Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, september 23, 2006
 
Í gær var bókaklúbburinn hennar Auðar haldinn heima hjá okkur. Aujan mín eldaði ofsalega gott pasta handa 9 manns (ég fékk að borða líka :)) og hafði lítið fyrir því. Við tjölduðum fína stellinu okkar (eigum reyndar bara 7 diska í því) og fínum glösum. Allt sem var á borðinu höfðum við fengið að gjöf frá vinum og ættingjum í brúðkaupsgjöf, jólagjöf eða búgjöf og höfðu gestirnir orð á því hversu fínt þetta var.
Paul og Emma komu með Måns litla. Anna Eir og Måns voru nú ekkert sjúk í hvort annað en það var greinilega smá gaman að sjá annað barn. Þau fóru í bað saman og fannst Önnu Eir soldið skrýtið að vera ekki ein í baði. Hún lék sér nánast ekkert í baðinu því hún starði svo mikið á Måns.

Seinasta mánudag fórum við Anna Eir í sund eins og vanalega. Í þessum tíma áttum við að kafa. Hinir höfðu reyndar flestir kafað í tímanum á undan en þá mættum við ekki því Anna Eir var enn með svo mikið kvef. Mér fannst þessar köfunaraðferðir svo hrikalega á að lítast að ég ákvað að bíða með það þar til í næsta tíma.

Þennan sama mánudag fékk Anna Eir í seinasta skiptið brjóst hjá mér. Ég var búin að vera án mjólkur í tæpar 3 vikur og fannst í raun alveg nóg komið. Ég hafði reyndar ekki þjáðst nein ósköp en var alveg til í að fá venjulegan mat. Það var t.d. ekki einu sinni hægt að kaupa sér samloku út í búð, hvað þá meira. Anna Eir fékk móðurmjólkina í sex og hálfan mánuð sem þykir bara mjög gott. Ég tel líka að það sé í raun best fyrir hana að vera ekki að drekka þetta glundur frá mér lengur því ef ske kynni að ég borðaði eitthvað með mjólkurvöru í þá færi það í hana og henni myndi líða illa. Það var nefnilega ekki hægt að treysta búðarfólki fyrir fimm aur um innhald í því sem maður keypti. Það sagði oft að varan innihéldi ekkert með mjólkurvöru í en þegar við báðum þau að telja upp allt þá kom iðullega í ljós smör eða smjörlíki eða sýrður rjómi eða eitthvað annað.
Fyrstu svona 2-3 dagana var Anna Eir ekki alveg sátt við að fara að sofa hjá mér án þess að fá að drekka og þurfti Auður að svæfa hana því hún stóð bara á orginu hjá mér en steinþagði þegar Auður tók hana enda veit hún að það þýðir ekkert að krefja Auði um mjólk. Sem betur fer var Auður að kenna upp í Háskóla og var því stutt þessa daga sem þýddi að hún náði að svæfa Önnu Eir nánast alla lúrana hennar :)
En núna virðist hún vera búin að sætta sig við nýju aðstæðurnar og þambar vatn á nóttunni í staðinn. Og ég held bara að hún hafi ekki nokkurn tímann sofið eins vel og seinustu daga.

Myndir af Önnu Eir og af öðru fólki.


sunnudagur, september 17, 2006
 
Á föstudaginn komu amma á Brekkulæk, langamma í Hveró og Kata móðursystir mín í heimsókn til mín. Auja mamma og Kata áttu báðar afmæli þennan dag, mamma varð 29 ára og Kata 23. Auja mamma vissi ekki af heimsókninni og hitti gestina okkar ekki fyrr en á veitingarhúsinu sem ég og Emelía mamma sögðum henni að mæta á. Auja mamma fékk ofsalega marga pakka og var rosalega ánægð með daginn. Ég og Emelía mamma fengum meira að segja líka pakka.
Í gær fórum við aðeins í bæinn. Gestirnir okkar keyptu sér allir skó og amma keypti sér tösku og Kata úlpu. Langamma keypti sér alveg eins fótanuddtæki og mamma á eftir að hafa prófað tækið hennar :) Annars var mikill hávaði í bænum, fullt af fólki og kosningaáróður; það eru nefnilega alþingis- og sveitastjórnarkosningar í Svíþjóð í dag.

Hérna sjáið þið gamlar myndir síðan úr heimsókn Kötu og Ara.


föstudagur, september 15, 2006
 
Aujan mín á afmæli í dag og er 29 ára. Hún hefur verið með smá 29 ára krísu í vikunni en það fjaraði fljótt út í gær þegar hún fór í almennilegt fótabað. Ég veit hvernig þetta hljómar en Auður fékk fótanuddtæki frá okkur Önnu Eir í gær. Við vorum svo spenntar að við gátum ekki beðið með að gefa gjafirnar. Við gáfum Auði líka rosa flottan kaffibaunamalara sem malar nákvæmlega það magn sem maður vill og í þeim grófleika sem maður vill. Í dag ætlum við nefnilega út að borða og myndum því ekki hafa tíma til að opna pakka fyrr en seint í kvöld.

