Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar





























































This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, apríl 25, 2005
 
Komnar nýlegar myndir af flutningunum og nýju íbúðinni.


laugardagur, apríl 23, 2005
 
Við fengum að vita í gær að á þriðjudaginn næsta munu málarar mæta kl. 7:30 um morguninn heima hjá okkur. Þeir eiga sem sagt að mála stofuna og svefnherbergið og munu vera gestir á okkar heimili í þrjá daga. Íbúðin mun ábyggilega verða alveg ofsalega flott á eftir og við getum þá loksins farið að hengja upp myndir og annað í stofunni.

Fyrir þau ykkar sem hafa áhuga á blómum eða vísindum eða litum eða einhverju öðru þá fann ég þessa afar sérstaka síðu þar sem maður getur séð blóm með augum okkar og augum sumra dýra, þ.e. hvernig blómin líta út í venjulegu ljósi og síðan í útfjólubláu ljósi. Oft eru okkur hulin afar falleg mynstur í blómunum sem einungis sést með útfjólubláu ljósi.


föstudagur, apríl 22, 2005
 
Ég er búin að vera slatta á labinu í vikunni. Að sjálfsögðu er útvarp á hverju labi til að fá fólk til að vinna meira og betur. Ég veit yfirleitt ekki á hvaða stöð er stillt á fyrr en það er tilkynnt og ég stend aldrei í því að skipta, hlusta einfaldlega á það sem er í gangi. Vanalega hefur verið soldið hress stöð (P3) á synthesulabinu en í seinustu viku skipti einhver yfir á Lugna favoriter (Uppáhalds rólegu lögin). Sem fyrri daginn þá hlusta á það sem er í boði og þegar ég er einsömul þá sleppi ég mér alveg og raula smá með í þeim fáu lögum sem ég kann meira en eitt orð í. Ég er alveg ferlega léleg í textum og enn verri í flytjendum og svoleiðis dóti. En mér varð eiginlega alveg um og ó eftir að hafa tekið vel undir með einu lagi þegar þáttastjórnandinn tilkynnti að þetta hefði verið Céline Dion með lagið All by myself. Fyrir það fyrsta er Céline ekki mjög vinsæl á mínu heimili, hvað þá hjá vinunum. En það varð samt ekki til að brjóta mig alveg niður því ég var svo ánægð með að kunna soldið af texta í einhverju lagi og svo verð ég bara að viðurkenna að lagið er soldið catchy. Vona að hún Auður mín lesi ekki þetta blogg ;)


miðvikudagur, apríl 20, 2005
 
Pabbi kom í heimsókn í gær því hann þurfti að fara á fund með sænskum getraunum í dag. Að sjálfsögðu fékk hann konunglegar móttökur. Taskan var dregin fyrir hann um stund, Auður bakaði frábærar pönnukökur (kom sér vel fyrir gestinn að hafa komið með sítrónudropa) að vanda og svo grilluðum við um kvöldið, annað grillið á árinu. Meðan við Auður vorum að útbúa grillmatinn náði gesturinn að sofna sitjandi í sófanum okkar og smelltum við mynd af því sem kemur bráðlega á netið.
Annars slöppuðum við bara voða vel af í gær, átum á okkur gat og gláptum á sjónvarpið.

Líf okkar Auðar er strax orðið venjulegt að nýju, pabbi fer beint af fundinum í dag á flugvöllinn og flýgur til London þar sem hann og mamma ætla á fótboltaleik.

Næsti gestur mun vera Einar Elí sem við dröslum með okkur frá Köben 9. maí. Pabbi mun koma aftur í maí; annar fundur. Og Kalli og Öggi eru búnir að ákveða að fara í picnic með okkur í maí.

Það er því von á þvílíku fjöri hjá okkur á næstunni.


mánudagur, apríl 18, 2005
 
Núna er baðherbergið komið í stand hjá okkur. Veggirnir eru algjörlega útboraðir en nánast öll göt eru falin með hillunum okkar og speglinum. Sá sem flytur inn á eftir okkur mun ekki eiga eins fallegt baðherbergi og við ef hann er ekki til í að kaupa allt af okkur sem við höfum sett upp. Baðherbergið er alveg ofsalega flott allavega.
Til verksins fengum við lánaða borvél úr vinnunni minni því vélin okkar réð ekki við þetta, enda ekki höggborvél. Þrátt fyrir að líta ágætlega út þá fríkaði þessi borvél tvisvar út. Vegna álags bognuðu tveir boranna alveg eins og spaghettí, það var alveg fáránlegt.

