Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
föstudagur, september 15, 2006
Aujan mín á afmæli í dag og er 29 ára. Hún hefur verið með smá 29 ára krísu í vikunni en það fjaraði fljótt út í gær þegar hún fór í almennilegt fótabað. Ég veit hvernig þetta hljómar en Auður fékk fótanuddtæki frá okkur Önnu Eir í gær. Við vorum svo spenntar að við gátum ekki beðið með að gefa gjafirnar. Við gáfum Auði líka rosa flottan kaffibaunamalara sem malar nákvæmlega það magn sem maður vill og í þeim grófleika sem maður vill. Í dag ætlum við nefnilega út að borða og myndum því ekki hafa tíma til að opna pakka fyrr en seint í kvöld. Á miðvikudaginn leigðum við okkur bíl til að fara í risastóran verslunarkjarna (Barkarby) sem er í svona korters fjarlægð frá okkur, þ.e.a.s. ef maður er á bíl. Við fórum eitt sinn í Barkarby með strætó, lest og strætó og tók það okkur rúmlega klukkutíma og þó vorum við heppnar með áætlanirnar!! Það kostar ekki svo mikið að leigja lítinn bil í einn sólarhring og vorum við ákveðnar í því að gera það einhvern tímann í stað þess að eiga bíl sjálfar. Það kostar hvort eð svipað og að taka leigubíl fram og til baka. Allavega, við fórum auðvitað í barnabúð og svo í IKEA. Það bregst ekki að þegar við förum í IKEA þá kaupum við einher ósköp en borgum yfirleitt ekki mikið fyrir það, ekki af því að við reynum að smygla helmingnum fram hjá afgreiðslufólkinu, heldur af því að IKEA er bara svo fjandi ódýr búð enda höfum við keypt ógrynni þar í gegnum tíðina. Það sem Auður vildi m.a. kaupa var bali sem var ætlaður til fótabaðs. Sem sagt bara bali, ekki tengdur við neitt rafmagn og ekkert fínerí en þó í lagi eins og fætur og smá rifflaður í botninum. Ég var búin að kaupa fótanuddtækið fyrr í vikunni og sá því ekki tilgang í að kaupa einhvern bala sem hún myndi aldrei nota en varð auðvitað að samþykkja balann til að í fyrsta lagi ekki vera leiðinleg og svo að vera ekki grunsamleg (auk þess kostaði balinn nánast ekki neitt). Balinn kom síðan að góðum notum í gær. Þegar Auður var í notalega og tæknilega fótabaðinu sínu þá stakk ég mínum tám í balann. Það var ekkert smá kósý hjá okkur að sitja saman í fótabaði og horfa á sjónvarpið. Við keyptum fyrir löngu flugmiða til Íslands um jólin. Við Anna Eir komum 18. des. og Auður kemur 22 des.. Ég fer til baka til Svíþjóðar 2. jan en Auður og Anna Eir fara 8 jan.. Þá vitið þið það og getið farið að plana jólin :) Ég verð aðeins og kvarta yfir Svíunum. Bölvaðir merðirnir er alveg að fara með mig núna. Það er ábyggilega ár síðan að við gátum keypt papríkusnakk frá Estrella (svipað og Maarud) og þá var bara orðin ein búð sem seldi það. Ég sætti mig svo sem við það þrátt fyrir að ég væri ekkert ánægð með það enda er papríkusnakkið lang best. En núna er mér allri lokið. Svíar eru hættir að selja Nesquik. Ég meina að þeir eru algjörlega hættir að selja Nesquik í allri Svíþjóð. Mér hefur reynst erfitt að finna nesquik og hef einmitt líka séð að þær búðir sem áður seldu það eru hættar því. Ég trúði samt aldrei að nokkur heilvita þjóð myndi nokkurn tímann hætta með öllu að selja þessa dásamlegu vöru og hringdi því í heildsalann fyrir Nestlé í Svíþjóð sem tilkynnti mér þá þessar hörmulegu fréttir. Ástæðan var að það seldist ekki nógu mikið. Svíar eru nefnilega helteknir af O’boy og hafa þrálátlega spurt mig í vinnunni af hverju ég drekki Nesquik. Ég er ekki að grínast, ég hef ábyggilega verið spurð 20-30 sinnum af þessu í vinnunni. Ef þessir vitleysingar myndu prófa Nesquik þá myndu þeir ekki spyrja svona heimskulega og það er þeim að kenna að ég fæ ekki Nesquikið mitt nema að flytja það inn til landsins frá nágrannlöndunum. Sem betur fer þekki ég yndislegt fólk (Ósk og Hlín og líklega einhverjir fleiri) sem hefur komið með Nesquik til mín vegna þess hversu erfitt ég hef átt með að finna það hér. |