Á miðvikudaginn leigðum við okkur bíl til að fara í risastóran verslunarkjarna (Barkarby) sem er í svona korters fjarlægð frá okkur, þ.e.a.s. ef maður er á bíl. Við fórum eitt sinn í Barkarby með strætó, lest og strætó og tók það okkur rúmlega klukkutíma og þó vorum við heppnar með áætlanirnar!!
Það kostar ekki svo mikið að leigja lítinn bil í einn sólarhring og vorum við ákveðnar í því að gera það einhvern tímann í stað þess að eiga bíl sjálfar. Það kostar hvort eð svipað og að taka leigubíl fram og til baka.
Allavega, við fórum auðvitað í barnabúð og svo í IKEA. Það bregst ekki að þegar við förum í IKEA þá kaupum við einher ósköp en borgum yfirleitt ekki mikið fyrir það, ekki af því að við reynum að smygla helmingnum fram hjá afgreiðslufólkinu, heldur af því að IKEA er bara svo fjandi ódýr búð enda höfum við keypt ógrynni þar í gegnum tíðina.
Það sem Auður vildi m.a. kaupa var bali sem var ætlaður til fótabaðs. Sem sagt bara bali, ekki tengdur við neitt rafmagn og ekkert fínerí en þó í lagi eins og fætur og smá rifflaður í botninum. Ég var búin að kaupa fótanuddtækið fyrr í vikunni og sá því ekki tilgang í að kaupa einhvern bala sem hún myndi aldrei nota en varð auðvitað að samþykkja balann til að í fyrsta lagi ekki vera leiðinleg og svo að vera ekki grunsamleg (auk þess kostaði balinn nánast ekki neitt). Balinn kom síðan að góðum notum í gær. Þegar Auður var í notalega og tæknilega fótabaðinu sínu þá stakk ég mínum tám í balann. Það var ekkert smá kósý hjá okkur að sitja saman í fótabaði og horfa á sjónvarpið.

Við keyptum fyrir löngu flugmiða til Íslands um jólin. Við Anna Eir komum 18. des. og Auður kemur 22 des.. Ég fer til baka til Svíþjóðar 2. jan en Auður og Anna Eir fara 8 jan.. Þá vitið þið það og getið farið að plana jólin :)

Ég verð aðeins og kvarta yfir Svíunum. Bölvaðir merðirnir er alveg að fara með mig núna. Það er ábyggilega ár síðan að við gátum keypt papríkusnakk frá Estrella (svipað og Maarud) og þá var bara orðin ein búð sem seldi það. Ég sætti mig svo sem við það þrátt fyrir að ég væri ekkert ánægð með það enda er papríkusnakkið lang best. En núna er mér allri lokið. Svíar eru hættir að selja Nesquik. Ég meina að þeir eru algjörlega hættir að selja Nesquik í allri Svíþjóð. Mér hefur reynst erfitt að finna nesquik og hef einmitt líka séð að þær búðir sem áður seldu það eru hættar því. Ég trúði samt aldrei að nokkur heilvita þjóð myndi nokkurn tímann hætta með öllu að selja þessa dásamlegu vöru og hringdi því í heildsalann fyrir Nestlé í Svíþjóð sem tilkynnti mér þá þessar hörmulegu fréttir. Ástæðan var að það seldist ekki nógu mikið. Svíar eru nefnilega helteknir af O’boy og hafa þrálátlega spurt mig í vinnunni af hverju ég drekki Nesquik. Ég er ekki að grínast, ég hef ábyggilega verið spurð 20-30 sinnum af þessu í vinnunni. Ef þessir vitleysingar myndu prófa Nesquik þá myndu þeir ekki spyrja svona heimskulega og það er þeim að kenna að ég fæ ekki Nesquikið mitt nema að flytja það inn til landsins frá nágrannlöndunum. Sem betur fer þekki ég yndislegt fólk (Ósk og Hlín og líklega einhverjir fleiri) sem hefur komið með Nesquik til mín vegna þess hversu erfitt ég hef átt með að finna það hér.


mánudagur, september 11, 2006
 
Ég er öll að skána í horinu en ákvað samt að sleppa sundtímanum mínum í dag.

Ég fór í læknisskoðun í dag og var líka vegin og metin. Ég er orðin 8670 g og 69,5 cm og hef því þyngst um 320 g og lengst um 0,5 cm á 17 dögum. Ég þyngist og lengist fínt, sagði hjúkkan.