Einnig máluðum við þrjá skápa að innan, ramma og skóhillu í stíl, og helminginn af forstofunni.
Á næstu dögum munum við mála hinn helminginn af forstofunni í afar upplífgandi lit fyrir sálina (það stóð allavega í málningabúðinni) og hengja upp spegla og svoleiðis. Hins vegar getum við enn ekki hengt upp neitt í stofunni því hún mun vera tekin í gegn síðar, vitum enn ekki hvenær! Það skiptir samt ekki höfuðmáli því sjónvarpið okkar er tengt og virkar glymrandi vel!

Á laugardaginn kom Hrönn í heimsókn til okkar því hún er ein heima þessa daga og Auður var búin að lofa henni pönnukökum. Fyrsti grillmaturinn okkar leit dagsins ljós um kvöldið og sátum við allar þrjár í stófanum allt kvöldið með alls konar óhollustu og gláptum á sjónvarpið.

Við erum búnar að panta pípara til að tengja uppþvottavélina okkar og ætlar hann að reyna að koma í vikunni. Við vonum svo innilega að það gangi upp því við erum fyrir löngu orðnar hundleiðar á öllu þessu uppvaski.


miðvikudagur, apríl 13, 2005
 
Þá er fyrsta bloggið frá nýja heimilinu okkar. Eina sem ég hef að segja er að ég lagði inn myndir af íbúðinni.


þriðjudagur, apríl 12, 2005
 
Ég var víst ekki búin að nefna það að í nýju íbúðinni verðum við með netið sem þýðir að við munum að sjálfsögðu blogga meira.
Þetta þýðir líklega líka að tölvan okkar kemst í betra stand. Við höfum ekki uppfært forrit í tölvunni í eitt og hálft ár og hefur hún verið meira eða minna undarleg. Vandamálin lýsa sér helst í því að ekkert birtist á skjánum þegar maður kveikir á henni.

Við Auður og Mummi fórum ásamt Gauta frænda hans Mumma á djasstónleika seinasta fimmtudag. Ég er orðin frekar sjóuð í að hlusta á djass og fannst mér þessir nokkuð skemmtilegir. Hins vegar er það þokkalega áberandi hvað djassleikarar eru furðulegir og þá meina ég stórfurðulegir.

Aðrar fréttir; bæði góðar og slæmar. Þegar Mummi kom jöpluðum við á Hrauni og Florida þrjú kvöld í röð; einn kassi á kveldi. Þvílíkt himnaríki. Ég helda barasta að Florida (sem ég smakkaði í fyrsta skiptið núna, ég er ekki svo mikið fyrir breytingar) sé betra en Hraun, bjóst aldrei við að ég myndir segja þetta. Slæmu fréttirnar eru að allt súkkulaðið er búið! Hins vegar eru góðar fréttir í vændum. Pabbi sagði mér áðan að hann kæmi kannski í næstu viku til Stokkhólms. Vona að hann taki með sér eins og 2-3 Florida!

Á föstudaginn eyddum við heldur betur peningum, samt engu í vitleysu. Keyptum ósköpin öll af mismunandi vörum í IKEA sem munu sóma sér vel í nýju íbúðinni. Við erum búnar að tengja það mikilvægasta; sjónvarpið, videoið og DVD-ið, allt silfrað í stíl frá Luoxor. Uppþvottavélin stendur hins vegar enn í plastinu í stofunni.

Á laugardaginn fluttum við á rúmum þremur tímum. Hjálparmennirnir okkar (Georg, Mummi og ólétt Hrönn) voru nefnilega svo aktívir að þetta tók enga stund. Ég hef aldrei séð annað eins. Þegar við fluttum fyrir ári vorum við 4 tíma og fannst okkur það vel sloppið. Ég veit ekki hvar þetta endar. En núna þurfum við ekki að flytja í nokkur ár, ekki fyrr en við erum báðar búnar í doktorsnáminu.

Mummi fór frá okkur í gær, auðvitað tilneyddur því hann á að halda MS fyrirlesturinn sinn á fimmtudaginn.

Við erum því þessa dagana bara smám saman að ganga frá. Ætlum að mála ganginn og nokkra skápa að innan en svo mun húsvörðurinn okkar sjá til að tvö herbergi verði lagfærð á kostnað eigenda.

