Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, mars 29, 2006
 
Í seinustu viku fékk ég bólur í framan. Ég lít því út eins og versti unglingur og haga mér stundum líka eins og einn. Þetta á sér víst líka eðlilegra skýringa og kallast hormónabólur. Margir nýfæddir einstaklingar fá svona bólur og þær fara af sjálfu sér á nokkrum dögum eða vikum. Ég verð að drífa mig í að verða betri í húðinni því gestirnir fara að streyma inn.

Í gær fórum við Emelía mamma í bæinn. Ég varð reyndar minnst vör við það því ég svaf allan tímann í vagninum. Ástæða bæjarferðarinnar var framköllun mynda. Ég þarf nefnilega að eiga myndir í myndaalbúminu mínu til að sýna gestum. Einnig þarf ég að senda langömmum mínum og langöfum og ömmum og öfum myndir.

Og enn einu sinni eru komnar nýjar myndir.


sunnudagur, mars 26, 2006
 
Stundum á ég voða bágt og græt smá þegar loft fer í gegnum þarmana. Ég fékk því dropa á fimmtudaginn sem eiga að brjóta niður loftbólur í maganum og í þörmunum og láta mér líða betur. Ég á að taka dropana áður en ég fæ mér að drekka og má taka þá þar til ég er þriggja mánaða en magavesen er víst algengt hjá börnum undir þriggja mánaða. Við höldum að þetta sé nú strax farið að virka.

Á föstudaginn ætlaði Auja mamma að fara í útskriftarveisluna hjá Tobbe vinnufélaga sínum en var orðin svo veik um kvöldið að hún gat ekki farið. Við Emelía mamma vorum smá fegnar því þá vorum við ekki einar heima allt kvöldið :)

Í gær fórum við allar þrjár í Mörby Centrum sem er lítil Kringla stutt frá okkur. Ég fór í fyrsta skiptið út í burðarbeltinu mínu og fannst það alveg bærilegur ferðamáti. Það þarf nú eiginlega ekki að taka það fram en ég var alveg ofboðslega stillt í allan tímann.

Áðan bankaði nágrannakonan okkar (sem býr fyrir ofan okkur) hjá okkur og spurði hvort hún mætti koma í heimsókn til mín með mágkonu sína. Reyndar var það mágkonan sem spurði því nágrannakonan kann ekki sænsku. Konurnar voru ofsalega skotnar í mér. Þeim fannst ég svo fín og sæt og voða lík mömmu.

Kíkið endilega á nýju myndirnar


fimmtudagur, mars 23, 2006
 
Í dag er ég þriggja vikna. Mömmum mínum finnst ég vera orðin svo stór og reyndar soldið feit. Ég fór í mælingu í dag hjá ungbarnaeftirlitinu og er orðin 56 cm og 4370 g. Ég hef því stækkað um 2 cm og þyngst um 250 g á 6 dögum. Hjúkrunarkonan sagði að ég væri rosalega fullkomin, væri aðeins yfir meðalkúrvunni en innan eðlilegra marka auðvitað og stækkaði alveg í samræmi við það.

Setti inn nokkrar myndir frá í dag.


miðvikudagur, mars 22, 2006
 
Þetta er nú meira ástandið á mömmu. Hún var orðin stálslegin á sunnudaginn en fékk stálma í hitt brjóstið í gær. Núna líður henni aftur orðið vel. Vonum að þetta komi ekki fyrir aftur.

Amma Anna stóðst doktorsvörnina sína með glansi og allir voru rosalega ánægðir með hana og doktorsritgerðina hennar. Innilega til hamingu Doktor Amma!
Amma verður fram á laugardag í útlandinu til að gera smávægilegar breytingar en sem betur fer verður hún ekki alein allan tímann því afi ætlar að fara til hennar. Eftir það hefur amma engar afsakanir, hún og afi verða að fara að koma í heimsókn til mín.

Og afi Maggi átti afmæli í gær, varð 51. Mamma hringdi auðvitað í hann en ég var sofandi og gat því ekki að tala við hann. Ég segi því núna: Til hamingu með afmælið afi!

Loksins fórum við mamma aftur út. Núna skruppum við útá bensínstöð því þar sækir maður pakkana sína (en ekki hvar!!!). Ég fékk nefnilega pakka frá Ósk og Maju mömmu hennar. Ósk gaf mér handklæði og þvottapoka í stíl, einmitt það sem mig vantaði því ég átti bara eitt handklæði fyrir. Maja gaf mér ofsalega fína vettlinga, sokka og húfur sem hún prjónaði sjálf. Allt passar alveg glymrandi vel á mig. Takk, takk, góðu konur!

