Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
laugardagur, desember 28, 2002
Aðstandendur Jól2002.se þakka velgjörðarmönnum sínum á Íslandi fyrir þeirra framlag og óska þeim um leið gleðilegs nýs árs. Núna líður okkur vel. Við svindluðum á risafyrirtæki í dag, El Giganten (heitir Elko heima). Mér tókst nefnilega fyrir tveimur vikum að eyðileggja hrærivélina okkar, festi viskustykki snilldarlegi í tannhjólinu sem snéri skálinni og snérist hún ei meir. Þetta var svo hræðilega vanbúin vél, það var ekkert lok svo ég þurfti að nota viskustykki með fyrrgreindum afleiðingum. Ég held ávallt eftir kvittunum svo í gær og í dag bjuggum við til sögu um að við hefðum keypt hrærivélina handa okkur í jólagjöf og svo hefði hún nú bara ekki virkað þegar til kastanna kom. En því miður þurfum við ekkert að segja þegar við skiluðum vélinni. Og við fengum meira að segja peninginn til baka, afar skrítið. Keyptum áramótamatinn okkar (ætlum að hafa önd) og flugelda í leiðinni. Öll jólin hefur unglingahljómsveitin “Búdrýgindi” ómað úr græjunum okkar. Hákon gaf okkur Auði þennan disk og er hann alveg frábær, allir að drífa sig út núna og kaupa hann. Meðlimir Búdrýgindi eru úr Kópavogsskóla og unnu Músiktilraunir 2002. Halló allir tölvunördar. Okkur langar að vita hvar á að tússa CD-ROM sem eru með tölvuvörn, er það á röndinni? Aðfangadagur Hlín var enn alveg að farast yfir að fá ekki að opna pakkana og allir voru þokkalega spenntir yfir matnum. Biggi sá um steikina (reyktur, danskur hamborgarhryggur sem hjónin drösluðust með til okkar á bakinu), Hlín sá um brúnuðu kartöflurnar, Auður sá um sósuna og ég sá um eftirréttina. Ég varð auðvitað að gera möndlugrautinn hennar mömmu, hann heppnaðist þrælvel en ég gleymdi bæði möndlunni og möndlugjöfinni. Náði að redda mér með hnétu og íslensku nammi, Auður fékk svo möndluna. Borðuðum inni í stofu og var ofsalega fallega dúkað og rómantískt hjá okkur. Maturinn var hrikalega góður og borðuðu allir á sig gat og var ekki pláss fyrir eftirréttinn (súkkulaðimús) fyrr en þremur tímum síðar. Við vorum svo ofsalega íslensk, ætluðum fyrst að byrja að borða kl. 18 að staðartíma en seinkaði soldið og náðum messunni frá ruv.is í gegnum netið í lokin. Auðvitað var ekkert okkar að hlusta á þessa messu og slökktum mjög fljótlega en þetta er hefðin. Vegna alls umstangsins um daginn var Hlín hin rólegasta, hún steingleymdi pökkunum. Þetta var alveg eins og heima, einn (ég) sem las á einn pakka í einu og rétti viðkomandi. Við fengum fullt af nytsamlegum gjöfum. Það er greinilegt að fólk hefur verið að lesa kvartanirnar okkar á blogginu því við fengum fern vettlingapör, fern ullarsokkapör og hitateppi. Ætli ég telji bara ekki allt upp. Frá Hauki bróður fengum við Hagkaupsbækurnar eftir Jóa Fel (Brauðréttir og Kökubók), lampa frá mömmu og pabba, bækur frá Önnu Kristínu og Þorvarði, bók og flugdisk (CD-ROM “Á flugi yfir Íslandi”) frá Magga og Heiðrúnu, hitateppi frá Hlín og Bigga, jólaspilastokk frá Önnu Snædísi, ullarsokka og vettlinga frá ömmu og afa á Vorsó, bók og skeiðar og gaffla í settið hennar Auðar frá ömmu hennar í