Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar





























































This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, júlí 15, 2005
 
Aujan mín kom heim að miðnætti í gær, þreytt en ánægð með ferðina. Ég fékk annan hluta í afmælisgjöf, “The Science Book” þar sem farið er yfir helstu uppgötvanir í vísindum seinustu 6000 þúsund árin. Alveg hreint frábær bók. Um daginn fékk ég hermannagræn heimaföt frá Auði; síðar buxur og toppur með blúndu hlýrum. Hún er fyrir löngu búin að fá leið á því að sjá mig oft heima í minna fínum náttfötum og var þetta því kærkomið. Ég er alveg ótrúlega gella í þessu.

Þegar ég rölti mér með hjólið mitt í gegnum Bergshamra centrum (centrumið okkar sem er í 5 mín göngufjarlægð) í morgun þá staðnæmdist ég allt í einu því mér fannst eitthvað hreyfast fyrir framan mig. Auðvitað höfðu mín haukfráu augu rétt fyrir sér. Á miðri gangstéttinni var lítill íkorni sem labbaði sér um og hann var sko ekkert að flýta sér. Honum fannst hann greinilega eiga bæinn því vanalega eru þessi kvikindi skotfljót í burtu þegar maður nálgast þau. Mér þótti þetta að sjálfsögðu afar skemmtilegt því íkornar eru ein uppáhalds dýrin mín. Ég fyldist því með þeim stutta labba að rósarblaðabunka og hvíla sig um stund og síðan hlaupa beint inn í videobúðina. Ég veit ekki af hverju hann hélt að þetta væri sniðug hugmynd, en þessi er með þeim frakkari íkornum sem ég hef séð. Kannski hafa hinir íkornarnir manað hann upp í þetta en líklega fæ ég aldrei að vita það. Fleira fólk hafði tekið eftir íkornanum mínum og margir þustu að videobúðinni til að sjá hvað hann tæki núna til bragðs. Fólk hélt líklega að íkorninn hefði kannski fundið fimmtíu kall og ætlaði að leigja sér spólu því fólkið virtist ekkert vera að reyna að hjálpa vini mínum út, nei, nei, hann var bara cirkusdýrið þeirra.
Ég þurfti að halda áfram leið minni og get því miður ekki frætt lesendur um afdrif íkornans hugaða. Þó þykir mér líklegt að hann hafi tekið nokkur karatespörk á gólfinu í videoleigunni, bara til að fólk viti hver ræður.


fimmtudagur, júlí 14, 2005
 
Loksins er veðrið að skána hérna. Það er hálfskýjað og von á skúr í dag. Það er því mun svalara í vinnunni, alveg bærilegt að vera hérna núna.

Seinasta föstudag vorum við Auður boðnar í picnic-grill. Sue-Li og Tobbe, vinnufélagar Auðar, buðu okkur í rosalega flottan mat, þau gerðu meira að segja sérstaka sósu með kjötinu. Við fórum í garð við vatn (ekki beint góð lýsing þar sem það er vatn út um allt í Stokkhólmi :) þar sem fyrirfannst fullt af öðru fólki enda rosalega gott veður og fallegt um kring. Það var þó ólíft annars staðar en í skugganum. Alls konar fuglar voru líka á sveimi og þurfti að fylgjast grant með að þeir nöppuðu ekki steikunum af grillinu. Eitthvað virtust þeir hafa verið sárir yfir því að við vildum ekki gefa þeim mat svo einn tók sig til og dritaði svona líka rosalega á einn pokann okkar, alveg nokkrum centimetrum frá okkur.
Þið sem verðið í brúðkaupinu okkar getið skoðað fyrrnefnd Sue-Li og Tobbe því þau munu einnig vera þar, þau eru einu sænsku gestirnir sem koma. Það var nú reyndar bara einum sænskum boðið í viðbót svo afföllin eru lítil.

Ég hef gjörsamlega ekki gert neitt síðan að Auður fór. Ég hef vaknað seint, dröslað mér í vinnuna, hangið í vinnunni til kvöldmatarleytis og farið heim að horfa á sjónvarpið. Ég hef ekki einu sinni eldað.

Annars þýðir ekkert að hringja í gsm-inn minn næstu daga. Ég missti hann í jörðina í gær og eftir það virkar hann bara alls ekki. Við erum búnar að ákveða að kaupa okkur báða nýja síma og verður það ábyggilega gert á morgun eða laugardaginn. Maður getur ekki lengur verið lengi án gsm :)


mánudagur, júlí 11, 2005
 
Helgin var sjóðheit og reyndi ég hvað ég gat að halda mig frá sólinni. Ég var t.d. inni allan gærdaginn, aðallega v.þ.a. Aujan mín var ekki heima. Auður þurfti að fara að heiman kl. 3 aðfararnótt sunnudagsins til að fljúga til Englands þar sem hún verður á ráðstefnu í Cambridge þangað til á fimmtudaginn. Ég endurheimti því yndið mitt seint á fimmtudagskvöld.
Á fimmtudaginn fórum við Auður í heimsókn til Eiríks Freys sem við ætlum alltaf að kalla Eirík Fjalar. Hann var ósköp lítill og sætur og var alveg til fyrirmyndar, heyrðist ekkert í honum allan tímann. Við vorum ekki einar um að vera í forvitnisleiðangri, Uppsalabúarnir birtust allir 5 og voru auðvitað pantaðar nokkrar fjölskyldupizzur.

Annars var Biggi litli frændi minn (sonur Ingu föðursystur og Gumma) að hefja Interrail ferð fyrir stuttu. Ferðaplanið hljómar rosalega spennandi og skil ég ekkert í því af hverju mér hefur aldrei dottið í hug að gera eitthvað svona. Þið getið kíkt á bloggsíðuna hjá krökkunum og fylgst með.