Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, janúar 25, 2005
 
Núna eru gestirnir okkar farnir heim til Íslands. Mamma fór á sunnudaginn en pabbi í dag. Það var alveg ofsalega gaman að hafa þau og gerðum við alveg fullt skemmtilegt saman. Þau komu líka með ýmisleg íslensk góðgæti til okkar, s.s. SS-pylsur, Hraun, lakkrís, rauðan ópal, hrosskjöt, skyr og harðfisk.

Á fimmtudeginum, komudeginum, labbaði ég með þau í bænum því það voru ennþá fullt af útsölum í gangi. Fljótlega áttaði ég mig á að þau voru ekki á nákvæmlega sömu bylgjulengd og ég hvað varðar peninga og sparnað en auðvitað höfðu þau samt gaman af útsölunum, hver hefur ekki gaman af því! Drifum okkur því heim og bjuggum til frábæra pizzu og spiluðum kana auk þess sem mamma þrengdi nýju, fínu dragtina mína.

Á föstudeginum fór Auður í vinnuna en við hin sváfum aðeins út og skoðuðum síðan ráðhúsið. Þetta hús er afar merkilegt og túrinn vel peninganna virði því leiðsögumaðurinn var vel að sér í sögu byggingarinnar. Gestirnir voru mjög hrifnir og vilja benda öðrum gestum á að fara eftir vinsamlegum ábendingum okkar þegar þeir koma í heimsókn.
Gestirnir voru sífellt svangir og var því títt stoppað til að fá sér í gogginn sem leiddi til þess að allir voru saddir þegar kom að kvöldmatnum. Eftir þrælgóða súpu og brauð að hætti Auðar fórum við á blústónleika á knæpu með fullt af þröngum og litlum herbergjum ef herbergi á að kalla því sumt var nú bara örlítið útskot. Þrátt fyrir að hljómsveitin hafi nú kannski ekki verið á heimsmælikvarða var þrælgaman að hlusta, sérstaklega í ljósi þess að þetta var live og við í besta stæði í húsinu með bjór á borðinu.

Eftir að hafa hangið smá í Kringlunni, sem er næst okkur, á laugardeginum, fórum við á krá til að horfa á Manchester United keppa gegn Aston Villa. Það þarf nú kannski ekki að taka það fram að Manchester vann 3-1. Auður mín var alveg til friðs allan tímann þrátt fyrir að vera allt annað en fótboltaáhugamanneskja, kannski var það allur maturinn sem hélt henni upptekinni. Auður kipptist þó af og til við meðan á leiknum stóð, þ.e. þegar mamma og pabbi fögnuðu mörkum sinna manna og þegar þó bölvuðu hinum fyrir allt sem þeir gerðu gegn Manchester. Litla skinnið mitt er ekki vön svona hávaða og látum og ákafa áhorfenda en skildi fljótt að þetta var ekkert hættulegt.
Eftir leikinn drifum við okkur heim og spiluðum langt fram eftir kvöldi þar sem leikmannatapi var vænst daginn eftir.

Á sunnudeginum fylgdum við öll mömmu að flugrútunni. Pabbi gerði gott betur og fór alla leið á flugvöllinn til að vinka bless. Við Auður heilsuðum aðeins upp á poolkjuðana okkar sem við höfum ekki séð í þónokkrar vikur. Auður bjó til vöfflur til heiðurs gestinum sem eftir var og svo pöntuðum við feita pizzu, ekki beint heilsusamlegur dagur.

Í gær fórum við Auður í vinnuna og pabbi á fund með sænskum getraunum. Eftir það fengum við okkur kínverskan og fórum í keilu. Ég verð að fara að skrifa niður skorið mitt einhvern tímann því ég er alveg helvíti góð í keilu, sérstaklega þegar tekið er mið af því hversu sjaldan ég hef spilað það. Auði finnst keila ekki skemmtileg en ég er ekki frá því að hún hafi tekið stakkaskiptum.

Veðrið hagaði sér sæmilega skikkanlega allan tímann, fór ekki nema niður í -2.5 gráður og snjóaði lítið en einnig var heiður himinn á köflum. Varla hægt að biðja um meira í endaðan janúar.

