Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, maí 27, 2006
 
Í gær var Auja mamma í fríi. Svíar eru nefnilega soldið skondnir; þar sem það var frí á fimmtudaginn og frí í dag þá var frí í gær, þ.e.a.s. föstudagurinn er ekki lögbundinn frídagur en klemmdist milli tveggja frídaga og þá var frí á honum. Auðvitað var ég mjög ánægð með það því það þýddi að ég hafði báðar mömmur mínar í að snúast í kringum mig.
Við fórum allar í verslunarkjarna að leita að hægindastól svo það sé þægilegra að gefa mér brjóst inni í svefnherbergi. Þar sem allt tekur svo langan tíma með mig þá náðum við bara að fara í eina húsgagnabúð af þremur því við stoppuðum svo lengi á McDonald's. Við verðum bara að skipuleggja okkur betur næst!

Á föstudeginum fyrir viku hló ég í fyrsta skiptið í vitna viðurvist. Ég var í Hemköp (matvörubúð) með Emelíu mömmu þegar ég allt í einu skellihló og hefur mamma ekki hugmynd af hverju.
Seinasta mánudag hló ég síðan rosalega mikið og lengi þegar Kata frænka var að leika "bö" við mig enda er sá leikur afar fyndinn. Auja mamma lék líka "bö" við mig síðar um kvöldið og hló ég þá álíka mikið. Öllum fannst rosalega fyndið og ótrúlega sætt að heyra mig hlæja.

Nýjar myndir.


fimmtudagur, maí 25, 2006
 
Í dag er ég tólf vikna, jibbí.

Kata og Ari eru búin að vera í heimsókn hjá mér síðan á mánudag en þau fóru í morgun. Ég náði nú ekki að kveðja þau því ég var steinsofandi og segi því núna bara "bless, bless og takk kærlega fyrir komuna". Það var rosalega gaman að hafa þau. Fyrst var ég með varann á og hágrét þegar ég sá þau en svo fattaði ég strax að þau komu í friði og þá fengu þau oft að halda á mér.

Tvær nýjar myndir.


mánudagur, maí 22, 2006
 
Inga frænka gerði athugasemd við að ég blótaði seinast, ég ætla að reyna að hemja mig í dag.
Júróvisjón var nú stórfurðulegt. Þetta er reyndar mitt fyrsta júróvisjón svo það er kannski ekki nema von að ég hafi nú ekki getað giskað á að Finnarnir myndu vinna en mér fannst þeir samt mjög skemmtilegir.

Haukur frændi fór heim í dag og hefur verið voðalega gaman að hafa hann. Hann hjálpaði Emelíu mömmu soldið þegar Auja mamma var í Frakklandi og munaði heldur betur um það. Hann var heldur óheppinn með veðrir og biðjumst við velvirðingar á því að hafa sagt honum að það myndi verða glampandi sól og hiti.
Haukur á afmæli í dag og er orðinn 26 ára. Ég gaf honum því tvo DVD diska með furðuverkum dýranna og svo bauð ég honum á steikhús í gær.
Sjáumst vonandi sem fyrst aftur!

Og tveimur tímum eftir að ég var búin að fylgja Hauki í flugrútuna þá náði ég í Kötu móðursystur og Ara kærastann hennar í aðra flugrútu og ætla þau að vera hjá mér þangað til á fimmtudaginn.
Langamma í Sandvík hafði nýtt sér ferðina til Svíþjóðar og sendi mér ofsalega fínan postulínsskó sem hún hafði málað blóm á og áletrað með nafninu mínu og fæðingardegi. Svo sendi hún mér líka útsaumaða klúta sem eru sérlega mjúkir og því gott að kúra með hausinn á. Takk æðislega langamma!

Búin að setja inn nokkrar myndir hérna


föstudagur, maí 19, 2006
 
Shit, það er ansi langt síðan að ég bloggaði. Það hefur samt fullt gerst hjá mér.

Á þriðjudaginn fór ég með Emelíu mömmu í vinnuna til Auju mömmu. Ástæðan var eiginlega að fara að ljósrita pappíra en þar sem við mamma þurftum að drífa okkur svo mikið þá gleymdum við blöðunum. Engu að síður var nú gaman að hitta Auju mömmu.
Jahá, hvaða pappírar voru það mikilvægir að við mamma nenntum að drösla okkur í 40 mínútna strætóferð. Auðvitað ættleiðingarpappírarnir. Bráðum mun Auja mamma einnig vera skráð í kerfinu sem löglegt foreldri mitt. Ég hlakka ofsalega til!

