Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, desember 29, 2004
 
Jæja, þá eru jólin búin. Við höfðum það alveg svakalega gott með fullt af íslensku nammi og jólamat. Það er enn til malt og appelsín, þökk sé skömmtunaráætlun Emelíu þannig að við getum haft íslensk áramót líka. Annars gengur allt mjög vel með Valtý, hann er alveg sáttur við nýja rúmið sitt og við að vera ekki heima hjá sér. Það er bara líklegt að hann verði eftir. Við fórum með hann í billjarð í gær. komum um leið og staðurinn opnaði klukkan 18 en okkur var hent út eftir einn og hálfan tíma þegar okkur var sagt af fúlli þjónustu að það væri "óviðeigandi" að vera með börn á poolstað eftir átta. Danirnir okkar voru náttúrulega yfir sig hissa á þessu, komandi frá landi ligeglaðsins þar sem ekki þykir tiltökumál að vera með börn á reyksvældum börum á kvöldinn. Við fórum nú samt heim til að æsa ekki upp Svíana.

Um áramótin ætlar Hlín að elda kalkún sem hún lofar að sé góður. Ég ætla að vinna í dag en reyna að vera í fríi á morgun svo við getum undirbúið gamlárs, því það gengur auðvita ekki án mín. Planið er líka að fara í Badminton en við sjáum til með það því Valtýr getur ekki alveg haldið á spaða ennþá.

Vinsælustu orðin þessi jólin eru: "white trash" "eins og á jólunum í gær"(meaning jólin fyrir tveimur árum þegar Biggi og hlín voru líka hjá okkur) og auðvita "KANI"


þriðjudagur, desember 21, 2004
 
Gestirnir okkar komu í gær, Hlín, Biggi og Valtýr. Valtýr er ekkert feiminn við okkur og alls ekki hræddur við að rusla til. Við sem tókum svo vel til áður en þau komu :) (ég veit að þau komast ekki á netið fyrr en þau eru komin heim til sín). Jólapakkaflóðið stækkaði heldur betur við komuna, líklega er nú flest til Valtýs.

Hérna eru nokkrar myndir, jafnvel nýlegar myndir: Heimsókn Kalla og Ögga, mamma og Þorvarður í heimsókn, sumarbústaðarferð á Sólvelli, Íslandsferð 04.-28.07.04.


fimmtudagur, desember 16, 2004
 
Þetta var í metróinu á þriðjudeginum í seinustu viku:
Amerísk rannsókn hefur sýnt fram á að auknar líkur séu á að konur sem taka megrunarpillur eða hormónið thyroxin á meðgöngu eignist samkynhneigð börn. Megrunarpillur eins og t.d. Dexedrin gera það að verkum að það verður 8 sinnum líklegra að barnið verði samkynhneigt. Skjaldkirtilshormónið thyroxin eykur hins vegar líkurnar einungis 5 falt. Efnin hafa mest áhrif á fóstrin fyrstu 3 mánuðina. Þessi efni geta haft áhrif á heilann og rannsóknin bendir til að þetta sé mikilvægur þáttur þegar kynhneigðin ákvarðast. Í rannsókninni hafa tekið þátt meira en 5000 amerískar og kanadískar mæður.

Greinin ein og sér er afar áhugaverð. Fyrir mér var þetta þó þónokkur léttir. Ég tek ekki og hef aldrei tekið inn megrunarpillur og sé svo sem ekki fram á að taka upp á því. Auk þess framleiði ég allt of lítið af skjaldkirtilshormóninu thyroxin og þarf því að taka það í töfluformi á hverjum einasta degi, líklega restina af lífinu.
Ef barnið mitt verður samkynhneigt mun ég stefna einhverjum!


Um helgina var litla Íslendingafélagið okkar með jólaglögg. Í þetta sinn mættu næstum því allir eða 9 manns og vorum við heima hjá Hrönn og Georg. Í matinn voru hamborgarar og eftir það var glögg, bæði áfengt og óáfengt, og heitt súkkulaði. Með voru góðu kanelsnúðarnir hans Georgs og keyptar piparkökur. Set myndirnar inn bráðum.

Setti nokkrar aðrar myndir inn hjá okkur: Emelía, Auður og Hrönn í Scrabble, Ýmislegt í Stokkhólmi ágúst-desember 2004 og Stokkhólmur í vetrarfötunum.


þriðjudagur, desember 07, 2004
 
Gestirnir okkar (Anna Kristín og Þorvarður) fóru á sunnudaginn. Það var alveg óskaplega gaman að fá þau, afslappandi að taka sér smá frí í vinnunni og svo gerðum við fullt skemmtilegt. Fórum í IKEA, sem ég flokka undir skemmtilegt. Ég held að Auður viti um fátt leiðinlegra. En í þetta sinn var hún næstum því til friðs því við vorum í mikilvægum erindagjörðum. Fengum nefnilega að velja okkur eitthvað í IKEA í jólagjöf frá Önnu og Þorvarði. Völdum okkur bókahillu sem er alveg eins og sú sem við áttum (til að matcha)en fengum auk þess grúví hluti með sem passa í hillurnar: bastkörfu og misstóra svarta og hvíta kassa. Núna er stofan okkar orðin soldið listamannalegri. Í leiðinni keyptum við barnarúm með þykkri og góðri dýnu. Einhverju verður hann Valtýr litli að sofa í um jólin. En þegar Valtýr er farinn verðum við líklega að eignast barn til að nota rúmið!
Um helgina fórum við í tangó, en ekki hvað. Fórum auðvitað með Önnu og Þorvarði, þau eru meira að segja í Tangófélagi Íslands. Má eiginlega segja að þau séu Tangófélag Íslands, allvega kemur pósturinn til félagsins heim til þeirra. Því er skemmst frá að segja að okkur Auði var boðið nokkrum sinnum upp. Auðvitað höfnuðum við þessum mönnum þar sem við höfðum aldrei dansað tangó áður en við létum okkur hafa það að dansa við einn hvor þar sem þeir sögðust ætla að kenna okkur. Þetta var alls ekkert svo hræðilegt en kannski langt í að við verðum jafn góðar og Anna og Þorvarður í tangó.