Takk ofsaleg fyrir komuna, mamma og pabbi. Vonum að þið komið fljótt aftur.


miðvikudagur, janúar 19, 2005
 
Fórum í badminton í morgun. Það er voða hressandi að fara 1-2 í viku í badminton. Þegar við Auður spilum erum við að æfa tæknina en hlaupum minna. Fyrir 2 vikum spiluðum við með 3 úr samtökunum í Stokkhólmi því það eru ókeypis tímar á föstudögum ef maður er í samtökunum. Það var hlaup og áreynsla. Við fíluðum það báðaraalveg í botn á meðan badmintoninu stóð. En almáttugur hvað næstu dagar voru erfiðir. Ég var með harðsperrur dauðans og Auður fékk svo hrikalega í bakið að hún gat næstum því ekki gengið og gátum við ekki spilað badminton í seinustu viku vegna bakmeiðslanna. Núna erum við hins vegar alveg endurbættar en komumst því miður ekki núna á föstudaginn því við munum vera með gesti. Mamma og pabbi koma nefnilega á morgun. Mamma verður til sunnudags en pabbi til þriðjudags því hann þarf að fara á fund á mánudaginn.

Við fórum á Ocean's twelve á mánudaginn í bíó. Hún var alveg ágæt og alveg þess virði að sjá sætu strákana, þ.e. Brad Pitt och George Clooney. Hins vegar var nú stundum sem ég skildi nú ekki alveg plottið svo Auður þurfti að ræða myndina alla leiðina heim. Zeta-Jones var alveg ágæt í myndinni, ég fíla hana ekki alltaf sem leikkonu en hún er auðvitað alltaf mjög sæt svo það eitt og sér bjargar henni næstum því.


þriðjudagur, janúar 11, 2005
 
Kæru lesendur, hérna eru jóla og áramótamyndirnar okkar.

Við höfum fengið afar skemmtilegar fréttir, mamma og pabbi koma í heimsókn eftir rúma viku. Enn er óvíst hvort þau komi á sama tíma, svipuðum tíma eða sitthvorum tímanum. Mun ástæða þess ekki vera ósamkomulag þeirra, enda fátt sem þau eru ósammála um! Heldur að mamma er búin að kaupa sér flugmiða til okkar en enn er ekki komið á hreint hvenær pabbi á að vera á fundi í Stokkhólmi.


föstudagur, janúar 07, 2005
 
Loksins, í byrjun des, sagði ég mig úr íslensku þjóðkirkjunni, eða skráði mig utan trúfélags eins og það heitir á eyðublaðinu. Þetta hef ég ætlað að gera lengi en það hefur bara einhverj veginn alltaf gleymst. Ég er afar lítið trúuð og sé því enga ástæðu fyrir því að mínir skattpeningar (sem eru engir þessa stundina) fari í að halda uppi félagi/stofnun sem ég hef takmarkaðan áhuga á og ætti vel að geta bjargað sér sjálft. Orðum það frekar að trú mín liggi frekar hjá Háskóla Íslands en hjá guði. Þau ykkar sem hafið áhuga á að gera hið sama er bent á að þennan link.

Milli jóla og nýja ársins tóks mér það eiginlega ómögulega. Öll fjölskyldan fór í verslunarleiðangur á tveimur jafnfljótum. Þegar við vorum nánast komin á leiðarenda vorum við í svo áhugaverðum samræðum að ég tók greinilega ekki eftir neinu í kringum mig. Allt í einu fann ég fyrir sársauka fyrir ofan augað og á löppinni og sá að Hlín baðaði út höndunum og virtist vera á leiðinni að segja eitthvað. Þið vitið hvernig grindrur mjólkurfernum er alltaf keyrt í inn í búðirnar. Einmitt, ég gékk á fullri ferð vel harkalega á eina svoleiðis. Helvítis grindin var á miðri gangstéttinni en sjálf matvörubúðin er á ská hinum megin við gatnamótin! Hvað á það að þýða! Auðvitað fékk ég kúlu sem er að hverfa loksins núna. Auður og ég fórum að skellihlæja (þetta var nú samt helvíti vont) en Hlín kunni sig og var grafalvarleg (enda veit ég að við hefðum sko ekki mátt fara að hlæja ef þetta hefði komið fyrir hana). Biggi tók ekki einu sinni eftir þessu og fannst greinilega ekkert athugavert við andlitið á mér eftirá.


miðvikudagur, janúar 05, 2005
 
Gestirnir okkar (Hlín, Biggi og Valtýr) fóru í gær heim til Danmerkur. Þau fara síðan til Íslands í dag í fimmtugsafmæli hjá pabba hans Bigga og koma til baka á sunnudaginn. Þvílíkt stress og læti.
Við Auður erum hins vegar alveg rólegar og höfum það fínt. Erum afslappaðar og endurnærðar eftir jólafríið. Jólin og áramótin voru alveg glymrandi fín. Allir voru glaðir og hressir mest allan tímann og Valtýr var eins stilltur og hægt var að ætlast til af eins og hálfs ára barni.