Þið getið séð nokkrar nýjar myndir hérna.


sunnudagur, mars 19, 2006
 
Í gær varð Emelía mamma allt í einu veik með beinverki, illt í brjóstinu, hausverk og ískallt á puttunum og tánum. Mamma fékk líklega stálma í brjóstið og reyndi að lina bólgurnar með rafmagnshitateppinu hennar Auju mömmu og með því að mjólka sig með fínu brjóstapumpunni sinni. Ég fékk því mjólk þrisvar sinnum úr pela því mamma þurfti að sofa voða mikið. Mér fannst pelinn barasta allt í lagi og get því greinilega einhvern tímann farið í pössun þegar mömmur mínar vilja gera eitthvað skemmtilegt saman.

Ég vona að amma Anna sé hætt að vera veik því hún er í Englandi núna að undirbúa sig fyrir doktorsvörnina sína á þriðjudaginn. Gangi þér ofsalega vel amma!

Arna, Karvel og Arnar Smári komu í heimsókn til mín í dag. Þau gáfu mér heldur betur samfellu við hæfi, það stendur nefnilega "sötnos" á henni en það þýðir "sæta". Þau komu líka með rosalega góðar vatnsdeigsbollur sem þau bökuðu sérstaklega fyrir Emelíu mömmu!!!

Þið getið séð nokkrar nýjar myndir hérna.


föstudagur, mars 17, 2006
 
úff, það gefst nánast enginn tími til að blogga lengur en sem betur fer hefur Anna Eir aðeins meiri tíma en ég ;)
Ætlaði bara að segja að ég bætti við linknum "Bubbi" undir "Linkar" hérna til vinstri. Þarna lýsa Bubbi frændi (bróðir pabba) og Stebba starfseminni á jörðunum Vorsabæ og Brjánsstöðum. Kíkið endilega á þessa síðu, hún er þrælfín og skemmtileg með fullt af flottum myndum.


 

Ég er heldur betur búin að vera á flandri. Í gær fór ég á Astrid Lindgrens sjúkrahúsið og lét taka sónar af hjartanum mínu. Ástæðan fyrir því er að læknarnir hafa tvisvar hlustað mig og heyrt smá blásturshljóð sem þýðir að það sé gat milli hjartahólfanna, sem er víst ekki svo óalgengt. Gatið er hins vegar svo lítið að það hefur engin áhrif á mig og á að gróa af sjálfu sé. Ég á samt að koma í aðra skoðun eftir eitt og hálft ár. Ég var alveg hrikalega stillt og góð hjá lækninum, fylgdist bara með glaðvakandi og öskraði ekkert.

Ég var nú misánægð með að vera í vagninum mínum í strætó. Á leiðinni á sjúkrahúsið grét ég alla leiðina og var engin leið að hugga mig. Á leiðinni til baka svaf ég hluta í vagninum og restina innundir jakkanum hjá mömmu.

Í dag fór ég út í Bergshamra centrum (centrumið okkar sem liggur ca. 5 mín frá heimilinu okkar) þar sem ég var vegin og metin. Ég var sofandi þegar ég var rifin úr fötunum og lét ég mömmu heldur betur heyra að þetta líkaði mér illa. Ég er orðin 54 cm og 4120 g sem þýðir að ég hef stækkað um 2 cm frá því ég fæddist (fyrir 15 dögum) og þyngst um 370 g á 8 dögum.


Annars byrjaði Auja mamma að vinna aftur í gær svo ég hef verið ein heima með Emelíu mömmu og hefur það bara gengið mjög vel hjá okkur. Mamma er soldið hissa á því hversu lítill tími gefst til að gera eitthvað á heimilinu, hún hefur rétt svo tíma til að borða. Ég þarfnast nefnilega mikillar athygli, tek bara stutta lúra og drekk heillengi.

