Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, apríl 14, 2004
 
Arna er orðin svo spennt yfir flutningunum okkar að ég þori ekki annað en að skrifa nýja heimilisfangið stórum stöfum: SKÄRMARBRINK númer eitthvað, þriðja hæð, farið fram hjá dádýrinu (allavega var dádýr þarna fyrir utan húsið þegar við vorum að skoða íbúðina). Staðurinn er á grænu lestarlínunni, 4. stöð frá Slussen og því mun nær miðbænum en Fruängen. Og hérna er kort af tunnelbanalínunum í Stokkhólmi svo þið getið glöggvað ykkur betur á þessu öllu saman og komið í heimsókn. Ekki væri ég hissa þó að Arna muni birtast á tröppunum hjá okkur. Það er þó ólíklegt að hún verði fyrsti gesturinn því við erum búnar að pína Hrönn og Georg til að hjálpa okkur að flytja. Reyndar bauð Hrönn sig fram því henni þykir svo óskaplega gaman að flytja og þetta sagði hún sjálf. Já og svo bauð hún fram Georg.

Ég er ansi hrædd um að ömmur okkar komi ekki til með að muna nýja heimilisfangið (Frúarengi muna þær allar) og enginn mun geta borið þetta fram en það skiptir engu máli. Ég lofa að komast að húsnúmerinu bráðlega (kannski Auður viti það) því ég á að skrifa undir leigusamninginn í vikunni.

Allt er annars klappað og klárt varðandi þetta. Húsvörðurinn eða húseigandinn (allavega hæstráðandi) er búinn að fletta mér upp og kanna hvort ég sé glæpamaður því auðvitað vill hann ekki leyfa hverjum sem er að búa þarna. Við erum sem sagt að fara að leigja þessa íbúð í eitt ár af strák sem vinnur með Auði og þessi strákur er með leigusamning fyrir íbúðina en það virðist vera í góðu lagi að leigja áfram til einhvers (ekki glæpamanns þó) í eitt ár því hæstráðandi fær upplýsingar um leigendaskipti og gerður er samningur. Reglurnar segja að þetta sé í lagi í eitt ár en samt sé möguleiki á framlengingu.
Ég veit nú ekki hvort hæstráðandi hafi farið eftir öllum leikreglum, allavega hefur hann fengið upplýsingar um tekjurnar mínar einhvers staðar því hann nefndi við strákinn að ég hefði nú lágar tekjur en strákurinn benti honum á að ég væri á svokölluðu stipendium, sem má útleggjast “styrkur” á íslensku en ekki þannig styrkur að ég þurfi nokkurn tímann að borga hann til baka heldur í þeim skilningi að ég borga ekki skatt af honum og þá birtast engar upplýsingar um styrkinn á skattastkýrslunni minni. Hins vegar vann ég hérna í Háskólanum fyrstu 5 mánuði seinasta árs (byrjaði ekki sem doktorsnemi fyrr en seinasta júní) og borgaði því skatt í þá 5 mánuði og það birtist á skattaskýrslunni. Mig grunar sem sagt að þessi hæstráðandi hafi einhvern veginn fengið þær upplýsingar og fundist ég fá lág laun, þ.e. of lág laun til að geta borgað af íbúðinni. En sá misskilningur var leiðréttur. Og hvað veit hæstráðandi nema að ég sé bara það rík að ég þurfi ekki að vinna. Allavega fannst mér þetta óþarfa hnýsni og reyndar ótrúlegt ef þetta er löglegt.