Við sjáum fram á að líða óskaplega vel á nýja staðnum. Við prófuðum nefnilega annan af tveimur pizzustöðunum sem eru í 2ja mínútna fjarlægð og var pizzan alveg frábær.


miðvikudagur, apríl 06, 2005
 
Við erum enn á lífi. Ég vildi að ég gæti sagt að eitthvað hafi verið að síðunni og þess vegna höfum við ekki getað bloggað en það er ekki satt. Við höfum bara ekki gefið okkur tíma til þess og sé ég núna glögglega að með því höfum við svikið margar saklausar sálir.

Frá 4. mars hefur ótrúlega margt gerst hjá okkur.

Það sem var afar ánægjulegt fyrir þremur vikum er að það voraði. Núna er nánast allur snjór farinn og býst ég ekki við honum aftur fyrr en í desember. Herbergisfélagar mínir og ég höfðum meira að segja picknick fyrir utan bygginguna okkar í seinustu viku þar sem við borðuðum snakk og súkkulaði og drukkum vín og bjór. Afar huggulegt en enn allt of kalt.

18. mars fórum við Hrönn og Auður á tónleika með Emilíana Torrini þar sem hún söng lög af nýju plötunni sinni “Fisherman’s wife”. Tóleikarnir voru mjög skemmtilegir, sérstaklega þar sem salurinn hýsti einungis 200 manns svo maður var mjög nálægt stjörnunni. Auk þess er Emilíana svo einlæg og fyndin, algjör dúlla.

Laugardaginn fyrir páska bauð ég þremur úr vinnunni í pönnukökur og vatnsdeigsbollur. Vatnsdeigsbollur átti það bara að vera í byrjun en þar sem mér hafði bara tekist að baka þær einu sinni af sjö skiptum þá ákváðum við að hafa líka pönnukökur. Ég hringdi í ofboði í mömmu á laugardagsmorgninum en enginn svaraði og ég fékk smá kvíðakast því Hrönn var ekki í Stokkhólmi til að leiðbeina mér en hún bauð okkur í bollur á bolludaginn sem voru alveg ofboðslega góðar. Eftir að hafa hringt í mömmu ótal sinnum seinust tvö ár vegna bollanna þá tókst mér nú að rifja allt upp sem ég taldi að hún hafði sagt mér. Í stuttu máli voru bollurnar glymrandi góðar og skiluðu mikilli gleði til fólksins.
Við fengum frekar óvænta heimsókn á laugardeginum því Arna og Karvel komu með glænýja strákinn sinn, Arnar Smára, og foreldra hennar Örnu. Að sjálfsögðu var allt postulínið dregið út úr skápunum og fólk neytt til að borða pönnslur og bollur.

Fyrir mánuði fengum við að vita frá stráknum sem við leigjum af (“fíflinu” eins og við köllum hann) að við fengjum ekki að leigja lengur, að sá sem hann leigði af leyfði ekki að hann áframleigði íbúðina lengur.
Það tók okkur enga stund að fá íbúð frá stúdentasamtökunum í Stokkhólmi enda var Auður búin að vera rúmlega 2 ár í röð.
Íbúðina fengum við 1. apríl og flytjum við núna á laugardaginn. Ég mun setja inn myndir af íbúðinni á næstu dögum en hún er 63 fm og þriggja herbergja. Eldhúsið er ekki beint eldhús heldur eldhúslíki (þ.e. pinkulítið eldhús) og baðherbergið er líka mjög lítið sem verður nátturulega til þess að stofan er þrælstór og herbergin mjög fín að stærð. Íbúðin lítur ekki allt of vel út á köflum og mun vera gert við hana. Umhverfið er heldur ekkert alveg ofsalega fínt enda eru öll hús í kring stúdentaíbúðir með frekar lágri leigu.
Staðsetningin er alveg ágæt, íbúðin er í Bergshamra sem er næsta stöð frá háskólanum og ætti að taka um 10 mín fyrir mig að hjóla. Auðar hópur flutti um mánaðarmótin frá háskólanum til Karolinska Institutet sem þýðir að það tekur hana lengri tíma en mig að hjóla.

Og seinast mánudag kom Mummi í heimsókn til okkar og verður þar til næsta mánudag. Greyið litla verður því píndur til að bera kassa á laugardaginn og fara í IKEA og ELKÓ á föstudaginn. Við munum nefnilega á föstudaginn kaupa okkur sjónvarp, DVD, video og uppþvottavél. Já, uppþvottavél. Þvílíkur draumur. Svo þurfum við auðvitað að fara í IKEA og kaupa eitthvað undir sjónvarpið og græjurnar og eitt og annað í viðbót.

Hérna eru allar myndir sem við höfum tekið 31. janúar – 2. apríl.