Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
miðvikudagur, júní 15, 2005
Í dag er 15. júní sem þýðir að á föstudaginn er þjóðhátíðardagurinn okkar. Á föstudaginn mun vera sumarveisla í vinnunni hjá mér og ætla ég mér að minna fólkið á hvaða merkisdagur sé. Seinustu daga hef ég því verið á netinu að leita mér að upplýsingum um íslenska þjóðsönginn eða Lofsönginn eins og hann heitir víst. Besta síðan sem ég fann er án efa þessi því þar er hægt að fræðast um uppruna og þróun ljóðsins, sjá ljóðið og hlusta á margvíslegar útgáfur af laginu með og án kórs. Skemmtilegt er að heyra Lúðrasveit Reykjavíkur spila Lofsönginn á Austurvelli 17. júní 1944 og svo kór syngja lagið á Þingvöllum sama dag; maður heyrir meira að segja í íslenska vindinum. Fallegasta útgáfan þykir mér þó án efa þessi frá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Auði hefur ekki þótt saga þjóðsöngsins eins skemmtileg og spennandi og mér, eða kannski segi ég bara ekki nógu skemmtilega frá. Henni þykir t.d. ekkert merkilegt að Íslendingar þurftu að kaupa höfundarrétt af laginu af dönskum kaupmanni 1948 og réttinn af ljóðinu frá erfingum Mattíasar Jochumsonar 1949. Ég ætla ekki að segja ykkur allt, best að skilja eitthvað eftir handa ykkur að lesa ;) Neðst á síðunni er síðan að finna linka yfir á fjölmargar þýðingar af fyrsta erindinu. Þar sem við búum á svo frábærum stað, nálægt náttúru í nánast allar áttir, þá skruppum við í picnic um kvöldmatarleytið í gær. Tók okkur aðeins 7 mín að hjóla í trjágarð fyrir framan Ulriksdalsslottet og borðuðum við þar samlokur og snakk, lásum soldið og sóluðum okkur. Þetta er einn af þeim stöðum sem gestirnir okkar munu vera teknir til. þriðjudagur, júní 14, 2005
Við Auður erum búnar að horfa á alla 25 LOST þættina og ég verð að segja það að ég er vonsvikin. Hvað á það að þýða að láta mann horfa spenntan á heila seríu og leyfa manni ekki að þokast einu skrefi nær sannleikanum. Hversu margar seríur ætla þeir eignlega að gera áður en maður fær að vita hvað í fjandanum er um að vera á þessari eyju. Ætli ég sé ekki bara svona svekkt því ég hélt að það væru bara 25 þættir og ég fengi að vita allt í seinasta þættinum. Ég bíð því spennt eftir fleiri þáttum! Á sunnudaginn komu saman 12 manns úr billjardklúbbnum okkar heima hjá okkur til að horfa á The Hustler, sem er btw billjardmynd. Allir búnir að fá sér sæti og búið að setja alls kyns góðgæti á borðið þegar myndinni var skellt í. Og hvað haldiði að við sjáum; DVD tækið okkar sagðist að um rangt "region" væri að ræða, þ.e. tækið okkar er gert fyrir Evrópskan markað en myndin fyrir Amerískan. Sem betur fer voru einhverjir snillingar meðal oss sem töldu að það væri hægt að gera okkar "region-free" og ættum við þá að geta spilað alla DVD diska sem við vildum. Svo reyndist vera. Hrönn googlaði fram ótrúlega síðu þar sem einhverjir voru með leiðbeiningar um hvernig ætti að hakka DVD spilarann okkar en til þess þurfti maður að ýta á hina furðulegustu takka, langt frá því að vera augljóst. Sumir DVD spilarar eru því greinilega búnir til með þann möguleika að spila alla DVD diska en maður getur ekki nýtt sér möguleikann nema að maður sé til í að borga fyrir það, eða að leita á netinu! mánudagur, júní 13, 2005
Í seinustu viku störðum við Auður hissa á eitt hornið á húsinu okkar þegar lítill fugl flaug aldeilis óhræddur að loftræstisrimlum og tróð sér inn. Fuglinn staldraði afar stutt við og grunaði okkur strax að hann ætti hreiður þarna inni. Að sjálfsögðu hlupum við að og hleruðum og heyrðist lágt tíst. Áðan vatt ég mér út með myndavélina okkar og koll, hlammaði mér niður rétt fyrir framan loftræstigatið og tók mynd af vettvangnum. Ég þurfti ekki að bíða lengi þar til fuglinn birtist en sá var heldur illa við nærveru mína og reyndi hvað hann gat að hemja sig í að fæða ungana. Ég býst nú við að fuglinum hafi enn minna litist á það þegar kisi einn var líka kominn með stúkusæti fyrir framan hreiðrið. Kattargreyið hefur ekkert getað ráðið við frumþarfirnar í sér þegar ungarnir skræktu af og til af svengd. Ég sá orðið fram á að ná engum myndum svo ég rak köttinn í burtu. Þó leið þónokkur stund þar til fuglinn þorði að fara inn í loftræstigatið. Öruggara var að fljúga svona eins og tíu sinnum að gatinu og fljúga burtu, bara til að sjá hvað ég myndi gera. Ég hlýt hins vegar að hafa sýnt smá vinaþel þegar ég rak köttinn burtu, nema að fuglinn hafi verið að ærast yfir orginu í ungunum, því eftir örugglega samanlagt korter þá smeygði fuglinn sér loksins inn. Hérna sjáið þið myndir af kettinum horfa girndaraugum á loftræstigatið, fuglinn fylgjast með kettinum, fuglinn sitja á gatinu og smeygja sér svo inn. Ég náði ekki mynd af honum þegar hann kom aftur út því hann er alveg eldsnöggur af því. sunnudagur, júní 12, 2005
Á föstudaginn fórum við Auður í leikhús ásamt Külliki, samstarfskonu minni, og Mårten manninum hennar. Við fórum í sjálft Stockholmsleikhúsið og sáum Sommargäster (Sumargestir) eftir rússann Gorkij. Mér þótti leikritið alveg ofsalega skemmtilegt, mjög líflegt, skemmtilegt svið (lítið hús og lítil sundlaug) og fínir leikarar. Auðvitað gaf það nokkur extra stig að íslensk leikkona var á sviðinu; Bergljót Árnadóttir. Það er óvíst að þið þekkið hana því hún virðist hafa búið í Svíþjóð seinustu 30 ár, en góð var hún eins og Íslendingi sæmir! Við Auður vorum búnar að ákveða að borða saman áður en við færum í leikhúsið, á ítölskum stað rétt hjá sem við höfum prófað tvisvar áður. Við vorum báðar seinar úr vinnunni og mættum því á staðinn klukkan 18. Við vorum frekar snöggar að ákveða okkur og panta og fengum matinn hálftíma fyrir sýninguna. Og þá var heldur betur sett í gang með að háma í sig. Svo mikið lág okkur á að við báðum um reikninginn í miðjum klíðum, löggðum peningana á borðið og fórum. Að sjálfsögðu náðum við í leikritið á réttum tíma en þetta var alls ekki draumamáltíðin okkar; þó betra en McDonald’s. Þá vitið þið það, maður þarf ekki nema 50 mínútur inni á veitingastað! Er búin að setja nokkrar myndir frá 12. maí til dagsins í dag inn á myndahornið; Einar í heimsókn; Uppþvottavélin tengd; Búin til brúðkaupsboðskort; Íbúðin og billjardfundur hjá Auði. |