Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
fimmtudagur, júní 29, 2006
 
Fyrir rúmri viku fékk ég þrjá naghringi því ég er búin að vera að stinga puttunum upp í mig seinustu þrjár vikur. Ég er alveg ofsalega dugleg að grípa í hringina og næ oft að stinga þeim upp í mig en stundum ratar bara höndin í munninn. Ef ég er ekki með naghring þá þykir mér mjög gott að stinga litla putta upp í mig, ég er nefnilega að æfa mig fyrir hlutverk Mini mini me í næstu Austin Powers myndinni! Annars set ég orðið allt upp í munninn sem ég næ í, ég veit ekki alveg af hverju en ég bara verð að gera það.

Í seinustu viku, þegar við vorum að versla með ömmu og afa, þá heyrðum við framlag Íslendinga í Júróvisíón í ár í einni búðinni. Okkur þótti það ægilega skemmtilegt og komumst í mikið stuð enda Silvía Nótt alveg frábær.

Á laugardaginn fórum við í picnic með þremur íslenskum pörum og börnunum þeirra, allt vinir Hrannar og Georgs. Það var mjög skemmtilegt því það er alltaf svo gaman að vera úti í náttúnni og allir voru hressir og kátir.

Í vikunni erum við Emelía mamma búnar að vera soldið í bænum og í gær fórum við í ungbarnaeftirlitið til að mæla mig. Ég er orðin 7500 g og 65,5 cm og hef því þyngst um 525 g og lengst um 2,5 cm á 26 dögum.


Kíkið á nýjustu myndirnar.


föstudagur, júní 23, 2006
 
Hæ, hæ allir.
Núna ætla ég að segja ykkur allt sem hefur gerst frá því á þriðjudaginn í seinustu viku. Lola, vinnufélag Auju mömmu, kom þá í heimsókn til mín. Lola er rosalega hrifin af mér og hefur talað við mig síðan ég var í maganum á mömmu og hún kallar sig Lolu frænku :)

Það var annars svo rosalega heitt í byrjun seinustu viku að við mamma vorum inni í þrjá daga.

Á föstudeginum fór Auja mamma með rútu á ráðstefnu til Tällberg, sem er fallegt svæði við vatnið Siljan. Amma og afi á Brekkulæk komu í heimsókn til okkar á föstudeginum og við keyrðum saman á æðislegum Volkswagen til Tällberg í sumarhús sem þau leigðu. Okkur langaði nefnilega öll að vera með Auju mömmu þá fjóra daga sem ráðstefnan hennar var.
Ferðin til Tällberg var ömurlega leiðinleg að mínu mati og ég lét mömmu og ömmu og afa sko heyra það á leiðinni. Það er auðvitað ekkert skemmtilegt að vera niður njörvaður í marga tíma, ekki þegar maður er svona mikill fjörkálfur eins og ég. Ferðin á að taka um 3,5 tíma en tók 6,5 því það þurfti að stoppa nokkrum sinnum til að róa mig.
Það var bara nokkuð gaman í sumarhúsinu og ekkert vesen á mér. Við fórum í picnic, skoðuðum næstu smábæi og spiluðum kana.
Heimferðin á mánudeginum var jafn löng og sú fyrri en samt öllu skemmtilegri því Auja mamma kom með okkur og hún var í því að skemmta mér.
Fyrsta fríið mitt var því barasta nokkuð vel heppnað og mjög skemmtilegt.

Amma og afi voru hjá mér þangað til á miðvikudaginn en þá óku þau suður til Halmstad á tangóhátíð.
Takk ofsalega vel fyrir samveruna, amma og afi, við sjáumst eftir nokkra daga!

Kíkið endilega á myndir úr fimmtándu viku og sextándu viku.


 
Elsku lesendur!