Á miðvikudaginn kom Haukur frændi í heimsókn til mín og sama dag fór Auja mamma til Frakklands að mæla próteinin sín og verður hún fram á laugardag.
Ég og mamma drifum Hauk strax með okkur á sjúkrahúsið þar sem læknarnir tóku litla kúlu á hausnum á mömmu en hún er þeim hæfileika gædd að geta ómeðvitað myndað fitukúlur á hausnum og fær hún það frá pabba sínum sem fær það frá mömmu sinni. Ég vona nú smá að ég fái þetta ekki.

Í gær fórum við þrjú á náttúrugripasafnið uppi í háskóla. Safnið er svo risastórt að okkur gafst nú ekki tími til að skoða það allt en ég mæli með því sem ég sá.

Í dag skruppum við niður í bæ, fórum á pizza hut og röltum okkur í nokkar búðir.


Kíkið endilega á myndir af mér þegar ég fór í heimsókn í vinnuna til Auju mömmu og þegar ég fór
á safn með Hauki frænda og mömmu.


fimmtudagur, maí 11, 2006
 
Þá er það ákveðið. Mamma og pabbi eru svo yndisleg að leyfa mér að halda þrítugsafmælisveisluna (sem Byddí heimtaði um daginn!!) heima hjá þeim. Þeir sem hafa komið í veislur til mín hafa vanalega komið þangað og ættu því að vera algjörlega óhræddir.
Veislan verður laugardaginn 15. júlí en ég á formlega afmæli þann 17.. Við erum ekki búnar að slá öllu föstu en ættingjum mun vera boðið um daginn og vinum um kvöldið. Að sjálfsögðu mega þeir ættingjar sem vilja vera með um kvöldið.
Við munum setja nánari upplýsingar síðar á síðuna.


þriðjudagur, maí 09, 2006
 
Ég fór til læknis í gær og skoðaði hann held ég barasta allt hjá mér fyrir utan heyrnina. Að sjálfsögðu var ég alheilbrigð og hann sagði mömmu að hún væri ofsalega heppin að eiga mig og sagðist mamma vel vita það.
Ég var líka mæld og vegin. Ég er 6150 g og 60 cm. Ég hef því ekki lengst neitt frá því seinast, sem var fyrir 20 dögum, enda þessar mælingar kannski ekki þær nákvæmustu í heimi en ég hef þyngst um 640 g.
Eftir læknisheimsóknina fór ég í heimsókn til Eiríks en hann var bara sofandi allan tímann.

Á fimmtudaginn fór ég með Emelíu mömmu og Hlín að hlusta á Auju mömmu halda fyrirlestur í tilefni af því að hún er hálfnuð með tímann sinn í doktorsnáminu. Ég missti reyndar af fyrirlestrinum því ég steinsvaf í vagninum og Hlín var svo góð að keyra mig á meðan.
Eftir fyrirlesturinn gékk Auja mamma með mig heim en Emelía mamma og Hlín fóru í nuddtíma sem mömmur mínar fengu í brúðkaupsgjöf frá billjardvinum sínum. Auju mömmu þykir afskaplega leiðinlegt og óþægilegt að vera nudduð og gaf Hlín sinn tíma með glöðu geði.

Á föstudaginn hoppaði ég upp úr rúminu mínu og skreið inn í gestaherbergið til að tala fuglamál við Hlín en þá var hún horfin, hún þurfti nefnilega að fara heim til litla stráksins síns.
Takk fyrir komuna, Hlín, hlakka til að hitta þig næst.

Á laugardaginn fórum við allar í bæinn en stoppuðum stutt við því Emelía mamma fékk stálma enn einu sinni. Mér fannst samt gaman því ég sá fullt af fólki og fékk að hafa nýja sólhattinn minn.

Ég setti inn nýjar myndir.


fimmtudagur, maí 04, 2006
 
Á laugardaginn héldum við hangikjötsveislu og buðum fullt af fólki: Hrönn & Georg & Eiríki, Snævari & Sigrúnu, Örnu & Karvel & Arnari Smára & Hauki Frey. Hangiketið var í boði langömmu í Hveragerði og langömmu í Sandvík, grænu baunirnar og maltið var í boði ömmu og afa í Kópavogi. Við þökkum þeim alveg æðislega fyrir matinn, þetta var meiriháttar gott.

Hlín kom í heimsókn til mín á þriðjudaginn og gaf mér bol og gsm síma í algjöru gellu hulstri.
Í gær fórum við Emelía mamma og Hlín í IKEA. Við keyptum svo mikið að ég varð að vera í burðarbelti því allt dótið var í vagninum mínum.

Kíkiði á fleiri myndir.