Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
þriðjudagur, janúar 28, 2003
Ráðgáta Einhver er búinn að setja táfýlu í gammósíurnar mínar. Það var svo hrikaleg lykt af gammósíunum í gær að loftið í íbúðinni var nánast mettað og þar sem ég er sko ekki með táfýlu þá hlýtur hún að vera af einhverjum öðrum. Auður kannast ekki við að hafa “setja vonda lykt í gammósíurnar hennar Emelíu” fetish en ég ætla að vaka í nótt og sjá hvað hún gerist, kannski gerir hún þetta í svefni, hver veit. Vegna lyktarinnar fór ég auðvitað ekki í gammósíunum í vinnuna í dag sem leiddi til þess að ég fraus næstum því á lærunum þegar ég beið úti í 25 mínútur eftir strætó við IKEA. Veðurfregnir Stokkhólmur er búinn að vera að reyna að klæða sig í hvítt í allan dag, en það gengur frekar brösulega. Ég spái því samt að það verði örlítill snjór í fyrramálið. Annars horfðum við á veðurfréttirnar áðan. Hinir menntuðu veðurfræðingar spá um 10 gráðu kulda fimmtudag og föstudag. Ef tekið er mið af því hvernig veðrið var í desember í skítakuldanum þá ættu næstu dagar að verða fallegir. Peningaeyðsla Ég keypti loksins langþráða hrærivél (Krups) áðan og kostaði hún 1700 SEK svo hún hlýtur að duga oftar en hin, sem kostaði bara 500 SEK og “eyðilagðist” eftir aðra notkun. Þá er eins gott að ég baki minnst einu sinni í viku til að Auður sjái hversu góð fjárfesting þetta er, við höfum nefnilega ekki verið alveg nógu sammála um notagildi hrærivélar á okkar heimili, reyndar höfum við verið á öndverðum meiði. Á föstudaginn keypti ég mér alveg rosalega flottan trefil, marglitan. Tilgangur bæjarferðarinnar var reyndar líka að kaup trefil og húfu handa Auði en hún er augljóslega orðin svo fín með sig eftir að hún fékk kápuna að hún kaupir sko ekki hvað sem er. Á laugardaginn fórum við í kynvillingapartý. Stelpurnar tvær, sem við höfum oft spjallað við á djamminu, buðu okkur. Í heildina mættu 13 stelpur og einn strákur og einn klæðskiptingur eða kynskiptingur (hún/hann leit allavega frekar kvenlega út). Það var í fyrsta lagi fínt að fara eitthvert út og tala við einhverja og svo heyrðum við sænsku. Auður var rosalega dugleg að tala sænskuna, hún nýtir sér til hins ýtrasta saklaust fólk sem hún þekkir ekki. Kjöftuðum heilmikið við stelpu sem hafði unnið í Skeljungssjoppunni á Hellu ’96. Hún elskar að sjálfsögðu allt sem er íslenskt og saknar mest ástarpunga og flatkaka. Svo heppilega vill til að við eigum smá flatkökur og svo ætlum við að baka fleiri kleinur á morgun og munum við ábyggilega bjóða þessari nýju kunningjakonu okkar að smakka. |