sögðum: “Þarna kemur hún”, og áttum við Viktoríu krónprinsessu. En nei, þetta var ekki hún. Það ætlaði hins vegar að detta af okkur andlitið þegar við sáum að þetta var yngsta konungsbarnið, Madeleine prinsessa Svona til að fræða ykkur aðeins, þá er Madeleine prinsessa fædd 1982 í Drottningholm höll. |