Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
miðvikudagur, desember 01, 2004
Ég var inn á heimasíðu Hagstofunnar áðan og sá þá möguleikann "Hve margir heita ...". Auðvitað fletti ég upp "Emelía" og fékk að 36 bera nafnið Emelía sem 1. eiginnafn og 9 sem 2. eiginnafn. Og af því að fólk skrifar nafnið mitt oft og iðulega rangt þá fletti ég líka upp "Emilía" og fékk þá að 205 bera nafnið Emilía sem 1. eiginnafn og 59 sem 2. eiginnafn. Sem sagt 264-45 fyrir Emilíu. En þetta vissi ég reyndar fyrir löngu, þ.e. að Emelíu útgáfan væri mun sjaldgæfari en Emilíu útgáfan og er það eina ástæðan fyrir því að ég fyrirgef fólki hvað eftir annað þessa prentvillu á nafninu mínu. En það var svo sem ekki þetta per se sem var stóra málið heldur að þegar ég skrifaði "Emelía Guðrún" þá kom upp talan 0!!! Það er enginn sem ber tvínefnið "Emelía Guðrún". Ég veit vel að ég skráði lögheimili mitt út úr Íslandi fyrir tveimur árum en það kom mér samt á óvart að ég nafnið mitt kom ekki upp. Í fávisku minni bjóst ég líklega við því að finnast í Þjóðskrá að eilífu og kannski að það kæmi fram að ég væri búsett erlendis eða eitthvað. En í Þjóðskrá eru bara meðtaldir íbúar Íslands, allir íbúar Íslands, ekki þeir sem flýja land. Þeir sem flýja land eru ekki lengur partur af þjóðfélaginu eins og gefur að skilja og eru því ekki lengur á fólksskrá ekki frekar en eitthvert íþróttafélag hafi mann enn á skrá þegar maður segir sig úr því. Sem minnir mig á það að um hver jól fæ ég jólakort frá HK (Handknattleiksfélagi Kópavogs) því ég spilaði með því blak þegar ég var yngri en hef ekki borgað félagsgjöld í 10 ár enda ekki verið beðin um það. Mér hefur hins vegar ekki borist nein jólakort frá íslenska ríkinu eftir landsflutningana. Vegna Uppsalakúrsins vöknuðum við Auður klukkan 6:20 í morgun. Ég fer alltaf á fætur með Auði þó að ég gæti nú vel sofið í rúman klukkutíma í viðbót. Það er gaman að fara saman á fætur og það eykur líkurnar á að við verðum syfjaðar á sama tíma á kvöldin. Ég var óvenju þreytt í morgun og þegar ein í vinnunni hafði orð á því sagði ég stolt frá því að ég hefði vaknað klukkan 6:20 og að við vöknuðum alltaf fyrir 7 nú orðið því Auður væri í mánaðarkúrsi í Uppsala. Stelpan virtist vorkenna mér ofsalega en sagði svo að hún og kærastinn hennar vöknuðu alltaf klukkan hálf sex, eins og í 5:30!!! og hefðu gert það síðan í haust þegar þau fluttu aðeins út fyrir borgina. Þá skammaðist ég mín smá og hætti að væla. Þegar ég vann í humri í Þorlákshöfn í gamla daga, þurfti maður alltaf að vera mættur klukkan 7 og því að vakna klukkan 6. Stöku sinnum mættum við 6 og vöknuðum því 5. Eftir þessa reynslu gat ég ekki séð að það væri nein ástæða fyrir mig í framtíðinni að vakna fyrir klukkan 7, sérstaklega ekki þegar maður verður orðinn fullorðinn því þá réði maður sko því sem maður gerði. En sumir hlutir breytast kannski aldrei. Á mánudaginn var "Nýjasta tækni og vísindi" Svía í sjónvarpinu þar sem kynnirinn er öllu líflegri og skemmtilegri en okkar annars ágæti íslenski Richter. En það var ekki það merkilegasta. Auðvitað horfðum