Fyrir rúmri viku hætti ég að drekka á nóttunni. Ég væri nú reyndar alltaf til í að fá smá sjúss þegar ég vakna en mömmur mínar eru að reyna að venja mig af þessu því það hefur vonandi í för með sér að ég sef betur. Stundum mótmæli ég soldið, sérstaklega þegar Emelía mamma heldur á mér en þá reyni ég bara að ná mér sjálf í brjóstið með því að ýta mér niður og toga í bolinn :) Í staðinn reynir mamma að bjóða mér vatn, fuss og svei.

Hérna getið þið kíkt á myndir frá því í gær þegar ég fór með báðum mömmum mínum á rólóinn.


laugardagur, september 09, 2006
 
Núna er ég búin að smakka ósköpin öll af furðulegum mjólkurvörustaðgenglum: hrísgrjónamjólk, haframjólk frá nokkrum mismunandi framleiðendum, hafrajógúrt, sojajógúrt, hafrarjóma, smjör, smjörlíki, cheddar ost og mozzarella ost. Ég býst nú svo sem aldrei við því að þetta sé eitthvað sérstaklega gott en ég bragða samt á þessu með jákvæðum hug og hefur flest komið mér nokkuð á óvart með því að vera ætt og jafnvel í áttina að vera alveg ágætt.
Það versta af þessu er tvímælalaust hrísgrjónamjólkin. Ég get eiginlega ekki lýst bragðinu, það var svo skrýtið. Kannski var hún eins og einhver olía sem maður gæti fundið í smiðjunni hans afa (bragðið minnti mig á lyktina úr smiðjunni) en samt um leið þunn eins og vatn.
Það besta er líklega hafrajógúrtin, sojajógúrtin og smjörið. Hafrarjóminn er samt alveg stórgóður í matargerðina og myndi ég líklega ekki finna fyrir miklum mun ef ég vissi ekki hvaða rjóma við værum að nota. Einnig virkaði smjörlíkið vel í súkkulaðikökuna sem Auður bakaði.
Ostarnir voru soldið skrýtnir en alveg þess virði að smakka, en þó bara einu sinni. Ég efa nú að ég eigi eftir að láta þá ofan í mig aftur en þeir gáfu mér tækifæri á að búa til pizzu og steikta samloku.
Haframjólkin er ekkert meiriháttar en alveg þolanleg og í raun nauðsynleg fyrir mig því ég bara hreinlega get ekki borðað brauð án þess að fá mér kakómjólk með.

Litla dýrið okkar hefur annar verið veik síðan aðfararnótt föstudagsins. Hún hefur ælt þvílíkt, verið með rosalegt hor og slöpp. Litla skinnið hefur verið svo slöpp að hún hefur fengist til að liggja hjá okkur án þess að vera á iði og þetta því í raun í fyrsta skiptið þar sem hún hefur viljað kúra okkur :)
Hérna getið þið séð mynd af Önnu Eir veikri.


fimmtudagur, september 07, 2006
 
Ég er orði frekar dugleg að borða þó ég segi sjálf frá. Mömmum mínum finnst það reyndar líka þó þeim finnist ég líka oft vera óþekk. Eina leiðin til að ég borði er að ég hafi dót til að leika með og helst verð ég að fá nýtt dót annan hvern dag, annars verð ég reið og vil ekki borða. Og hananú!
Ég hef meira að segja fengið að leika mér í hnífaparaskúffunni á meðan ég borðaði. Allar teskeiðarnar og allar mínar skeiðar urðu svo skítugar að það þurfti að skella þeim í uppþvottavélina.

Á mánudögum er ég á sundnámskeiði og er búin að fara í þrjá tíma. Mér þykir mjög gaman í sundi enda þrælvön, fer í bað á hverjum degi.

Í vikunni hef ég tvisvar farið í "Öppna förskolan" en það er ætlað börnum sem eru enn ekki farin á leikskóla. Þá mætir maður með foreldrum sínum þegar maður vill og leikur sér við hina krakkana og stundum syngjum við saman. Mér þykir það líka gaman, brosi mínu breiðasta og heilla allar mömmurnar. Þegar við syngjum þá horfi ég agndofa á.

Myndir seinustu daga.


sunnudagur, september 03, 2006
 
Í gær var ég hálfs árs. Mömmur mínar buðu því öllum sem við þekkjum í Uppsala og Hrönn, Georg og Eiríki í afmæli til mín og til að fagna því að ættleiðingin mín er skráð í öll kerfin í Svíþjóð. Því miður komust ekki Uppsalabúarnir en það var samt rosalega gaman hjá okkur Eiríki, ég horfði oft agndofa á allt sem hann kunni. Auja mamma gerði rosalega gott með kaffinu, bakaði súkkulaðiköku án mjólkurvara svo Emelía mamma gæti fengið eitthvað, gerði heitan rétt og fleira.

Annars er ég orðin svo hrikalega dugleg að lyfta mér upp á hnén, alveg sjálf. Mér tókst það í fyrsta skiptið á föstudaginn og í dag gerði ég það oft. Sjáiði bara myndirnar.

Nýjar myndir frá ágúst og úr afmælinu mínu.