Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, mars 04, 2005
 
Mikil ósköp sem við höfum verið uppteknar upp á síðkastið.
Á þriðjudaginn fannst okkur heldur kalt þegar við vöknuðum; það var tæplega 12 gráðu kuldi. Miðvikudagurinn sló þessu rækilega við með rúmlega mínus 15 gráðum. Eins og geta má þá er snjór yfir öllu. Þar með er veðurfregnunum lokið í bili.

Í seinustu viku (á fimmtudeginum) tókum við Auður lestina til Köben til að heimsækja Hlín og Bigga því Biggi ætlaði að vera með þrítugsafmæli á laugardeginum. Við vorum svo spenntar að gefa honum afmælisgjöfina að hann fékk hana samdægurs. Við ásamt Hlín, Guðrúnu og Þór, Siggu og Gilla, Dísu (systur Bigga) og Trausta (manni Dísu) og Sigrúnu (líka systir Bigga) splæstum í James Bond safninu á DVD. Að sjálfsögðu var Biggi hinn ánægðasti. Fyrst gáfum við honum bara eina DVD og kort svo hann vissi að það væru fullt af fólki bak við þessa einu mynd. Síðan gáfum við honum aðra mynd og að lokum heilan álkassa með myndum. Biggi sagðist nú hafa grunað að hann fengi allt safnið þegar hann sá fyrstu myndina en hann var nú samt eitthvað kindarlegur á svipinn og þorði ekki að segja neitt.
Auðvitað spiluðum við síðan kana.
Valtýr var feiminn við okkur í ca 10 mínútur en síðan vorum við bestu vinkonur hans það sem eftir var ferðarinnar. Hann gat orðið sagt nafnið mitt og bjó til lag mér til heiðurs sem hann raular víst af og til og er það eftirfarandi: Emlía, Emlía, Emlía, Emlía, Emlía, Emlía. Lagið kann ég ekki alveg, það má vera að það sé breytilegt hjá honum enda hann höfundurinn og má gera það sem honum sýnist. Ég skil reyndar ekkert í því að Auður fái ekki lag því það er hún sem nennir að leika við hann öllum stundum. Getur verið að hann sé svona ánægður með frammistöðu sína að geta borið fram nafnið mitt, hver veit.

Föstudagurinn fór í rölt á Strikinu með venjulegri viðkomu á McDonald's. Hittum Kötu (systur Auðar) og Ara (kærastanum hennar Kötu) og fengum okkur bjór með þeim. Skruppum síðan með þeim heim til þeirra en þau höfðu tæplega tveimur vikum áður flutt til Köben. Þau ætla víst bæði að fara að vinna þar til Kata (og kannski Ari) fer í skóla í haust. Húsakynni þeirra voru alveg hin notalegustu, sérstaklega nammiskálin á borðinu.
Um kvöldið spilaði Kanklúbburinn ekki kana að þessu sinni heldur einugis Sequence og möluðum við Biggi stelpurnar, efa meira að segja að þær vilji spila við okkur aftur ;)

Á laugardeginum var okkur pískað út. Vorum látnar vaska upp, búa til jellóskot, búa til pasta, taka til og vaska meira upp. Að sjálfsögðu vorum við glaðar að geta hjálpað til.
Aumingja kúturinn okkar hann Valtýr varð skyndilega veikur og ældi á skyrtuna hans Bigga, sem hann ætlaði að vera í í afmælinu. Eftir það lá Valtýr bara í móki upp í sófa þar til gestirnir komu soldið fram á partýið. Biggi grillaði dýrindis kjúkling ofaní ábyggilega 20 manns sem voru einungis Íslendingar.
Ég ætlaði að vera voðalega góð við Valtý og gefa honum að drekka og borða en fékk í staðin ælugusuna framan í mig og á fínu draktina mína. Þetta var alveg sérstök upplifun, það hefur aldrei fyrr verið ælt framan í mig (meira að segja upp í augað á mér, átti nefnilega ekki alveg von á þessu) og vona ég að þetta verði nú í seinasta skiptið. Og eftir að hafa ælt soldið síðar á Melkorku var Valtýr tilbúinn að fara inn í rúm að sofa.
Jellóskotin vöktu mikla hrifningu gestanna og þá sérstaklega Ara. Þetta var algjört stuðpartý og skemmtum við okkur alveg ofsalega vel. Seinustu partýgestirnir (Auður og Biggi) sofnuðu kl. 5 um nóttina. Ég sofnaði mun fyrr enda bjórinn kaldur og góður :)

Á sunnudeginum um hádegi vorum við síðan mættar aftur í lestina og leið til Stokkhólms. Sem betur fer náðum við að sofa nánast alla leið en ég mæli nú ekki með því að ferðast í 5 tíma eftir svona fínt partý.


Við tókum ekki ýkja mikið af myndum í Köben en hérna eru þær allavega.