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem bloggleysi okkar hefur valdið ykkur. Að sjálfsögðu eru góðar ástæður að baki þessu.
Í seinustu viku ákvað ég að strauja tölvuna okkar og tók það mig 2 daga að koma öllu í gang aftur enda hef ég aldrei gert þetta áður og er svo sem ekkert sérlega góð á tölvur. Ég fór því að sofa á fimmtudeginum í góðri trú um að allt væri komið í lag. Það stóð því til að blogga á föstudeginum en þegar ég kveikti á kvikindinu þá birtist blár skjár með villumeldingu. Mér tókst engan veginn að fá tölvuna til að opna Windows og lagði málið niður.
Þegar við komum til baka úr fríinu með Önnu Kristínu og Þorvarði þá fór Þorvarður í viðgerðir á tölvunni enda tölvunarfræðingur að mennt. Eftir margar tilraunir þá tókst loksins næsta dag að staðsetja vandræðin; það gengur ekki að hafa DVD skrifarann okkar í gangi þegar við ræsum tölvuna!! Þvílíkt heimskulegt vandamál en það var heldur betur lán að Þorvarður var hjá okkur því annars væri tölvan örugglega ekki komin í gang enn.


mánudagur, júní 12, 2006
 
Úff, það er alveg ofboðslega heitt úti í dag, 30,4 gráður eins og er. Við mamma ætlum því ekki út fyrr en seinnipartinn því það er alls ekkert notarlegt að vera í svona miklum hita. Spáð er álíka góðu veðri alla vikuna.

Ég setti inn eina mynd af mömmu útældri. Ég lá á maganum á mömmu og þurfti allt í einu að æla. Þetta voru rosalegastu þrjár gusur sem mamma hefur séð.


sunnudagur, júní 11, 2006
 
Í gær fórum ég með mömmum mínum í picnic með billjardvinum okkar. Það var alveg steikjandi hiti og mikil sól en ég varð minnst vör við það því ég var alltaf í skugganum.

Í dag var líka rosalegur hiti, 27 gráður, en við fórum samt út í labbitúr. Ég var bara á bleiunni og hafði það gott. Við prófuðum nýja leið í skóginum sem reyndist hin mesta torfæra og var stígurinn mjórri en vagninn hálfa leiðina og hallaði mikið að hluta. Auja mamma neitaði hins vegar að gefast upp og þvældi okkur áfram og eftir á að hyggja var þetta bara skemmtilegt.
Við erum búnar að ná í viftuna okkar og munum stilla henni upp við fótgaflinn á næstu dögum því það er oft svo heitt á nóttunni hérna á sumrin, hef ég heyrt ;)

Skoðið endilega glænýjar myndir af MÉR.


föstudagur, júní 09, 2006
 
Ég verð að monta mig soldið. Ég hringdi í Sollu frænku áðan, svona til að vita hvernig henni hefði gengið í prófunum. Solla er nefnilega að læra kennarann. Ég frétti þá að Aníta (dóttir hennar Sollu) hafi fengið kettling í afmælisgjöf um daginn. Eftir miklar vangaveltur var valið nafnið, já haldið ykkur, EMELÍA á læðuna. Solla sagði að það væri vegna þessa að hún væri svo lífleg og skemmtileg. Jéminn eini, ég hef eignast mína fyrstu nöfnu, ég er ekkert smá stolt og hlakka óskaplega til að hitta þessa nýju vinkonu mína í sumar. (Þetta þýðir samt ekki að þú getir ekki skírt dóttur þína eftir mér, Hlín!)


 
Seinasta helgi var alveg frábær því hún var þvílíkt löng. Svíar áttu nefnilega þjóðhátíðardag á þriðjudaginn og þá var mánudagurinn klemmudagur og þ.a.l. frídagur. Auja mamma var því í fríi frá föstudegi til miðvikudags.

Á miðvikudagskvöldið fór Emelía mamma í bíó á DaVinci kóðann með Hrönn og var ég því heima hjá Auju mömmu. Ég var smá óþekk, vildi ekki pelann minn og sofnaði því svöng því ég vissi að þegar ég vaknaði næst væri góða mjólkin mín komin.

