Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, ágúst 27, 2004
 
Ég var búin að lofa að reyna að vera jákvæðari gagnvart Svíunum og hætta að kveina yfir þeim en ég verð að segja bara eina litla kaffistofusögu enn. Þannig var að konan sem er að hjálpa mér með allt frumulíffræðidótið sem ég kann ekkert í, tók strætó í gær í rigningunni. Hún var með regnhlíf og þurfti að hlaupa á eftir strætó þannig að hún var ekki búin að spenna regnhlífina fullkomlega niður þegar hún kom inn í strætóinn og af regnhlífinni skvettist einn dropi á handlegg bílstjórans og tveir á borðið hans. Hann hnussaði og var yfir sig hneykslaður og hún bað hann afsökunar og fór að leita að strætókortinu sínu. Við það hristist hálfniðurspennda regnhlífin og annar dropi lenti á bílstjóranum. Hann fussaði og sveiaði og sagði “Ursäkta kannske en gång men inte två gånger!” sem útleggst “Þetta var mögulega afsakanlegt einu sinni, en tvisvar!” Þessa sögu sagði hún á kaffistofunni og út frá því spunnust miklar umræður um geðvonda og geðgóða strætóbílstjóra. Úthverfamamman með fullkomnunaráráttuna sagði frá manni í úthverfinu sínu, Nacka-Tyresö, sem fékk strætisvagnabístjórarósina fyrir nokkrum mánuðum, en það eru verðlaun sem farþegar veita einstaklega geðprúðum bísltjórum. Þessi fékk verðlaunin fyrir það að hann er vanur að stjórna fjöldasöng með farþegunum á leiðinni, sem var eitthvað sem allir á kaffistofunni nema íslendingurinn, voru sammála um að væri alveg makalaust frábært og skemmtilegt. Það væri bara óskandi að það væru fleiri eins og þessi bílstjóri, fannst þeim.