Hérna getiði séð mynd af mér og mynd af fínu fötunum sem ég fékk frá Hrönn, Georg & Eiríki. Hérna getiði séð aðra mynd af mér og svo mynd af maganum á mömmu. Mamma slitnaði ekkert á meðgöngunni (konur í okkar ætt slitna víst ekki segir amma í Kópavogi) en fékk þessa undarlegu rönd eftir endilöngum maganum.þriðjudagur, mars 14, 2006
 

Amma og afi fóru heim á sunnudaginn. Þau voru voðalega leið að þurfa að fara því þeim finnst ég svo yndisleg. Ég var líka leið og sýndi mínar tilfinningar í smá öskri og gráti. Ég hlakka nú þegar til að fara til Íslands í sumar og hitta þau aftur. Reyndar vona ég að þau komi í heimsókn til mín í millitíðinni enda mun ég breytast svo mikið að það er ekki víst að þau þekki mig í sumar :)

Amma og afi komu með fullt af gjöfum handa mér frá rosalega góðu fólki. Ég fékk föt og önd í baðið frá Byddí, Nonna & Árna Jökli, föt frá Gunnu Steinþórs vinkonu ömmu í Kópavogi, flísföt frá Nonna (bróður ömmu í Kópavogi), Steinu & fjölskyldu og vettlinga og skó frá Ingunni vinkonu ömmu á Brekkulæk. Takk æðislega allir saman!

Amma og afi gáfu mér líka föt og svo fóru þau og keyptu handa mér kerrupoka og skiptitösku svo mömmur mínar geti skipt á mér hvar sem er í heiminum :)

Ég var líka svo heppin að afi skráði mig í Stuðningsmannaklúbb Manchester United Íslandi. Ég er yngsti meðlimurinn og langafi í Vorsabæ er sá elsti. Við langafi munum sko heldur betur hafa eitthvað að tala um þegar við hittumst í sumar. Ég mun vera vel upplýst um mína menn því sem meðlimur þá mun mér berast reglubundið tímarit Stuðningsmannaklúbbsins og treysti ég á að mömmur mínar muni lesa það fyrir mig.

Eitthvað hefur fólk verið að velta fyrir sér háralitnum mínum. Mömmum mínum fannst ég vera brúhærð en eru núna komnar á þá skoðun að ég sé með kastaníubrúnrautt hár, allavega er það voðalega fallegt.

Það er víst fullt fleira fólk sem á afmæli á sama degi og ég: Arne Jakob frændi minn í Noregi (sonur Valda bróður hennar ömmu í Kópavogi), Ülo prófessorinn hennar Emelíu mömmu og einhver kona sem vinnur með Auju mömmu. Allir þessir voru svo heppnir að fá mig í afmælisgjöf :)

Í kvöld komu Hrönn, Georg og Eiríkur í heimsókn til okkar og borðuðu pizzu. Öllum fannst ég svo lítil miðað við Eirík sem er náttúrulega ekkert skrýtið þar sem Eiríkur er 8 mánuðum eldri en ég. Ég er staðráðin í því að borða mikið til að ná honum.

Þið getið séð myndir af öllum stórglæsilegu nýju fötunum mínum hérna.laugardagur, mars 11, 2006
 
Ég er búin að vera sæmilega stillt síðan að amma og afi komu. Mér hefur samt fundist nauðsynlegt að sýna þeim að læt sko ekki vaða yfir mig. Afa finnst ég samt ekki vera neitt óþekk heldur bara smá óvær enda titlar hann sig fjölmiðlafulltrúi minn.
Afi er alveg óður, tekur stöðugt myndir af mér. Þið getið séð nokkrar hérna.


föstudagur, mars 10, 2006
 
Amma og afi í kópavogi eru í heimsókn hjá mér núna. Mér finnst þau alveg svakalega skemmtileg og gott að kúra hjá þeim. Hér eru nokkrar myndir sem afi tók af mér.