Sandvík, jólahandklæðasett og bókina “Land” frá ömmu Auðar í Hveró (sem býr samt á Selfossi núna), bók frá systkinum Auðar, og svo skrautepli og dagatal frá Ósk og Ingvari (með 13 myndum af Unni Maríu, nýju stelpunni þeirra). Allar gjafirnar eru rosalega flottar. Ég gaf Auði kápu og hún gaf mér gítar. Þetta er fyrsti gítarinn minn, jeiiii. Auður er rosalega klók kona. Þegar ég opnaði jólapakkann minn frá henni brá mér soldið því þar voru bara gömlu íþróttabuxurnar mínar og miði sem á stóð “Hoppaðu upp og lokaðu augunum”. Ég var enn svo hissa en dröslaðist á fætur og var þá allt í einu gítar fyrir framan mig. Hún hafði geymt gítarinn í rúma viku í geymslunni okkar og hafði meira að segja skipt um lás og allt og var því alltaf hin liðlegasta að stökkva og ná í eitthvað í geymslunni þegar þurfti, mér þótti það auðvitað ekkert grunsamlegt at the time en ég mun hafa vökul augu með stelpunni í framtíðinni. Kanaklúbburinn fékk svo jólaspilastokk frá Siggu og var sko spilað langt fram á nótt, ég vann ábyggilega!! fimmtudagur, desember 26, 2002
Allt hefur gengið gríðarlega vel hjá okkur fjórmenningunum. Við Auður náðum sem sagt í Bigga og Hlín á T-Centralen á sunnudaginn (22. des). Greyin þurftu að kaupa sér sitt hvort mánaðarkortið í lestirnar því það er bara hægt að fá líka eins daga, þriggja daga og svo stakar ferðir (svona svo þið vitið þegar þið komið til okkar) en þau ætla að vera í tvær vikur. Á mánudeginum var því ekki til umræðu annað en að nýta þetta kort. Skruppum í bæinn og versluðum nokkrar jólakúlur, jólaseríu og jólatré. Þetta eru nefnilega fyrstu jólin okkar Auðar þar sem við alveg einar og þar af leiðandi eigum við ekkert jóla-neitt. Við Hlín sendum Bigga og Auði heim með allt saman til að ég gæti keypt jólagjöfina handa Auði. Ég vissi vel hvað ég ætlaði að kaupa en vissi bara ekki í hvaða H&M búð það var. Það endaði auðvitað þá þannig að ég þurfti að fara í allar fimm búðirnar í miðbænum þar til ég fann réttu kápuna. Fyrst ég var nýbúin að fá útborgað keypti ég ilmvatn handa Auði og rosalega fína steikarpönnu, auðvitað líka handa Auði! Þar sem við áttum orðið gríðarlega flott tré og það var Þorláksmessa var okkur ekki til setunnar búið, við stelpurnar skreyttum tréð og höldum því fram að þetta sé flottasta jólatré í heimi. Reyndar þurftum við að bíða örlítið þar til við gátum byrjað þar sem jólaserían sem við keyptum var ekki með straumbreyti og við ekki með neinn lausan straumbreyti (en þó fjóra áfasta snúrum). Við nenntum nú ekki að dröslast í bæinn til að skipta seríunni (þó við höfum verið hundfúlar) því það tekur 30 mínútur hvora leið svo við röltum okkur í hið fína Fruängen Centrum og fundum miklu flottari seríu (og auðvitað miklu dýrari) sem var auk þess seinasta serían í öllu Centrum-inu. Tréð er tveir metrar í þvermál og tekur því heljarinnar pláss og ekki var það mikið fyrir, en það er einmitt á svona stundum sem manni verður hugsað til íslensku spakmælanna “þröngt mega sáttir sitja” og alls þess kjaftæðis. Að sjálfsögðu var tekið í spilin um kvöldið eins og það fyrra, það er regla Kanaklúbbsins að spila við öll tækifæri. |