Í gær komu Hrönn og Eiríkur í heimsókn til mín. Við fórum í smá göngutúr og keyptum gott með kaffinu, svo lékum við Eiríkur okkur þegar ég var vakandi.

Kíkið endilega á nýju myndirnar úr 14. viku og 15. viku.


sunnudagur, júní 04, 2006
 
Einn aðalaðdáandi minn (Anna frænka) hringdi í mömmu í gær og kvartaði yfir því að mamma hefði ekki sett inn nýjar myndir af mér lengi. Ég ætla því bara sjálf að sjá um þetta í framtíðinni.

Á þriðjudaginn fórum við Emelía mamma í IKEA með Hrönn og Eiríki. Mér finnst alveg ágætlega gaman í IKEA því þar eru svo spennandi hlutir en Eiríkur var mjög leiður og þurftur við að hraða okkur soldið í gegnum búðina.

Á miðvikudaginn náðum við í Ósk á flugrútuna. Ósk fór reyndar einni stoppustöð of langt og ákvað barasta að labba til baka. Sú ferð reyndist aðeins erfiðari en áætlað var og Ósk var allt í einu komin inn á byggingarsvæði og farin að vaða mýri þar sem tvö dádýr tóku á móti henni. Sem betur fer vorum við í stöðugu símasambandi við hana og sáum hana nálgast í eldrauðri flíspeysu, svo allt reddaðist á endanum enda Ósk gamall skáti.

Á fimmtudeginum fórum við í verslunarkjarna með Ósk því hún var búin að ákveða að styrkja Svía með dágóðri upphæð. Síðar um daginn fórum við mamma og Ósk að taka á móti Möggu Steinu á flugrútuna. Við fórum síðan allar beinustu leið í vinnuna til Auju mömmu því hún bauð upp á freyðivín í tilefni því að fyrsta greinin, þar sem hún er fyrsti höfundur (hún skrifaði greinina alein!), hefur verið samþykkt til birtingar. Mamma mín er svo klár!!!

Föstudaginn byrjaði ég á því að láta vega mig og meta. Ég er orðin 6975 g og 63 cm. Á 26 dögum hef ég því þyngst um 850 g og lengst um 3 cm. Ég var líka bólusett gegn 5 sjúkdómum en grét ekkert þegar ég fékk sprautuna enda er ég þvílík hetja. Ég á líka eftir að fara tvisvar í viðbót svo það er eins gott að venja sig bara við þetta strax.
Þennan dag varð ég þriggja mánaða og í raun átti ég líka eins árs afmæli því fyrir nákvæmlega ári bjuggu mömmur mínar mig til. Ég held ég haldi mig nú samt við venjulegu talninguna sem þið hin notið, þ.e. dagar eftir að maður fæðist. Ég held ég fái heldur ekki mömmur mínar ekki til að samþykkja að gefa mér tvær afmælisgjafir á ári :)
Ég fór síðan með mömmum mínum og gestunum í bæinn þar sem við löbbuðum alveg óskaplega mikið því við urðum að sýna þeim hvað Stokkhólmur er fallegur í góðu veðri. Svo þræddum við nokkrar búðir og allir keyptu sér eitthvað.

Í gær skruppum við í verslunarkjarnan og fórum svo í risastóran garð (Hagaparken) með picnicteppi og nesti því veðrið var svo gott.

Í dag fórum við aftur í picnic, núna í garðinum við Ulriksdalsslottið. Veðrið var ekki neitt sérstakt en nestið og félagsskapurinn var frábær.

Kíkið á nýjar myndir úr 13. viku og 14. viku. Þar sjáiði m.a. fínu fötin og dótið frá Möggu Steinu og Ósk og ofsalega falleg föt sem Maja, mamma hennar Óskar, prjónaði. Ég virðist vera komin í áskrift hjá Maju því hún hefur þegar sent mér húfur, vettlinga og sokka.