Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, október 15, 2004
 
Svíar eru svo skondnir. Í metróinu í dag var lítil grein sem hét "Islänska sagor blev svensk historia". Þar er rætt um að uppáhalds tímabil Svía hafi alltaf verið víkingatímabilið en þar sem skortur hafi verið á heimildum hafi sagnfræðingar lengi notað íslensku sögurnar. Til gamans má geta að fyrsta sagan var þýdd yfir á sænsku árið 1664. Þegar heimildagagnrýni þróaðist í byrjun 1900 varð alltaf erfiðara og erfiðara að nota íslensku sögurnar sem heimildir fyrir víkingatímabilið þar sem margar af sögunum voru skrifaðar eftir víkingatímabilið.
Og hérna kemur soldið fyndið sem lýsir Svíunum mjög vel. Þegar einhver vísindamaður á 17. öld rýndi aftur í aldir með hjálp íslensku saganna fannst honum hann finna sönnun þess að sænska ríkið væri eitt það elsta og best skipulagða í heiminum.
Og það sem meira er. Lengi vel voru Svíar óviljugir að sætta sig við að ekki fyndist neitt sænskt sem mótsvaraði íslensku sögunum. Og auðvitað var því haldið fram að það hefðu í raun verið til sænskar sögur en að þær hefðu verið eyðilagðar.
Ha, ha, Svíar eiga svo bágt, þeir eru með svo mikla minnimáttarkennd oft.

Talandi um það. Við sáum leikinn á miðvikudaginn, Ísland-Svíþjóð, og er í raun dauðfegnar að Svíar unnu því aumingja þjóðarsál Svía þolir ekki að tapa því þeir eru mestir og bestir. Það halda reyndar Íslendingar líka en við töpum svo oft að þetta hefur ekki eins mikil áhrif á okkur.
Já, það var Auður sem stóð fyrir því að ég, Auður og Hrönn fórum á sportbar og horfðum á fótbolta, eitthvað sem ég bjóst aldrei við að Auður myndi láta hafa sig út í og hvað þá að hún stæði fyrir þessu. Þannig að þið sem eruð með henni í anti-sportistafélaginu ættuð að hugsa ykkur aðeins um varðandi áframhaldandi félagsskap því út hefur brotist þetta líka íþróttamonster.
Við mættum meira að segja svo snemma að við sáum Azerbajdan-England. Og auðvitað nýttum við tækifærið og mættum með íslenska fánann sem Einar gaf mér í sumar. Auður var búin að æsa alla Svíana í vinnunni sinni upp með því að segja að Svíar ættu sko eftir að liggja í því. Það var samt meira svona til að æsa þá upp en að hún héldi virkilega að við myndum vinna.
Það var eiginlega djöfullegt að þurfa að sitja undir fyrri hálfleiknum og sjá boltann rúlla hvað eftir annað inn í íslenska markið. Verst var að þurfa að hlusta á fagnaðarlætin í kringum okkur og finna síðan sænsk augu stara á okkur með gleðiglampa. Okkur fannst við fá algjöra hefnd þegar íslenskt mark kom í seinni hálfleik og fögnuðum ábyggilega jafn mikið og Svíarnir gerðu fyrir öll þeirra mörk. Leikar fóru því í raun 1-1, Svíar unnu fyrri hálfleik og Íslendingar seinni.
Það var líka gaman að á barnum komu nokkrir Íslengingar til okkar og kynntu sig, þeir sáu nefnilega íslenska fánann.

Leikslokin fóru svo illa í Auði að hún var veik heima í gær. Greyið mitt ætlar að reyna að fara í vinnuna á eftir til að setja af stað kristalla-screen. Og þar sem vinnufélagar Auðar fara út að borða á morgun í tilefni þess að einn útskrifaðist þá verður hún að sýna sig í vinnunni í dag; það er sko ekki hægt að vera veikur fimmtudag og föstudag og mæta svo í partý á laugardegi!! Auk þess er Auður löngu búin að borga sig inn í matinn.