miðvikudagur, mars 08, 2006
 
Í dag þurfti ég að fara með mömmurnar mínar í prufuferð út í sjoppu í vagninum mínum. Þær voru eitthvað smá tens yfir að fara til læknisins á morgun og þurftu að æfa sig. Það eru "bara" -2°C úti núna, í gær voru -11°C og ég var ferlega dúðuð. En þetta gekk allt vel og þær eru ekkert hræddar við að fara með mér í strætó á morgun.
Áðan fékk ég sendingu frá Möggu Steinu í danmörku. Hún hafði prjónað á mig fínustu peysu og rosalegt dúlluteppi. Þar að auki sendi hún mér síðerma bol og buxur. Takk, takk magga og haddi, þetta voru ægilega fínar gjafir.
En afrek dagsins hjá mér finnst mér samt vera nýji leikurinn sem ég fann upp á. Hann er enn ekki kominn með nafn en hann gengur út á að kúka pínulítið í bleyjuna þannig að mömmurnar mínar vilja setja nýja bleyju. Akkúrat á tímapunktinum milli þess sem þær eru búnar að þrífa mig og áður en þær setja nýja bleyju undir mig þá kúka ég aftur beint á skiptiborðið. Svo þrífa þær mig og þá kúka ég aftur. hehe. í dag gat ég endurtekið þetta fjórum sinnum! þrífa kúka þrífa kúka þrífa kúka þrífa kúka þrífa. Ekkert smá vitlausar mömmur.
Vegna athugasemdar frá fv. rauðsokkunni Bryndísi frænku vil ég taka fram að ég var í bleikri samfellu í gærkvöldi og annari bleikri í morgun. Sannanir hér ásamt myndum af gjöfunum frá möggu og sjoppuferðinni í morgun.


þriðjudagur, mars 07, 2006
 
Hæ, hæ, allir!

Ég heiti Anna Eir og þetta er fyrsta bloggið mitt. Mig langar bara að monta mig örlítið. Ég er nefnilega orðin svo rosalega þæg og góð. Ég svaf alein í mínu rúmi frá 3 í nótt til 11 í morgun fyrir utan drekkutímana mína en þá fékk ég að koma upp í rúm til mamma minna. Auðvitað er ég búin að sofa fullt eftir það og hef ekkert grenjað eða öskrað í allan dag enda engin ástæða til, mömmur mínar sjá svo vel um mig. Þær eru svo ofsalega skotnar í mér og finnst ég vera algjör hetja þegar ég drekk, prumpa, kúka og pissa og sérstaklega þegar ég öskra ekki.
Fyrstu dagarnir voru soldið erfiðir. Ég vissi ekki alveg hvað í veröldinni ég átti að gera við þetta brjóst sem mamma var alltaf að reyna að troða upp í mig. Ég öskraði því mikið og lengi, vildi lítið sofa og vildi bara láta halda á mér. En um leið og ég fékk almennilega mikið að borða þá hef ég verið ánægð.

Það er búið að ala upp í mér alla meðgöngu og eftir að ég fæddist að ég sé fullkomin og fallegust. Ég get því ekkert að því gert að ég sé lítill egóisti. Hérna eru myndir (af mér auðvitað) frá í gær og í dag.


mánudagur, mars 06, 2006
 
Nú er gússi loksins komin til okkar. Hún fæddist 2. mars 2006 klukkan 20:19 og var 3790 g og 52 cm. Hún er ægilega sæt ákveðin lítil dama með sterk lungu. Fæðingin gekk ágætlega og mömmum og barni heilsast vel. Við erum allar rosalega ánægðar með hver aðra þó við séum úrvinda. Meiri fréttir síðar en hér eru myndir af nýja fjölskyldumeðlimnum. Hún mun fá eigin notendanafn á þessari síðu og mun vonandi vera duglegri að skrifa en mæður hennar.


miðvikudagur, mars 01, 2006
 
Kæru lesendur! Ég bið ykkur að fyrirgefa mér fyrir að skrifa ekki í nánast viku. Það er ein af mínum fáu skyldum núna að fræða ykkur um okkar líf en ég hef hina fullkomnu afsökun: skitu. Ég varð eitthvað slöpp á laugardaginn og var með mestu skitu sem ég hef fengið um ævina frá sunnudegi þar til í morgun; ég er ekki frá því að þetta sé nálægt því að vera Íslandsmet. Mér er nánast alveg batnað núna og gat meira að segja borðað í kvöld.
Að sjálfsögðu hefur daman okkar ekkert látið sjá sig og við bíðum því enn. Við fórum í skoðun til ljósmóðurinnar okkar í dag og þá sagði hún að ég yrði sett af stað miðvikudaginn 8. mars ef Gússí hefur ekki ákveðið að koma að sjálfsdáðum. Sem sagt ekki 7. mars eins og ég sagði um daginn heldur 8. mars. Það eru því miklar líkur á því að ef til þess kemur þá muni Ósk & Hákon eða Bryndís frænka fá feykilega fína afmælisgjöf. Ég er hins vegar orðin örlítið þreytt á biðinni núna (sérstaklega vegna veikindanna seinustu daga) og vona að hún komi sem fyrst. Ég sé orðið verki í hillingum :)

Hérna eru tvær nýjar bumbumyndir.