Á Þorlák keyptum við Hlín glæsilegt jólatré, prúttuðum úr 400 SEK niður í 300 eins og alvöru húsmæður. Eftir skreytingu var tréð án efa fallegasta jólatré sem ég hef séð. Tréð var ekkert síðra eftir að ég bætti við gulllita bjórdósum (Norrlands Guld) eftir áramót. Það stóð á dósunum að það ætti að hengja þær á jólatréð!!!
Maturinn var alveg frábær í öll skiptin og skipti þá engu hvort við vorum að búa til pizzu eða steik. Borðuðum að sjálfsögðu hamborgarhrygg á aðfangadag og hangiket á jóladag og á gamlárs höfðum við kalkún. Við erum öll alveg steinhissa á kjötláninu sem við höfðum.

Á annan í jólunum vorum við boðin í pönnukökukeppni hjá einni sem ég vinn með (Külliki). Ég og maðurinn hennar (Mårten) áttum að keppa um hylli áhorfenda. Ekki vildi betur til hjá mér en að ég klúðraði sjálfu deiginu, notaði smjör í stað smjörlíkis sem gerði það að verkum að það var engin leið að ná kökunum af pönnunni, allt festist við. Eins og þetta smáatriði "líki" eigi að skipta einhverju helvítis máli. Pönnukökur eru greinilega tricky.
Mårten vann því með yfirburðum, bæði fyrir útlit, hæfileika (gat hent kökunum upp í loftið) og bragð.
Eftir pönnukökuátið fórum við fimm á jólaball Íslendingafélagsins. Það var nefnilega ókeypis inn en allir þurftu að koma með köku. Við keyptum því eitthverjar smákökur á leiðinni. Þetta ball var ágætt, tók bara tæpa 2 tíma og krakkarnir virtust skemmta sér vel. Ég er hins vegar ekki viss um að þessi stund hafi aukið áhuga Auðar á jólaböllum.

Á gamlárs reyndum við að undirbúa Valtý fyrir flugeldaæðið með því að sprengja nokkrar rakettur fyrir miðnætti. Valtýr sturlaðist í fyrsta skiptið, öskraði og grenjaði. Var örlítið minna geðveikur í annað skiptið, öskraði, grenjaði, klappaði síðan með okkur hinum og kallaði "veeeei". Þriðja skiptið gékk best, öskraði og grenjaði bara lítið og klappaði og fagnaði mikið. Þrátt fyrir þetta fékkst hann ekki út á sjálfu miðnættinu.

Vegna alls átsins höfum við verið mátulega dugleg að hreyfa okkur. Höfum stundum labbaði í búðirnar í stað þess að taka lestina. Auk þess fórum við í badminton á sunnudaginn. Biggi og Hlín komu með sína spaða því ég var búin að lýsa því yfir að við Auður værum orðnar helvíti góðar eftir þau fjögur skipti sem við höfum farið í vetur. Biggi og Auður unnu okkur Hlín með naumindum, 2-1, og hefur líklega skipt sköpum að ég slóg Hlín í kinnbeinið með spaðanum þegar staðan var 14-10 fyrir Bigga og Auði í seinustu hrinunni. Annars hefðum við Hlín sko malað þetta!

Það er búið að vera soldið öðruvísi að hafa fimm manna fjölskyldu. Mér finnst að maður sé alltaf að kaupa í matinn og þá sérstaklega bjór. Allt hefur þó farið friðsamlega fram.

Við viljum þakka öllum sem styrktu okkur þessi jól með hangiketi, Ora baunum, Nóakonfekti, malti, appelsíni og öðru sælgæti. Án alls þessa hefðu okkar jól ekki verið eins ánægjuleg.
Og auðvitað Gleðilegt nýtt ár til ykkar allra!