Er búin að setja inn fullt af myndum: frá heimsókninni til Mumma, Önnu og Benna í Stokkhólmi, heimsókn til Uppsala, Ísland og heimferð, og að lokum auðvitað mynd af Smégol í nýju bókahillunni.


miðvikudagur, desember 01, 2004
 
Ég var inn á heimasíðu Hagstofunnar áðan og sá þá möguleikann "Hve margir heita ...". Auðvitað fletti ég upp "Emelía" og fékk að 36 bera nafnið Emelía sem 1. eiginnafn og 9 sem 2. eiginnafn. Og af því að fólk skrifar nafnið mitt oft og iðulega rangt þá fletti ég líka upp "Emilía" og fékk þá að 205 bera nafnið Emilía sem 1. eiginnafn og 59 sem 2. eiginnafn. Sem sagt 264-45 fyrir Emilíu. En þetta vissi ég reyndar fyrir löngu, þ.e. að Emelíu útgáfan væri mun sjaldgæfari en Emilíu útgáfan og er það eina ástæðan fyrir því að ég fyrirgef fólki hvað eftir annað þessa prentvillu á nafninu mínu.
En það var svo sem ekki þetta per se sem var stóra málið heldur að þegar ég skrifaði "Emelía Guðrún" þá kom upp talan 0!!! Það er enginn sem ber tvínefnið "Emelía Guðrún". Ég veit vel að ég skráði lögheimili mitt út úr Íslandi fyrir tveimur árum en það kom mér samt á óvart að ég nafnið mitt kom ekki upp. Í fávisku minni bjóst ég líklega við því að finnast í Þjóðskrá að eilífu og kannski að það kæmi fram að ég væri búsett erlendis eða eitthvað. En í Þjóðskrá eru bara meðtaldir íbúar Íslands, allir íbúar Íslands, ekki þeir sem flýja land. Þeir sem flýja land eru ekki lengur partur af þjóðfélaginu eins og gefur að skilja og eru því ekki lengur á fólksskrá ekki frekar en eitthvert íþróttafélag hafi mann enn á skrá þegar maður segir sig úr því. Sem minnir mig á það að um hver jól fæ ég jólakort frá HK (Handknattleiksfélagi Kópavogs) því ég spilaði með því blak þegar ég var yngri en hef ekki borgað félagsgjöld í 10 ár enda ekki verið beðin um það. Mér hefur hins vegar ekki borist nein jólakort frá íslenska ríkinu eftir landsflutningana. 
Vegna Uppsalakúrsins vöknuðum við Auður klukkan 6:20 í morgun. Ég fer alltaf á fætur með Auði þó að ég gæti nú vel sofið í rúman klukkutíma í viðbót. Það er gaman að fara saman á fætur og það eykur líkurnar á að við verðum syfjaðar á sama tíma á kvöldin. Ég var óvenju þreytt í morgun og þegar ein í vinnunni hafði orð á því sagði ég stolt frá því að ég hefði vaknað klukkan 6:20 og að við vöknuðum alltaf fyrir 7 nú orðið því Auður væri í mánaðarkúrsi í Uppsala. Stelpan virtist vorkenna mér ofsalega en sagði svo að hún og kærastinn hennar vöknuðu alltaf klukkan hálf sex, eins og í 5:30!!! og hefðu gert það síðan í haust þegar þau fluttu aðeins út fyrir borgina. Þá skammaðist ég mín smá og hætti að væla.
Þegar ég vann í humri í Þorlákshöfn í gamla daga, þurfti maður alltaf að vera mættur klukkan 7 og því að vakna klukkan 6. Stöku sinnum mættum við 6 og vöknuðum því 5. Eftir þessa reynslu gat ég ekki séð að það væri nein ástæða fyrir mig í framtíðinni að vakna fyrir klukkan 7, sérstaklega ekki þegar maður verður orðinn fullorðinn því þá réði maður sko því sem maður gerði. En sumir hlutir breytast kannski aldrei.

Á mánudaginn var "Nýjasta tækni og vísindi" Svía í sjónvarpinu þar sem kynnirinn er öllu líflegri og skemmtilegri en okkar annars ágæti íslenski Richter. En það var ekki það merkilegasta. Auðvitað horfðum við einungis á þáttinn því það átti að fjalla um Ísland, vetnisframleiðslu og notkun á Íslandi. Og með aðalhlutverk fór prófessor Bragi Árnason sem kenndi okkur almenna efnafræði í Háskóla Íslands. Prófessor Bragi er alveg frábær náungi, léttur (andlega) og tekur sjálfan sig alveg rétt mátulega alvarlega. Bara karakterinn og útlitið er nóg til að veltast um að hlátri. En þetta er auðvitað eitt af þessum "you had to be there" dæmum.