við einungis á þáttinn því það átti að fjalla um Ísland, vetnisframleiðslu og notkun á Íslandi. Og með aðalhlutverk fór prófessor Bragi Árnason sem kenndi okkur almenna efnafræði í Háskóla Íslands. Prófessor Bragi er alveg frábær náungi, léttur (andlega) og tekur sjálfan sig alveg rétt mátulega alvarlega. Bara karakterinn og útlitið er nóg til að veltast um að hlátri. En þetta er auðvitað eitt af þessum "you had to be there" dæmum. þriðjudagur, nóvember 30, 2004
Ég steig inn í furðuveröld í smá stund í gær. Skrapp sem sagt inn í búð til að kaupa löng skæri. Ég er svo búin að fá leið á litlu heimskulegu skærunum okkar fyrir löngu. Sérstaklega fer í taugarnar á mér að klippa eftir endilangri jólarúllunni með þeim, það tekur ógeðslega langan tíma og er illa klippt í þokkabót. Svo ef ykkur finnst jólapakkarnir ykkar vera ljótir þá er það skærunum að kenna. Allavega. Fann tvær tegundir af löngum skærum og var því alveg í skýjunum þangað til ég sá merkinguna "Fyrir örvhenta" (reyndar stóð það á sænsku en ekki á íslensku). Báðar tegundirnar voru sem sagt fyrir örvhenta en það voru engin skæri fyrir rétthenta og ekki einu sinni fordómalaus skæri sem bæði örvhentir og rétthentir geta notað. Hvernig ætli örvhentum líði í þessu rétthenta samfélagi? Margt er einungis framleitt fyrir rétthenta eða allavega í þvílíku yfirmagni að það er oft ábyggilega engin leið að finna örvhenta dótið. En ekki í þessari búð, ó nei. Frábær búð! Núna er einum gátunum færra. Í mörg ár hefur mig langað að vita hvað er inní risasúkkulaðistykkjunum sem maður getur oft unnið á tombólum. Er risastór útgáfa af súkkulaðinu inní sem þýðir að það tekur mann hálfan dag að borða einn súkkulaðitening? Nei, nefnilega ekki. Ein sem vinnur með mér vann einmitt á tombólu risa Marabou súkkulaði og inní voru 40 lítil súkkulaðistykki innpökkuð. Djöfull líður mér vel að vita þetta. mánudagur, nóvember 29, 2004
Þá eru ekki mjög margar jólagjafir eftir, mössuðum nokkrar um helgina. Ég fór á undan Auði til að leita að jólagjöf handa henni en Auður kom þegar hún var búin að læra. Aujan mín er að fara í prófa 7. des. og situr því á hverjum degi heima og les eftir að hún kemur heim frá Uppsala þar sem hún er í öðrum kúrsi. Þvílíkt dugleg. En mikið óskaplega er nú skemmtilegt að leita að jólagjöfum í útlöndum, svo mikið úrval. Maður þarf því í raun ekki að hafa neinar hugmyndir áður en maður fer af stað. Klukkan 17 á laugardaginn vorum við hins vegar alveg uppgefnar og ég neitaði að fara í fleiri búðir. Laugardagurinn var afar sérstakur fyrir okkur. Við hringdum heim til mömmu og pabba rétt fyrir kl. 10 að íslenskum tíma og tókst okkur að vekja þau. Og Haukur litli var löngu farinn í vinnuna. Það er nú eitthvað bogið við þetta allt saman. Þetta var smá hefnd fyrir okkur. Eftir að við fluttum til Svíþjóðar hringdi mamma nefnilega oft í okkur klukkan t.d. 9 um helgar og vakti okkur auðvitað. Hún er reyndar hætt að hringja svona snemma einmitt þegar við erum farnar að vakna löngu fyrir hádegi. Þér er því óhætt að hringja í okkur hvenær sem er núna, mamma! |